BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Baráttusigur á Víkingum

19.04.2015

Blikar unnu 0:1 baráttusigur á Víkingum í 4-liða úrslitum Lengjubikarsins . Leikurinn fer ekki í sögubækurnar fyrir áferðafallega knattspyrnu okkar manna en stórglæsilegt mark Arnþórs Ara strax á 10. mínútur leiksins yljaði þó fjölmörgum Blikum sem mættu í Víkina í dag.  Það reyndist sigurmark leiksins því þrátt fyrir mörg ágæt færi Víkinga þá sá gamla kempan Gunnleifur Gunnleifsson til þess að við förum í úrslitaleikinn á fimmtudaginn gegn KA-mönnum. 

Leikurinn fór fram á gervigrasvelli þeirra langröndóttu en samkvæmt heimildum Birgis skipulagstjóra Kópavogsbæjar þá er hluti hans innan bæjarmarka Kópavogs þannig að þetta var að hluta til heimaleikur okkar Blika! Við byrjuðum háfleikana tvo ágætlega og áttum þokkaleg færi í þeim báðum. En svo var eins og allur móður rynni af okkur og við hleyptum heimaliðinu allt of mikið inn í leikinn.  Að vísu átti Davíð frábært skot í síðari háfleik sem Cardaclia varði með miklum tilþrifum.

Ellert Hreinsson og Oliver Sigurjónsson voru í leikbanni í dag og munar um minna. Einkum var sóknarleikur okkar bitlaus en við náðum ekki heldur upp í því fljótandi spili sem hefur einkennt leiki okkar að undanförnu. Það hlytur hins vegar að vera styrkleikamerki að eiga ekki sérstakan leik en vinna samt! Gunnleifur var besti maður liðsins í dag en einnig stóðu hafsentarnir tveir Elfar Freyr og  Damir sig með miklum sóma. Ungur framherji Sólon Breki Leifsson þreytti frumraun sína í keppnisleik með Blikaliðinu og á greinilega framtíðina fyrir sér.  

Við þurfum að spila betur gegn KA mönnum í úrslitunum á fimmtudaginn (Sumardaginn fyrsta) kl.19.00 í Kórnum en við gerðum í dag. Við hvetjum alla Blika til að mæta enda mikilvægt fyrir sjálfstraustið að hampa bikar svona skömmu áður en Pepsí-deildin byrjar.

Leikskýrsla

Til baka