BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar á batavegi

03.07.2014

Það væru ýkjur að segja að veður og aðrar ytri aðstæður hafi verið fyrsta flokks þegar Blikar mætttu Þórsurum í Smáranum í gærkveldi í 10. Umferð PEPSI deildarinnar. Það var dumbungur og gekk á með skúrum. Vindur af vestri til norðvesturs, 5 m/sek og hiti- ef hiti skyldi kallast -  nálægt 10°C. Sólin? Hvað er nú það? Völlurinn blautur og þungur og gerði mönnum erfitt fyrir. Áhorfendur? Já. Hve margir? Á huldu. Ekki margir, en allir dúðaðir.
Það var að duga eða drepast í þessum leik fyrir okkar menn sem þurftu á öllum stigunum að halda. Staðan satt að segja ekki spennandi .

Byrjunarlið Blika:

Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m)
Gísli Páll Helgason- Finnur Orri Margeirsson - Elfar Freyr Helgason  - Arnór Aðalsteinsson
Elfar Árni Aðalsteinsson - Olgeir Sigurgeirsson - Andri Yeoman – Guðjón Pétur Lýðsson
Elvar Páll Sigurðsson  -  Árni Vilhjálmsson

Varamenn:

Arnór Bjarki Hafsteinsson (m)
Stefán Gíslason
Tómas Óli Garðarsson
Páll Olgeir Þorsteinsson
Davíð Kristján Ólafsson
Guðmundur Friðriksson
Höskuldur Gunnlaugsson

Sjúkralisti:

Ellert Hreinsson (fór í aðgerð v. kviðslits og er að hefja æfingar)

Damir Muminovic

Leikurinn fór rólega af stað og liðin átt í mesta basli með að ná almennilegu spili. Mikið um feilsendingar og allskyns klafs og hnoð. Blikar fengu nokkur horn sem ekkert varð úr en fyrsta hættulega færið áttu gestirnir og þar vorum við stálheppnir að lenda ekki undir. En Gunnleifur varði í tvígang vel og kom í veg fyrir það. Næstu mínútur var svo meira af því sama og leikurinn náði engum takti. Og ekki bætti úr skák að mikið var flautað – enda mikið brotið – og dómarinn ekki alveg með allt á þurru. Hefði t.d. mátt gefa #9 hjá Þór gult spjald þegar hann þrumaði Gísla Pál niður aftan frá í okkar vítateig. Negldi hann niður. Og hann var ekki hættur og fyrir einhverja alveg óskiljanlega linku dómarans hékk hann inn á allan tímann. Fékk að vísu gult skömmu síðar fyrir háskaleik en komst upp með mörg brot eftir það. Meðal annars tveggja fóta rennsli í fætur Gunnleifs, eftir að búið var að flauta rangstöðu. Óskiljanlegt. Um ,,línuvörðinn“ stúkumegin verður ekki fjallað í þessum pistli. Internetið býður ekki upp á þann fídus. Úff!

Hvenær verða menn skikkaðir í sjónpróf?
En minna um þetta og meira um leikinn. Liðin skiptust á að sækja og nú fór að draga til tíðinda. Ein sókna Blika virtist runnin út í sandinn og Þórsarar voru eitthvað að gaufa með boltann rétt utan teigs. Þar hirtu okkar menn af þeim boltann og oru eldsnöggir að nýta sér það. Guðjón renndi boltanum inn í teig Árna sem framlengdi á Elfar Árna sem lagði boltann yfir marklínuna og hann lak í netið á hraða snigilsins. Glöggir menn, ólygnir og haukfránir, segjast hafa lesið „Bblik - Mfl.ka“ á boltanum ,skrifað með grænu, þegar hann lak. Staðan 1-0 fyrir Blika og 25. mínútur búnar.
Gestirnir létu þetta ekki slá sig út af laginu og gáfu aðeins í á sama tíma og við virkuðum aðeins taugaveiklaðir, komnir með forystu, eins og stundum áður. Egg eru brothætt, en ef maður er alltaf og eilíflega að hugsa um það þá brotna þau nánast af sjálfu sér. Og þannig fór að forystan fauk út um gluggann nánast af sjálfu sér. Okkar menn uggðu ekki að sér og Þórsarar jöfnuðu eftir að við misstum boltann slysalega. Elvar Páll geystist með boltann út úr vítateig okkar og hugðist senda út á kantinn en hitti þess í stað beint í belginn á #10 hjá Þór, sem lagði boltann fyrir sig og lék, óáreittur, í átt að vítateg okkar. Þar skaut hann bylmingsskoti í átt að markinu og boltinn fór í Finn og af honum þeyttist hann í netið án þess Gunnleifur kæmi vörnum við, enda lagður af stað í upphaflegu skotstefnuna. 1-1. Súrt. En brátt hýrnaði aftur um hólma og sker eins og skáldið (nei - ekki Hannes) sagði. Okkar menn lögðu ekki árar í bát heldur sóttu að marki gestanna. Gestirnir áttu líka sín augnablik en svo náðum við forystunni þegar dæmd var aukaspyrna á Þór rétt utan vítateigs á lokamínútu hálfleiksins. Guðjón Pétur tók spyrnuna og hún var föst og virtist á leið í netið en markvörðurinn náði að koma hönd á boltann sem small í slánni og þeyttist hátt í loft upp. Þórsar horfðu frosnir á þetta allir sem einn, en þegar boltinn kom niður,  í fullu samræmið við kenningar Sir Isaacs Newton um hröðun og þyngdarlögmálið , þá voru 4 Blikar mættir á línuna og þar fór fremstur Elfar Freyr og hann skallaði boltann í netið. Staðan 2-1 og þar með var fyrri hálfleik lokið.

Blikakaffið í tengibyggingunn smakkaðist fyrir bragðið betur en oft áður. Flestir fengu sér tvisvar og sumir báðu um fleiri mörk. Aðrir um betra veður. Er ekki hægt að fá ,,bæði“ eins og sagði í skaupinu hér í hitteðfyrra. Eða var það þar þar áður?

Seinni hálfleikur hófst eiginlega á úrbeiningu í beinni útsendingu. Málavextir nokkurnveginn þannig að #4 hjá gestunum hreinlega óð í skrokkinn á Andra Yeoman og slægði hann fyrir framan nef og augu ,,línuvarðar“ stúkumegin, sem lét sig málið ekki varða. Dómarinn mátti eiga það að hann sýndi honum gult, hjálparlaust, en hann sá ekki allan pakkann. 50% sjón hjá ,,línuverði“ hefði með réttu hjálpað til með réttan lit. Svei því. Þetta var svo gróft að meira að segja leikmenn okkar voru alveg brjálaðir. Og er þá mikið sagt , því þeir kvarta eiginlega aldrei og spila yfirleitt steinþegjandi. Eða því sem næst.
Núnú, en hvað sem því líður þá sóttu okkar menn heldur í sig veðrið og þjörmuðu að gestunum næstu mínúturnar og það bar loks árangur þegar Árni skallaði boltann laglega yfir markvörð gestanna og í netið eftir fyrirgjöf Andra, sem nú var búinn með aðstoð Þórðar sjúkraþjálfara að troða í sig allra nauðsynlegustu innyflum á nýjan leik. Nú voru gestirnir alveg slegnir út af laginu og var það vel. Hálfgerð örvænting hljóp nú í leik þeirra og mikið um brot og almenn leiðindi. Okkar menn fengu hinsvegar talsvert sjálfstraust við þetta mark og héldu bolta ágætlega en náðu samt ekki að setja fjórða markið. Næst því komst Elvar Páll en gott skot hans utan víateigs var vel verið af markverði gestanna. Blikar gerðu tvær breytingar á liðinu. Höskuldur kom inn fyrir Árna og Páll Olgeir kom inn í stað Guðjóns Péturs þegar skammt var til leiksloka. En leiknum var ekki lokið og það kom á daginn. Þórsarar voru í tvígang nærri því að skora sitt annað mark í venjulegum leiktíma en varnarmenn okkar náðu að bægja hættunni frá í bæði skiptin. Þeim tókst hinsvegar ekki að koma í veg fyrir að þeir skoruðu eftir hornspyrnu á 3ju mínútu í uppbótartíma, þegar leikmaður þeirr náði að taka boltann, snúa og troða  boltanum í gegnum fjölmenna vörn okkar manna. Þarna hefði þurft að ráðast á boltann og pressa manninn miklu betur.
Staðan 3-2. Panikk í stúkunni.....
Elfar Árni óð svo nánast samstundis inn í teig gestanna með boltann en skot hans fór naumlega framhjá. Og það var síðasta marktilraun þessa leiks og Blikar fögnuðu vel og lengi fyrsta sirinum í PEPSI deildinni árið 2014. Kominn tími til.
Góður sigur og með 3 stigum skutumst við aðeins upp töfluna og erum nú komnir í pakka með nokkrum liðum. Það gæti verið gagnlegt, veit það samt ekki, fyrir alla að skoða töfluna eins og hún hefði orðið ef við hefðum tapað þessum leik. En leikurinn vannst og það er aðalmálið.
Barátta okkar manna var með betra móti í dag og það öðru fremur skilaði stigunum. Það sem áður var stöngin út var nú stöngin inn – oftast. Meiri hreyfing og dugnaður skilar sér yfirleitt þannig. Enn má margt bæta í leik liðsins og vonandi eru menn alveg á tánum þó það hafi unnist leikur.

Næsti leikur skv. niðurröðun í  í þessari makalausu PEPSI deild er ekki fyrr en 14.júlí, og þá leikum við gegn Val á Hlíðarenda.

En næsti leikur okkar manna er gegn KR í Borgunarbíkarnum n.k. sunnudag og hann hefst kl.19:15.
Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að sá leikur verður að vinnast.

Við mætum.

Áfram Breiðablik !

OWK

Til baka