BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Baráttusigur gegn Þór

20.06.2014

Blikar unnu baráttusigur 3-1 gegn Þórsurum frá Akureyri í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins á Kópavogsvelli í gærkvöldi. Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma 1-1 en loksins voru lukkudísirnar gengnar í lið með okkur Blikum og tvö mörk í framlengingu tryggðu sigur okkar manna. Það voru þeir Guðjón Pétur Lýðsson, Elfar Freyr Helgason og Árni Vilhjálmsson sem settu mörk okkar pilta.

Leikurinn fór rólega af stað og bæði lið tóku enga sjensa varðandi blússandi sóknarleik. Völlurinn var rennblautur eftir rigningartíð í Kópavogi að undanförnu og áttu leikmenn beggja liða í töluverðum vandræðum að fóta sig í kvölddögginni.  Sóknaraðgerðir okkar pilta voru líka of hægar þannig að þeir rauðklæddu áttu í litlum erfiðleikum með að að kæfa þau tilþrif. Guðjón Pétur fékk þó dúndurfæri undir lok hálfleiksins en Sandor markvörður Norðanmanna varði skot hans með miklum tilþrifum.

Það sama var upp á teningnum í síðari hálfleik. Gestirnir lágu aftur í þéttum varnarvegg en reyndu síðan að beita skyndisóknum. Það dróg hins vegar til tíðinda um miðjan hálfleikinn þegar Elvar Páll fékk boltann út á kant og sendi fasta sendingu inn í teiginn. Þar var Guðjón Pétur réttur maður á réttum stað og sendi boltann í netið með góðu skoti niðri. En eins og oft áður í sumar náðu okkar piltar ekki að halda hreinu. Lausatök í vörninni urðu þess valdandi að Þórsarar splundruðu varnarlínunni og jöfnuðu leikinnáður en dómarinn flautaði til leiksloka. Áhorfendur fengu því auka 30 mínútur til að njóta knattspyrnu í úðanum í gærkvöldi.

Guðmundur þjálfari sendi fríska fætur í formi Tómasar Óla Garðarssonar og Davíðs Ólafssonar inn á völlinn í byrjun framlengingar. Það átti  heldur betur eftir að hafa góð áhrif. Báðir drengirnir áttu prýðisleik og áttu þreyttir varnarmenn Þórsara í miklum erfiðleikum með þá báða. Eftir skemmtilega hornspyrnu Blika skoraði Elfar Freyr Helgason með föstu skoti utan úr teignum. Nokkru síðar gulltryggði Árni Vill sigur okkar manna með mjög skemmtilegri vippu yfir markvörð gestanna eftir að Elfar Freyr hafði sent boltann inn í teig með bakfallsspyrnu með miklum tilþrifum.  Kærkominn sigur Blika og erum við því komnir áfram í 8-liða úrslit keppninnar.

Hrósa verður Blikaliðinu fyrir seiglu í þessum leik. Gunnleifur í markinu bjargaði okkur nokkrum sinnum með snilldarmarkvörslu og Guðjón Pétur hljóp úr sér lungun í leiknum. Síðan sýndu ungu strákarnir Tómas Óli og Davíð snilldartakta þær mínútur sem þeir voru inn á. Vonandi gefur þessi sigur okkur byr undir báða vængi.

Við eigum erfiðan leik gegn Víkingum á sunnudaginn kl.19.15 í Víkinni.

Nú þurfa allar Blikar að mæta og hvetja okkar pilta til sigurs.

-AP

Til baka