BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Arnór sá um FH!

11.01.2015

Hinn nýi fyrirliði meistaraflokks karla Arnór Aðalsteinsson fór fyrir sínum mönnum og skoraði bæði mörk Blikaliðsins þegar við lögum silfurdrengina úr Hafnarfirði 2:1 í fyrsta leik fotbolti.net mótsins 2015. Fyrra markið setti hann úr víti í lok fyrri hálfleiks en það síðari 10 mínútum fyrir leikslok. Blikaliðið spilaði vel í þessum leik og var sigurinn verðskuldaður.

Bæði lið spiluðu eins fast eins og dómarinn leyfði. Nokkuð var um pústra  og fóru nokkrir leikmenn sárir af velli. En meiðsli þeirra voru þó ekki alvarleg og gerum við ráð fyrir að allir verði tilbúnir þegar við mætum Skagamönnum í næsta leik í þessu móti. Það hefur stundum loðað við Blikaliðið að það hefur spilað léttan og skemmtilegan bolta en ekki kunnað að taka á móti þegar andstæðingarnir spila fast á móti okkur. Í þessu leik spilaði liðið ágætan bolta en tók vel á móti þegar fimleikadrengirnir sýndu klærnar. Þetta lofar góðu enda nauðsynlegt að sýna að við erum menn en ekki mýs!

Hægt er að hrósa flestum leikmönnum Blikaliðsins í þessum leik. Góð vinnsla var í vörn, miðju og sókn. Damir og Elfar Freyr voru sterkir í miðverðinum og Ósvald spilar betur og betur með hverjum leiknum. Óþarfi er að taka fram að Arnór var gríðarlega öflugur í hægri bakverðinum og ógnaði vel fram á við. Gunnleifur spilaði í markinu í fyrri hálfleik og var öryggið uppmálað. Um miðjan hálfleikinn varði hann meistaralega þegar sóknarmaður FH slapp inn fyrir. Í síðari háfleik kom ungur og efnilegur markvörður, Aron Snær Friðriksson, inn á og stóð sig með sóma. Hann er á miðári í 2. flokki og mikið efni.

Oliver og Olgeir stjórnuðu miðjuspilinu með miklum sóma og Höskuldur ógnaði alltaf með hraða sínum. Stefán og Andri Rafn komu inn á síðari hálfleik og spiluðu vel. Við megum ekki gleyma okkur í gleði þrátt fyrir þennan sigur. Þetta er bara fyrsti áfanginn á langri vegferð en byrjunin lofar góðu.

Sjá nánar á BlikarTV.

-AP

Til baka