BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Arnór Gauti seldur til Fylkis!

02.02.2019

Knattspyrnudeild Breiðabliks og knattspyrnudeild Fylkis hafa komist að samkomulagi um félagaskipti Arnórs Gauta Ragnarssonar yfir í Árbæjarliðið. Arnór Gauti sem er 21 árs kraftmikill og áræðinn framherji hefur staðið sig einstaklega vel í græna búningnum. Hann er uppalinn í Aftureldingu en kom til okkar í 2. flokki.

Arnór Gauti á að baki 36 leiki með Blikaliðinu og hefur skorað 9 mörk í þessum leikjum. Hann skoraði þrennu gegn ÍBV i Fótbolta.net mótinu fyrir skömmu. Og eftirminnilegt er sigurmark hans í uppbótartíma gegn Valsmönnum í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar í sumar. Arnór Gauti lék líka eitt tímabil með ÍBV og varð bikarmeistari með liðinu. Þar að auki spilaði hann hluta af sumrinu 2016 með Selfossi í 1. deildinni og skoraði þar 2 mörk.

Félagaskiptin komu óvænt upp þegar ljóst var að Fylkismenn væru að leita sér að nýjum framherja. Samkeppnin er mikil í Blikaliðinu og því vildu Blikar ekki standa í vegi fyrir því að leikmaðurinn fengi að spreyta sig á öðrum stað. Það má búast við að Arnór Gauti fái meiri spilatíma í sínu nýja liði. En þrátt fyrir það er sjónarsviptir af leikmanninum. Hann er vinsæll hjá stuðningsmönnum Blika endur gefur hann alltaf 100% í alla leiki sem hann spilar.

Blikar senda honum saknaðarkveðjur en vona að hann eigi eftir að finna sig vel í Árbænum á komandi keppnistímabili.

Mynd: HVH


 

Til baka