BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

BIKARÚRSLIT! Stjarnan - Breiðablik í úrslitum Mjólkurbikarsins á laugardaginn kl.19:15!

10.09.2018

Breiðablik og Stjarnan mætast á Laugardalsvelli á laugardag í stærsta leik ársins í knattspyrnu karla, sjálfan úrslitaleik í bikarkeppni KSÍ – Mjólkurbikarinn 2018!

Stórslagur liðanna, sem er klukkan 19:15 á laugardagskvöldi, er klárlega uppskrift að frábærri skemmtun - enda grannaslagur tveggja góðra liða þar sem bikarmeistaratitill er í boði.

Blikar freista þess að verða bikarmeistarar karla í annað sinn í sögu félagsins. Fyrsta atlaga að bikarmeistaratitlinum var árið 1971 í leik á Melavellinum gegn Víking Reykjavík en sá leikur tapaðist  1-0. En árið 2009 landaði Breiðablik bikarmeistartitlinum í úrslitaleik gegn Fram á Laugardalsvelli haustið 2009. Jafnt var eftir venjulegan leiktíma, 1-1. Eftir framlengingu var staðan 2-2 en Breiðablik sigraði vítaspyrnukeppnina 5-4.

Tvisvar áður hafa Stjörnustrákar spilað til úrslita í bikarkeppni KSÍ. Árið 2012 tapaði Stjarnan úrslitaleik gegn KR 2-1. Ári síðar var Stjörnuliðið aftur komið í bikarúrslitaleikinn. Andstæðingurinn var lið Frammara. Jafnt var eftir venjulegan leiktíma og framlengingu, 3-3 en Stjörnumenn töpuðu svo vítaspyrnukeppninni 4-3.

Leikurinn á laugardaginn er annar úrslitaleikur félaganna í Mjólkurbikarnum í ár því eins og öllum er í fersku minnu þá vann Breiðablik orrustuna á Laugardalsvelli við Stjörnuna um titilinn Mjólkurbikarmeistarar 2018 í meistaraflokki kvenna.

Bikarkeppnin síðan 1960

Bikarkeppni KSÍ var fyrst haldin árið 1960 og er Mjólkurbikarinn í ár því 59. bikarkeppnin frá upphafi.  Fyrstu árin fór keppnin að mestu fram á haustin og jafnvel inn á vetrarmánuðina og var þá jafnan leikið á Melavellinum í Reykjavík. Síðan árið 1975 hefur úrslitaleikurinn hins vegar farið fram á Laugardalsvelli.

Sigursælasta liði í bikarkeppni KSÍ frá upphafi er KR. Alls hafa KR-ingar unnið bikarinn 14 sinnum.  Næstir koma Valsmenn með 11 og Skagamenn með 9 bikarsigra og þá Framarar með 8 bikarmeistaratitla. ÍBV hefur unnið titlinn 5 sinnum, Keflavík 4 sinnum, FH og Fylkir tvisvar. Og Blikar, ÍBA, Víkingur R. hafa unnið 1 bikarmeistaratitil hvert félag.

Bikarsaga félaganna

Stjarnan og Breiðablik hafa tvisvar áður leikið til úrslita í bikarkeppni KSÍ.

Stjarnan 2012: Árið 2012 komust Stjörnumenn alla leið í bikarúrslitaleikinn en töpuðu fyrir KR 2-1. Garðar Jóhannsson skoraði fyrir Stjörnuna strax á 6. mín. Gary Martin jafnað fyrir KR á 32. mín. Það var svo Baldur Sigurðsson, núverandi leikmaður Stjörnuna, sem skoraði sigurmark KR-inga á 84. mín.

Stjarnan 2013: Strax árið eftir eru Stjörnumenn aftur komnir í bikarúrslitaleikinn eftir sigur á KR 2-1 í undanúrslitum. Andstæðingur Stjörnunnar er lið Framara sem komust í úrslitaleikinn með 2-1 sigri á Blikum í frægum undanúrslitaleik í byrjun ágúst. Aftur tapar Stjarnan. Halldór Orri og Veigar Páll koma stjörnunni 2-0 áður en Hólmbert Aron og Almarr Ormars jafna 2-2. Halldór Orri skorar aftur fyrir Stjörnuna og kemur sínum mönnum í 3-2 en Almarr Ormars jafnar leikinn 3-3 á 88. mín. Hvorugu liðinu tókst að skora í framlengingu þannig að vítaspyrnukeppni þurfti til sem Framarar unnu 6-4. 

Breiðablik 1971: Sumarið 1970 rann upp langþráð stund hjá Blikum þegar meistaraflokkur karla sigraði í 2. deild og myndi spila meðal þeirra bestu í fyrsta sinn árið 1971. Glæstur árangur náðist í bikarkeppni KSÍ árið 1971 en Breiðablik spilaði til úrslita um bikarmeistaratitilinn við Víkinga á Melavellinum 9. nóvember 1971. Á leið sinni í úrslitaleikinn lögðu nýliðarnir í 1. deild ekki lakari andstæðinga en nýbakaða Íslandsmeistara ÍBK, Val  og Fram. Leikurinn, fór fram á Melavellinum þriðjudaginn 9. nóvember, átti að fara fram helgina áður en var frestað vegna vallaraðstæðna. Gefum blaðamanni Morgunblaðsins orðiðÞað vakti strax athygli manns í fyrrakvöld, að starfsmenn vallarins höfðu næstum gert kraftaverk á vellinum, því hann var orðinn bara nokkuð þokkalegur. Að vísu nokkuð linur, en þó ekki til muna illa farinn til að að leika knattspyrnu á honum”. Eins og nú voru vallaraðstæður voru líka umræðuefni fyrir tæpum 50 árum. Og á þeim tíma gat ný íþróttafrétt í dagbalði verið 2-3 daga gömul. Leikurinn fór fjörlega af stað. Blikar fengu gott tækifæri strax á 2. mín þegar boltinn sleikti þverslánna eftir skot Gunnars Þórarinssonar. Aftur fáum við tækifæri á 15. mín þegar Einar Þórhallsson skallaði bolatann rétt framhjá stönginni. Víkingar skora sigurmark leiksina á 21. mín þegar Jón Ólafsson stangar boltana eftir aukaspyrnu-fyrirgjöf Guðgeirs Leifssonar.

Breiðablik 2009: Blikar fóru alla leið í Bikarkeppni KSÍ 2009 - VISA-bikarnum  og unnu fyrsta stóra knattspyrnutitilinn í sögu félagsins í karlaflokki. Eftir sigur á Hvöt og Hetti í 32-liða og 16-liða úrslitum mættu Blikar HK í útileik á Kópavogsvelli í 8-liða úrslitum í ekta grannaslag. Undanúrslitaleikurinn gegn Keflavíkingum á Laugardalsvelli 13. september vannst 3-2 með mörkum frá Elfari Frey, Kristni Jónssyni og Guðmundi Péturssyni. Í hinum undanúrslitaleiknum unnu Framarar KR-ingar 1-0 með marki frá Joesep Tillen á 78. mín. Sjálfur bikarúrslitaleikurinn fór svo fram á Laugardalsvelli í fallegu haustveðri laugardaginn 3. október kl.14:00 að viðstöddum 4766 áhorfendum. Alferð Finnbogason kom Blikum yfir á 60. mín en Samuel Tillen jafnaði á 73. mín. Jafnt 1-1 eftir venjulegan leiktíma. Í framlengingu skorðu bæði lið mark úr vítaspyrnu; Samuel Tillen fyrir Fram á 97. mín en Alfreð Finnbogason fyrir Blika á 102 mín. Jafnt 2-2 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu. Úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni sem Breiðablik vann 5-4. Sjá: Breiðablik bikarmeistari karla í fyrsta sinn eftir sigur í vítaspyrnukeppni.

Innbyrðis bikarleikir

Fyrsti bikarleikur Breiðabliks var 1-2 tap gegn B-lið Þróttara 1. umferð keppninnar á Melavellinum í Reykjavík 18. ágúst 1960 – árið sem keppnin var fyrst haldin, en Stjarnan tók fyrst þátt árið 1969. Fyrsti leikur Stjörnunnar í bikarkeppni KSÍ var gegn liði Vestra og tapaðist 5-2.

Af 55 innbyrðis mótsleikjum liðanna eru aðeins 2 bikarleikir.

Sá fyrri, sem jafnframt var fyrsti mótsleikur liðanna, var í undankeppni bikarkeppninnar 22. ágúst 1970. Leikið var á Melavellinum, heimavelli Breiðabliks á þeim tíma. Leiknum lauk með auðveldum 11-0 stórsigri okkar manna. Nánar um leikinn hér: Á laugardag léku Breiðablik og Stjarnan í Garðahreppi. Blikum gekk ágætlega í bikarkeppninni árið 1970. Unnu Víðismenn 4-1. Selfyssingar urðu undir eftir 2 viðureignir (fyrri leikurinn dæmur ógildur vegna dómaramistaka). Ármenningar lágu einnig (og aftur þurfti 2 leiki en nú vegna ólöglegrar vítaspyrnukeppni). Blikar tapa ósanngjarnt fyrir KR-ingum í 8-liða úrslitum. KR-ingar töpuðu svo 2-1 fyrir Fram í undanúrslitum. Fram vann svo úrslitaleikinn við ÍBV 2-1.

Síðari bikarleikur Breiðabliks og Stjörnunnar var í 2. umferð á Kópavogsvelli í júní 1979. Leiknum lauk með 3-1 sigri Breiðabliks. Mörk Blika skoruðu Þór Hreiðarsson(2) og Sigurjón Rannversson en Sigurjón er faðir Olivers Sigurjónssonar sem leikur nú með Blikum. Það var Guðjón Sveinsson sem gerði mark Stjörnumanna. Blikar gerðu það ágætt í bikarkeppninni þetta ár. Unnu Leiknir R. 8-0 í 3. umferð. Vinna Fylki 4-0 í 16-liða úrslitum en tapa 3-1 fyrir Fram í 8-liða úrslitum. Og aftur er það Fram sem klárar mótið með 1-0 sigri á Valsmönnum.

Leiðin í úrslitaleikinn

Bæði Breiðablik og Stjarnan hófu keppni í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í ár og mættu þá liðum úr 1. deild Íslandsmótsins.Stjarnan drógst gegn Fylkismönnum sem komu í heimsókn á Samsung völlinn í Garðabæ. Stjarnan hafði betur með tveimur mörkum gegn einu í hörkuleik þar sem 5 gul spjöld fór á loft og eitt beint rautt. Breiðablik fór í heimsókn uppí Breiðaholt og lék þar við Leiknismenn í 6-spjalda leik sem Blikar unnu 3-1. Nánar hér

Í 16-liða úrslitum léku bæði lið á heimavelli. Blikar sigruðu lið KR-inga á Kópavogsvelli með marki Olivers Sigurjónssonar af 24 metra færi strax á 5.mín leiksins Nánar hér Stjörnumenn fengu heimaleik gegn 1. Deildarliði Þróttar frá Reykjavík og unnu auðveldan 5-0 sigur.

Í 8-liða úrslitum drógust Blikar gegn Íslandsmeistaraliði Vals á Origo vellinum. Blikar unnu leikinn 1-2. Sigurmarkið kom ekki fyrr en á 92.mín. Nánar hér Stjörnumenn fóru norður yfir heiðar og spiluðu þar við 1. Deildar lið Þórsara. Hvorugu liðinu tókst að skora mark í venjulegun leiktíma. Í framlengingunni skoraði Stjarnan 3 mörk. Á 110.mín skoraði Daníel Laxdal sjálfsmark. Það stefndi í Þórssigur þegar Guðjón Baldvinsson jafnaði leikinn á 117.mín. Mínútu síðar skoraði Sölvi Snær sigurmark Stjörnunnar.

Það var stórleikur í undanúrslitum í Garðabæ. Eftir 2 leiki í röð gegn 1. Deildarliðum drógst Stjarnan gegn Pepsi-deildar liði FH. FHingar, nágrannafélag Stjörnunnar fyrir sunnan Garðabæ, mættu á Samsung völlinn. Á 44.mín kom Guðjón Baldvinsson sínum mönnum í 1-0. Guðmundur Steinn skoraði svo annað mark Stjörnunnar á 86.mín. Stjarnan vann leikinn 2-0 og tryggði sér þar með áfram í úrslit Mjólkurbikarsins.

Í undanúrslitum fengu Blikar heimaleik gegn 1. Deildarliði Víkinga frá Ólafsvík. Þetta var leikur fyrir sögubækurnar. Bæði lið skoruðu mark í venulegum leiktíma. Blikar skora svo sjálfsmark á 105.mín í framlengingu og það stefndi í Víkingssigur á Kópavogsvelli þegar Brynjólfur Darri Willumsson, 18 ára Breiðabliksmaður, skoraði jöfnunarmark Blika á 120.mín. Blikar unnu svo vítaspyrnukeppnina 4-2 og voru komnir í úrslit Mjólkurbikarsins. Nánar hér

Myndband í boði BlikarTV: Leiðin í bikarúrslit 2018

Dagskráin á laugardaginn

Blikar verða með upphitun fyrir leikinn á Þróttaravellinum í Laugardalnum og hefst hún kl 16.00.

Það verða grillaðar pylsur gos og svalar í boði Breiðabliks. Hoppukastalar fyrir börnin. Kópacabana æfir stuðningsmannasöngva á staðnum. Við hvetjum stuðningsmenn til að mæta snemma á Laugardalsvöll á laugardaginn og hvetja sína menn til sigurs.

Leikurinn hefst kl.19:15!

Miðasala á leikinn er hafin á tix.is

Áfram Breiðablik, alltaf, allsstaðr ! ...það liggur í loftinu

Umfjallanir netmiðla

Áskorun

Til baka