BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Betur má ef duga skal

26.08.2013

Blikar renndu vestur á Snæfellsnes norðanvert í dag og áttu þar stefnumót við lið Víkings frá Ólafsvík í 17. umferð PEPSI deildarinnar. Leikurinn var hinsvegar aðeins 15. Leikur okkar manna þar sem enn er ólokið tveimur frestuðum leikjum gegn Stjörnunni og KR.
Ólafur Helgi gerði nokkrar breytingar á liðinu frá síðasta leik og voru þær helstar að Olgeir, Þórður Steinar og Ellert komu allir inn í byrjunarliðið í stað Gísla Páls og Nichlas, sem settust á bekkinn, og Guðjóns Péturs sem var illa fjarri góðu gamni eftir verkunina sem hann fékk á Skaganum (og ekkert var dæmt á ).Guðjón brá sér í liðsstjórnina af því tilefni. Guðjón mun ekki verða lengi frá að sögn þeirra er til þekkja. Þá var Arnar Már kominn að nýju í hópinn eftir lánsdvöl hjá þeim í Ólafsvík fram að félagaskiptaglugga.

Byrjunarliðið okkar var því þannig skipað;

Gunnleifur
Þórður Steinar - Sverrir Ingi - Renée - Kristinn J
Tómas Óli - Andri Rafn - Finnur Orri (F) - Olgeir
Ellert - Árni Vill

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Elfar Freyr Helgason
Gísli Páll Helgason
Nichlas Rohde
Jökull I. Elísabetarson
Arnar Már Björgvinsson
Viggó Kristjánsson

Sjúkralisti;  Rafn Andri Haraldsson - Guðjón Pétur Lýðsson

Leikbann; Enginn

Viðtöl eftir leik

Leikskýrsla

Stuðningsmenn Blika fjölmenntu vestur í dag. Dágóður hópur fór með langferðabifreið á vegum Blikaklúbbsins,  sem Steini ók sem fyrr af fádæma öryggi og lipurð, og ennfremur kom fjöldinn alllur með einkabílum. Muggur og Vignir komu á sendiferðabíl, stútfullum af allskonar dóti. Þeir voru búnir að fara víða um nesið í dag og fannst fallegt um að litast, enda veðrið prýðilegt á köflum. Blikar í frekar góðum gír eftir flottan leik hjá stelpunum í gær þar sem þær náðu í langþráðan 10. bikarmeistaratitil sinn frá upphafi. Blikar.is óska þeim innilega til hamingju og vænta þessa að sjá meira af slíku á komandi árum. Veðrið í Ólafsvík alveg þokkalegt. Nokkur vindur, 4-7 m/sek., af norðvestri eftir endilöngum vellinum í upphafi en dró úr honum þegar leið á leik. Sólarglennur af og til í fyrri hálfleik en engar í seinni. Fjallasýn takmörkuð en batnaði með kvöldinu. Útsýní hinsvegar gott yfir Breiðafjörð til Barðastrandar og Rauðasands. Látrabjarg í blámóðu. Hiti nartaði í 10°C en náði varla. Loftraki 78%. Völlur fjarskafagur en þungur og háll á köflum og gerði leikmönnum erfitt um vik, sérstaklega þegar á leikinn leið. Miðaverð 1500 kr. og engin ábót á kaffið að sögn ólyginna.
Blikar hófu leikinn af krafti. Gekk að vísu ekki sérlega vel að ná upp spili til að byrja með en smátt og smátt náðu þeir góðum tökum á leiknum og gerðu oft harða hríð að marki heimamanna fyrsta hálftímann.  Komust hvað eftir annað í góðar stöður og ógnuð markinu. Þórður, Andri, Kristinn og Ellert áttu allir marktilraunir og sumir fleiri en eina, en margt varð heimamönnum til bjargar.  Nokkrum sinnum varði markvörðurinn vel, í tvígang var bjargað á línu og einu sinni reyndist marksláin örlítið of lág. Smá saman dofnaði þó mesti hasarinn og heimamenn náðu að loka betur á okkar menn en það var hreint með ólíkindum að við skyldum ekki ná einu einasta marki í fyrri hálfleik. Þó þeir væru meira og minna með 7-8 mann varnarlínu. Næg fengum við færin. Á hinum enda vallarins hafði Gunnleifur aðeins þurft að sinna einu skoti og það kom undir lok hálfleiksins.

Blikar stungu saman nefjum í hálfleik í prýðilegri vallarsjoppu þeirra Ólsara og það má alveg nefna það að öll aðstaða á vellinum sýndist manni til fyrirmyndar og mannvirkið allt hið snyrtilegasta. Heimamenn eru m.a. með risastór stæði fyrir ofan almúgasætin og þar var fremstur í flokki Björn Hilmarsson, til skamms tíma gjaldkeri Blikaklúbbsins, sem nú er fluttur búferlum vestur með sína fjölskyldu. Þar er skarð fyrir skildi hjá okkur Blikum en hvalreki hjá Ólsurum því hann mun örugglega hella sér af krafti í starfið hjá þeim ef við þekkjum hann rétt. Bjössi er toppmaður og við hjá Blikar.is munum sakna hans úr Smáranum, en ávallt hafa dyrnar opnar.

Blikar virtust hálf ryðgaðir í upphafi síðari hálfleiks og satt að segja virtist vera linka og almennt slen í mannskapnum fyrsta korterið. Ólsarar ógnuðu að vísu ekki mikið en þetta var tæpt og við gerðum okkur erfitt fyrir. Lélegar sendingar voru of margar og við gáfum eftir í návígum. Í tvígang hefðu heimamenn getað refsað okkur en það var sama sagan hjá þeim. Sendingar að klikka. Svo kom fyrsta færi seinni hálfleiks eftir snarpa sókn okkar mann upp vinstri kantinn og Ellert sendi fastn bolta fyrir sem rataði á Árna en markvörður heimamanna var eldsnöggur að kasta sér á boltann. Eftir þetta náðum við betri tökum á leiknum en það vantaði færin. Blikar gerðu nú breytingar á liðinu. Þórður og Olgeir fóru af velli og inn komu Nichlas og Viggó. Þetta breytti ekki miklu en Blikar voru eftir sem áður meira með boltann og nær því að skapa sér færi.  En sem fyrr var lítið kaup þrátt fyrir talsverð og stundum mikil hlaup. Það vantaði ,,réttu“ hlaupin og meiri snerpu í aðgerðir okkar manna.

Pirr dagsins: Ég ætla ekki að ræða hornspyrnur okkar í þessum leik, sem voru fjölmargar. Þjálfarinn fer áreiðanlega yfir þau ósköp. En það er ekki von á góðu þegar ekki skapast hætta úr einni einustu af +10 hornspyrnum af þeirri einföldu ástæðu að þær komast ekki inn að markinu! Laga.

Eitt skásta færi okkar manna kom svo eftir lúmskt skot Kristins sem markvörðurinn hélt ekki,  en færið var nokkuð þröngt og Ellert náði ekki að skora. Blikar gerðu enn breytingu á liðinu þegar skammt var eftir og Arnar Már kom inn í stað Tómasar Óla. Og það munaði hársbreidd að Arnar næði að skora. Eftir flotta og hraða sókn okkar manna var Arnar kominn einn í gegn en hikaði augnablik, eða rann, erfitt að segja til um hvort var, og enn á ný var markvörður heimamanna starfi sínu vaxinn og kastaði sér á boltann. Þetta var sennilega besta færi okkar í seinni hálfleik. Kristinn Jóns átti svo síðasta færi okkar manna þegar hann skaut bylmingsskoti úr aukaspyrnu af 20 metra færi en enn á ný var markvörðurinn vel á verði. Þetta reyndist síðasta spyrnan í leiknum.
Uppskeran úr þessari ferð var því miður aðeins eitt stig. Það var rýrt og minna en við þurftum og hefðum viljað. Staða okkar í deildinni batnaði því ekki mikið í kvöld.

En öll nótt er ekki úti enn og við erum ekki alveg úr leik.  Að vísu er orðið ansi langt í toppsætið, það verður að segjast, en framundan er hörkubarátta um næstu sæti, og þar með sæti í Evrópukeppni að ári. Það er líka gaman eins og við vitum. Þetta er reyndar ekki flóknara en svo að við getum ráðið okkar örlögum. Og eins og Ólafur Helgi hefur margoft sagt þá er talið upp úr pokanum í haust.  Aldrei að vita.....

Semsagt, ekkert væl og skæl, baráttan heldur áfram og framundan er heimaleikur við Stjörnuna n.k. fimmtudag kl. 18:00. Þar gefum við ekkert eftir og það verður barist upp á líf og blóð. Það dugar ekkert minna. Ekki eitt gramm !

Leikurinn verður að vinnast.

Áfram Breiðablik !

OWK

Til baka