BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Augnablik blæs í herlúðra!

08.03.2017

Fjórðu deildarliðið Augnablik, sem tengist Blikum sterkum böndum, hefur heldur betur blásið í herlúðra og fengið til liðs við sig sex gríðarlega sterka leikmenn. Þetta eru þeir Kári Ársælsson, Haukur Baldvinsson, Guðmundur Pétursson, Jökull Elísabetarson, Sigmar Ingi Sigurðsson markvörður og Ellert Hreinsson.

Allir eiga þessir drengir nema Ellert eiga það sameiginlegt að hafa orðið Íslandsmeistarar saman með Blikaliðinu árið 2010. Ellert var þá við nám í Bandaríkjunum og spilaði þá með Stjörnunni en var örugglega með okkur í anda þegar við unnum titilinn í Garðabænum!

Augnablik, sem spilar í 4. deildinni, var stofnað árið 1981 af nokkrum ungum Blikadrengjum sem voru að ganga upp úr 2. flokki. Eins og nú var mikið af efnilegum strákum að ganga upp úr yngri flokkunum og ekki var pláss fyrir alla í meistaraflokki Blika. Samt sem áður vildu þessir drengir halda tengslunum við móðurfélagið og gerðu það vel næstu árin. Margir sinntu ábyrgðarstörfum fyrir Breiðablik og enn fleiri komu að ýmsum sjálfboðaliðsstörfum.

Liðið var yfirleitt í toppbaráttu neðstu deildar en tókst aldrei að tryggja sér sæti í næstu deild fyrir ofan. Enda var ekki endilega áhugi hjá leikmönnunum að fara ofar í deildakeppninni. Á tímabili var liðið hálf-munaðarlaust og endaði það að lokum í höndum vandalausra. En síðan tóku nokkrir valinkunnir Blikar sig til og náðu því aftur í heimahúsin árið 2007. Liðinu tókst síðan að vinna sér sæti í nýrri 3. deild árið 2013 en féll aftur niður í neðstu deild árið eftir og hefur leikið þar síðan. Ýmsir þekktir knattspyrnumenn hafa fengið eldskírn sína hjá félaginu. Þar má til dæmis nefna Sverri Inga Ingason, Alfreð Finnbogason og Höskuld Gunnlaugsson. Einnig hafa eldri og reyndari leikmenn eins og Hákon Sverrisson, Arnar Grétarsson, Hjörvar Hafliðason og Árni Kristinn Gunnarsson spilað með liðinu í lengri og skemmri tíma.

Á tímabili spilaði bæði 2. flokkur karla og eldri flokkur undir nafninu Breiðablik/Augnblik og gátu þá leikmenn spilað með báðum liðum. Árið 2015 hóf síðan meistaraflokkur kvenna göngu sína undir nafni Augnabliks. Þetta var gert að frumkvæði Blika og voru þetta ungar og efnilegar stúlkur úr 2. og 3. flokki Blika sem spiluðu undir nafni Augnabliks í næst-efstu deild kvenna. Þetta hefur gefið góða raun og verður Augnablik með í 1. deild kvenna næsta sumar.

Óvíst er hvað þessi mikla innspýting af reyndum leikmönnum gerir fyrir Augnabliksliðið. Ljóst er að liðið verður gríðarlega sterkt næsta sumar og það eru sögusagnir á kreiki að einhverjir fleiri sterkir leikmenn séu á leiðinni. Liðið ætti því að eiga greiða leið upp um deild en það þýðir meiri ferðalög og meiri utanumhald. Timinn einn á því eftir að leita í ljós hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir Augnabliksliðið.

Þess má líka að Augnablik réð fyrir skömmu Blikana Olgeir Sigurgeirsson og Guðjón Gunnarsson sem þjálfara. Báðir eru í hörkuformi þannig að hugsanlega spila þeir einnig með liðinu.

En koma þessar Blika hefur vakið mikla athygli í knattspyrnuheiminum og verður gaman að fylgjast með þessu Blikaliði í baráttunni í sumar.

-AP

Til baka