BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar lutu í gras í fyrsta leik

16.11.2019

Blikar urðu að sætta sig við 2:3 tap gegn KA í fyrsta leik Bose mótsins. Léleg færanýting og klaufaskapur í vörninni urðu þess valdandi að stigin þrjú fóru norður að þessu sinni. Mörk þeirra Höskuldar Gunnlaugssonar og Bjarna Þórs Hafstein voru hins vegar falleg og glöddu töluvert marga áhorfendur á Kópavogsvelli.

Greinilegt var að erfiðar æfingar undanfarinna daga sátu nokkuð í leikmönnum Blika. Við áttum margar feilsendingar og vorum stundum seinir í tæklingar. Að vísu byrjuðum við leikinn af miklum krafti og skoraði Höskuldur gullfallegt mark eftir frábæra fyrirgjöf Alexanders Helga strax á þriðju mínútu. Töluverð ákefð var í okkar mönnum í upphafi í sóknarleiknum en smá bras á varnarleiknum.  Við vorum miklu meira með boltann nánast allan leikinn og náðum oft að opna KA vörnina. En sóknarnýting var slök í leiknum og svo bjargaði stöngin og sláin Norðanmönnum þrisvar í leiknum.

Við lentum hins vegar töluvert oft í vandræðum með þriggja manna varnarlínuna þegar KA menn náðu knettinum og sóttu hratt á okkur. Það er greinilegt töluvert í land að mastera þetta leikkerfi. En þetta er það sem þjálfararnir voru búnir að vara stuðningsmenn Blika við. Það gæti orðið bras á okkur í fyrstu vetrarleikjum á meðan þeirra taktík væri að síast inn. 

Margir ungir og efnilegir leikmenn fengu tækifæri í leiknum. Svo spilaði Anton Ari markvörður sinn fyrsta leik fyrir Blikaliðið. Í lokin var meðalaldur Blikaliðsins sjálfsagt í kringum 19 ár. Einkum má hrósa Benedikt Warén og Bjarna Þór Hafstein fyrir þeirra innkomu. Benedikt stjórnaði miðjuspilinu af miklum krafti og Bjarni Þór setti mjög snyrtilegt mark.

Næsti leikur okkar er á fimmtudaginn kl.17.00 á Kópavogsvelli gegn Valsmönnum. Það verður athyglisverður leikur en Valsmenn unnu Stjörnuna 3:2 í sínum fyrsta leik á Bose mótinu.  Unglingalandsliðsmenn Blika okkar verða komnir úr verkefnum og Thomas Mikkelson mættur á klakann. Það má því búast við hörkuleik.

-AP

Til baka