BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar hrukku í gang

11.03.2017

Blikar unnu öruggan 0:4 sigur á Þrótti í Lengjubikarnum í Egilshöllinni í gær. Loksins sýndu strákarnir okkar hvað í þeim býr og áttu rauðröndóttir Þróttara engan sjens i frískt Blikaliðið. Staðan í leikhléi var 0:2 og við bættum síðan tveimur mörkum við í seinni hálfleik. Það voru þeir Willum Þór Willumsson, Höskuldur Gunnlaugsson og Martin Lund Pedersen 2 sem settu mörk okkar pilta.

Blikar pressuðu Laugardalspiltana framarlega strax í byrjun og það sló þá rauðklæddu nokkuð út af laginu. Óöryggi setti svip sinn á leik heimapilta og eftir mistök markvarðar skoraði hinn ungi og efnilegi Willum sitt fyrsta mark í opinberum leik fyrir Blikaliðið. Andri Rafn var að venju óþreytandi um allan völl og hann rændi knettinum af varnarmönnum Þróttar á 26. mínútu. Renndi honum á Höskuld félaga sinn sem skoraði gott mark með föstu skoti.

Yfirburðir Blika héldu áfram í síðari hálfleik með Martin Lund fremstan í flokki. Það var því viðeigandi að hann setti fyrstu tvö opinberu mörkin síní síðari hluta hálfleiksins. Sóknirnar buldu á Þróttaraliðinu og voru bakverðirnir Davíð Kristján og Guðmundur frískir í sóknartilburðum sínum. Einkum er gaman að sjá hver Davíð og Martin Lund eru farnir að ná vel saman á vinstri vængnum. Með smá heppni hefðum við getað skorað 2-3 mörk til viðbótar en nokkrar vænlegar fyrirgjafir skiluðu okkur því miður ekki fleiri mörkum.

Hrósa verður öllu Blikaliðinu fyrir góðan leik. Boltinn flaut vel um allan völl og hvað eftir annað opnaðist vörn heimapilta eftir frískar og hugmyndaríkar sóknir þeirra grænklæddu. Oliver var eins og kóngur á miðjunni og dreifði boltanum vel kantana á milli. Martin Lund sýndi það og sannaði að hann er gríðarlega öflugur leikmaður. Tokic er að komast í betra leikform og hann spilaði vel fyrir liðið. Einnig er hann skemmtilega ófyrirleitin og hikar ekki við að taka Suarez dýfur ef hann telur það henta liðinu. Að vísu fékk hann gult spjald fyrir eina slika dýfu en það kostar klof að ríða röftum eins og kerlinginn sagði.  Í lokin má geta þess að hinum unga og efnilega unglingalandsliðsmanni Aroni Kára Aðalsteinssyni fram með hverjum leik. Flott hjá ykkur strákar!

Næsti leikur liðsins er ekki fyrr en fimmtudaginn 23. mars gegn Fram á gervigrasvellinum í Úlfarársdal. Það verður gaman að komast undir bert loft á nýjan leik!

-AP

Til baka