BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

BALLIÐ AÐ BYRJA

07.06.2020 image

Blikar tóku öll völd frá fyrstu mínútu. Boltinn gekk greiðlega manna á milli, spilið – með Anton Ara sem aftasta mann – gekk ljómandi vel og gestirnir úr efri byggðum náðu varla boltanum og ef það tókst misstu þeir hann jafn harðan aftur.

Þegar opinberir starfsmenn fóru í frægt verkfall haustið 1984 létu menn sig hafa ýmislegt. Einar Kárason hefur skrifað frábæra frásögn af því þegar hann fór ásamt föður sínum í mikinn leiðangur í leit að tóbaki sem endaði allar leið austur á Hornafirði, ef ég man rétt. Fólk lagði á sig að keyra í aðrar sóknir af því að það hafði frést af pakka af More Menthol einhvers staðar en öllu neðar sukku menn ekki í tóbaksfíkninni.

Eftir margra vikna hlé frá knattspyrnu er sýnt beint frá æfingaleikjum í aðdraganda Íslandsmótsins. Og það er selt inn á þessa „stórviðburði“ (sem áður fóru að mestu fram í kyrrþey) í þágu góðra málefna. Æfingaleikur Breiðabliks og HK sunnudaginn 7. júní var til stuðnings Mæðrastyrksnefnd Kópavogs.

Glæný klassík

Fyrir leik ómaði splunkunýtt stuðningsmannalag Blika sem bæjarlistamaðurinn Herra Hnetusmjör sendi frá sér í vikunni. Frábært lag sem nú þegar er orðið klasssískt – meira að segja HK-ingurinn á heimilinu er sáttur.

Byrjunarlið okkar manna var þannig að Anton Ari var í markinu en síðan komu þeir Damir, Elfar Freyr, Davíð, Andri Rafn, Óliver, Guðjón Pétur, Viktor Karl, Höskuldur, Gísli og Brynjólfur fremstur.

Aðstæður voru til mikillar fyrirmyndar, eins og okkar manna var von og vísa, milt veður, sólarlaust, dálítil gola og hvergi kalblett að sjá á vellinum.

„Fyrirliði fyrir liðið mitt“

Blikar tóku öll völd frá fyrstu mínútu. Boltinn gekk greiðlega manna á milli, spilið – með Anton Ara sem aftasta mann – gekk ljómandi vel og gestirnir úr efri byggðum náðu varla boltanum og ef það tókst misstu þeir hann jafnharðan aftur.

Eftir fimm mínútur kom fyrsta markið. Höskuldur – sannkallaður „fyrirliði fyrir liðið mitt“ (eins og segir í nýja laginu) – komst upp að endamörkum, sendi fyrir, markvörðurinn varði skot frá Gísla en Brynjólfur Andersen Willumsson þakkaði traustið í fjarveru Thomasar Mikkelsen, sem var hvíldur, og fylgdi fast á eftir. Breiðablik verðskuldað komið með forystu.

„Sló í gegn eins og í karate“

Nokkrum mínútum síðar vann Damir boltann við miðlínu, óð fram og skaut bylmingsskoti að marki af löngu færi en rétt yfir. Þegar þarna var komið sögu fannst manni ótrúlegur getumunur á liðunum. HK-ingar lágu til baka en okkar menn spiluðu þá sundur og saman. Svolítið eins og segir í texta Herra Hnetusmjörs: „Sló í gegn eins og í karate / rúlla djúpt – ég tek alla með / bærinn og ég það er samasem / og ég man ekki hvernig það að tapa er“.

En þá þurfti það auðvitað að gerast. Þegar andstæðingurinn fær boltann aukast líkurnar til mikilla muna á því að hann skori. Í fyrstu sókn gestanna sem náði máli brast á með augnabliks andvaraleysi í vörninni og allt í einu var Ásgeir Marteinsson frír í miðjum teig og jafnaði leikinn.

„Ertu inni eða úti?“

Okkar menn létu þetta ekki á sig fá. Fjórum mínútum síðar komst Höskuldur aftur upp að endamörkum, sendi fyrir, Guðjón Pétur skallaði og maður söng innra með sér með Herra Hnetusmjöri: „ertu inni eða úti“ – en að þessu sinni var það stöngin innanverð og síðan í fangið á markmanni HK. Mínútu síðar gaf Gísli fyrir en nú var skalli frá Brynjólfi varinn.

Á ensku eru leikir af þessu tagi kallaðir „vináttuleikir“. Það átti ekki við að þessu sinni. Arnþór Ari sparkaði Guðjón Pétur harkalega niður eftir hálftíma leik svo glumdi í stúkunni og var hann fjarri því sáttur við þessar trakteringar síns gamla félaga og öskraði á hann: „Hvað er að þér maður?“ svo bergmálaði í blokkunum uppi í Kórahverfi.

„Með pening í teygjunni“

Undir lok fyrri hálfleiks fengu okkar menn enn eina hornspyrnuna, allir meira og minna mættir inn í teig HK, en ekkert kom út úr henni. Aftur á móti er það stundum þannig að þegar allir eru komnir í sóknina eru fáir eftir í vörninni. Ungstirnið Valgeir Valgeirsson fékk boltann upp úr hornspyrnunni og tók á rás frá miðjum vallarhelmingi gestanna í átt að marki heimamanna. Viktor Karl spretti á eftir honum og sá þann kost vænstan að leggja piltinn mjúklega að velli þegar þeir voru komnir hættulega nærri vítateig Blika. Í sama bili skaust annar grænklæddur leikmaður fram fyrir þá svo Viktor taldist ekki aftasti maður. Fékk hann því aðeins gult spjald fyrir þetta kurteislega brot. Ónefndur HK-ingur var ekki á sama máli og sendi tíðindamanni blikar.is SMS úr hinum enda stúkunnar: „Hnetan ekki sá eini sem fékk milljón frá Blikum í vikunni, sýnist mér.“ Hann hefði nú getað verið skáldlegri og vitnað beint í ljóðið góða og sagt að dómarinn hefði verið „með pening í teygjunni.“ En dómurinn var réttur.

Síðari hálfleikur hófst með miklum skiptingum. Kristinn Steindórsson, Róbert Orri og Kwame Quee komu inn á fyrir Höskuld, Gísla og Viktor Karl. Hálfleikurinn fór rólega af stað en þó má segja að ógnunin hafi færst af vinstri kanti með Davíð, Guðjón Pétur og Höskuld í góðu stuði í þeim fyrri yfir á þann hægri þar sem Kwame Quee var mjög ógnandi í þeim seinni. Hann lék varnarmenn gestanna hvað eftir annað grátt.

„Eitt fyrir klúbbinn“

En það var samt dauft yfir. Og maður spurði sig eins og í laginu góða: „Hver ætlar að stíga upp til mín?“

Á 64. mínútu náðu okkar menn aftur forystunni – verðskuldað – og var Guðjón Pétur þar að verki eftir undirbúning Davíðs. „Ertu úti eða inni?“ spurði skáldið. Núna var hann inni. „Ég fer hart, bara hart fyrir klúbbinn,“ hugsaði GPL kannski eins og Hnetusmjörið. Tveimur mínútum síðar var einhver vesalings HK-ingur búinn að fá nóg og tók Brynjólf hálstaki úti hægra megin. Guðjón Pétur setti boltann beint á kollinn á Kwame Quee úr aukaspyrnunni sem skallaði hann fagurlega í netið. „Þurfti að gera eitt fyrir klúbbinn.“

Óliver og Damir fóru út af á 70. mínútu fyrir Benedikt Warén og Arnar Svein. Litlu síðar glöddu Kristinn Steindórs og Benedikt gesti með fallegri, hraðri sókn sem þó rann út í sandinn. Aftur voru breytingar, Brynjólfur og Davíð skiptu við Ólaf Guðmundsson og Stefán Inga en ég er ekki viss um að ég hafi séð þá spila áður – en þeir stóðu sannarlega fyrir sínu. Ólafur óð til dæmis upp allan vinstri kantinn undir lokin og gaf fyrir en þar vantaði mann til að ýta boltanum yfir línuna.

„Teymið er Blix“

Blikar verða ekki dæmdir af þessum leik en hann gefur góð fyrirheit. HK-ingar sýndu ekki beinlínis á spilin – nema hvað þeir lágu aftarlega og treystu á hraðar sóknir. Þær sköpuðu litla hættu (markið kom úr mjög hægri sókn!). Kannski verður þetta uppleggið hjá þeim í sumar. Þeir verða að minnsta kosti sýnd veiði en ekki gefin. Okkar menn spiluðu geysilega vel á köflum, bæði stutt upp völlinn en notuðu líka kantana betur en gjarnan áður. Það var gaman að sjá Andra Rafn fara í sína gömlu stöðu aftarlega á miðjunni þegar Óliver var skipt út af – það fóru fáir framhjá honum. Og menn börðust vel, það var „einn fyrir alla og allir fá sitt / allt fyrir teymið og teymið er Blix.“

Nú erum við loksins að losna út úr kófinu, það er að bresta á með þéttu leikjaprógrammi og við getum byrjað að hlakka til. Nú byrjar ballið!

PMÓ

Til baka