BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar á tímamótum

24.08.2016

Nokkrir leikmenn meistaraflokks karla hafa náð ákveðnum tímamótum á ferli sínum að undanförnu. Þar ber hæst að Andri Rafn Yeoman er kominn með 145 leiki í efstu deild og er þar með orðinn leikjahæsti leikmaður Breiðabliks í efstu deild karla frá upphafi.  Það er skemmtileg tilviljun að hann tók metið af núverandi þjálfara sínum Arnari Grétarssyni. Árangur Andra Rafns er þeim mun áhugaverðari að hann er ekki nema 24 ára gamall og ætti því að eiga mörg ár eftir til að bæta metið sitt.  Andri Rafn spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik aðeins 17 ára gamall árið 2009 og hefur þar að auki spilaði 23 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands.

En það er ekki bara Andri Rafn sem stendur á tímamótum. Damir Muminovic hefur nú leikið 51 leik í efstu deild með Blikaliðinu. Damir gekk til liðs við okkur Blika árið 2014 og hefur spilað nánast alla leiki frá þeim tíma.

Höskuldur Gunnlaugsson náði einnig 50 leikja áfanganum þegar hann kom inn á móti KR á sunnudaginn. Damir er ekki nema 26 ára og Höskuldur 22 ára þannig að þeir eiga vonandi mörg góð ár framundan í boltanum. Þeir eiga því eftir að bæta mörgum leikjum við meistaraflokksferilinn sinn.

Til hamingju með þennan áfanga Andri Rafn, Damir og Höskuldur!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka