BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ari fróði ekki á Akureyri

16.05.2019

Höfuðstaður Norðurlands tók vel á móti Blikum miðvikudaginn 15. maí. Sól skein í heiði, það var 16 stiga hiti, logn eins og það gerist ljúfast, vor í lofti, jafnvel sumar, grasið fagurblikagrænt á Greifavellinum og hugur í mönnum eftir frækinn sigur á frísku liði Víkings í síðasta leik. Hitastigið var meira að segja þannig að tíðindamanni Blikar.is fannst Gulli loksins klæddur við hæfi (í stutterma) þar sem hann leiddi liðið inn á völlinn. Á eftir honum gengu hnarreistir: Viktor Örn, Elfar Freyr og Damir sem mynduðu þriggja manna varnarmúr, Arnar Sveinn, Davíð Ingvarsson, Viktor Karl (báðir í fyrsta sinn í byrjunarliði í efstu deild á Íslandi) og Guðjón Pétur á miðjunni, Höskuldur, Kolbeinn og Thomas frammi.

Tíðindamaður Blikar.is leit yfir áhorfendaskarann þegar flautað var til leiks og þekkti engan Kópavogsbúa. Velti fyrir sér einsemd mannsins á vorum dögum og spurði sig: munu Blikar koma og klappa fyrir mér og engum öðrum í leikslok ef þeir fara með sigur af hólmi? Eða munu KA-menn halda áfram sínu ágæta gengi? Þeir töpuðu að vísu slysalega fyrir Skagamönnum í fyrsta leik, unnu síðan stjörnum prýtt lið Valsmanna á heimavelli og biðu síðan naumlega – jafnvel ósanngjarnt – lægri hlut fyrir ógnarsterku liði FH í síðasta leik.

Óskabyrjun
Leikurinn byrjaði með miklum látum. Menn voru rétt sestir þegar Thomas þvingaði KA-menn til að gefa hornspyrnu. Upp úr henni var hann togaður niður og víti réttilega dæmt. Hann fór sjálfur á punktinn og lét reyna á þanþol netmöskvanna.

Nú kom berlega í ljós að tíðindamaðurinn var ekki alveg einn. Örfáir aðrir á Greifavellinum fögnuðu ógurlega á meðan hinir 998 dæstu í kór eins og skáldið í Sigurhæðum: „Ertu kominn, landsins forni fjandi“ og fannst fulltrúi hinnar gömlu herraþjóðar senda sér kaldar kveðjur, líkt og hafísinn forðum.

Þetta var sannkölluð óskabyrjun okkar manna á Akureyri.

Glæfralegir endurfundir
Við þessa köldu vatnsgusu vöknuðu heimamenn, fengu aukaspyrnur á vænlegum stöðum, hornspyrnur og áttu efnilegar sóknir án þess að mikil hætta skapaðist við mark Blika. Elfar Freyr virtist hafa saknað nafna síns úr KA-liðinu en fagnaði endurfundunum full glæfralega og fékk tiltal frá dómara leiksins.

Heimamenn létu líka finna fyrir sér. Davíð Ingvarsson var t.d. tekinn fólskulega niður en móðurinn rann fljótlega af liði KA. Höskuldur skaut föstu skoti á markið sem var varið, skömmu síðar varði markmaðurinn skalla frá Thomasi og Viktor þrumaði boltanum naumlega framhjá samskeytunum eftir frábæran undirbúning Kolbeins. Aftur lifnaði yfir KA-mönnum og sóttu þeir nokkuð að marki Blika það sem eftir lifði hálfleiks án þess að veruleg hætta skapaðist.

Þegar hálftími var liðinn varð Elfar Freyr að fara meiddur af velli og Guðmundur B. Guðjónsson kom inn á.

Elfar, Ívar, Elfar. Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson

Okkar menn í vörn
Í hálfleik brast á með snemmbúinni verslunarmannahelgarstemmningu. Í nýsleginni áhorfendabrekkunni mátti finna kaupstaðarlykt og í blíðunni hljómuðu gamlir standardar með Skriðjöklum og „mig langar ekki til að fara að sofa“ með Stuðkompaníinu. Þetta var mjög við hæfi því að Blikar voru yfir og ekkert benti til þess að það myndi breytast í seinni hálfleik og engan langaði til að fara að sofa; miklu frekar fara á hestbak, meðfram ánni, framhjá hunangshlöðunni.

Leikurinn hófst á ný en fór rólega af stað. Fljótlega féll leikmaður KA við í teignum og gjörvöll stúkan hrópaði „víTi!“ að akureyskum sið en dómarinn var ekki á sama máli, enda réttsýnn maður. Á 60. mínútu kom Andri Rafn inn á fyrir Viktor og jókst þá hraðinn í spili Blika. Hins vegar verður því ekki neitað – enda er hlutleysi aðall þessa miðils – að nokkuð lá á okkar mönnum í seinni hálfleik. Það var ekki mikið um færi við mark KA-manna en þeim mun oftar horn og aukaspyrnur á vafasömum stöðum hinum megin á vellinum.

Í uppbótartíma heimtuðu heimamenn aftur víti, töldu að boltinn hefði farið í hönd Blika en aftur sýndi dómarinn andlegan styrk og lét sem hann heyrði ekki í þessum þúsund manna her. Reyndar hafði tíðindamaður Blikar.is ekki tölu á því hversu oft var hrópað „hendi!“ eða jafnvel „hendi víti!“ í stúkunni.

En Blikar sigldu þessum sigri örugglega í höfn.

Leiknum var lýst í beinni útvarpslýsingu á youtube síðu BlikarTV. 

„En hvatki er missagt er í fræðum þessum“
Glöggir lesendur hafa kannski tekið eftir því að mér hefur orðið tíðrætt um tíðindamann þessa trausta fjölmiðils og er það ekki að ástæðulausu. Ég var ekkert á leiknum og hef því orðið að styðjast við frásögn þriðja aðila.

Ýmsum kann að þykja það orka tvímælis en þá er rétt að benda á að þetta hefur verið gert áður. Ari fróði varð ekki sjálfur vitni að upphafi Íslandsbyggðar, enda skrifaði hann sína Íslendingabók um 250 árum eftir landnám. Við samningu hennar studdist hann við heimildarmenn sem hann treysti og sagði einfaldlega til þess að undirstrika hlutleysi og fræðilegan metnað: „En hvatki er missagt er í fræðum þessum, þá er skylt að hafa það heldur, er sannara reynist.“

Þeir sem sögðu honum frá upphafi Íslandsbyggðar höfðu hins vegar ekki einu sinni sjálfir orðið vitni að landnáminu en höfðu heyrt eitt og annað. Þessu trúðu menn í þúsund ár en nú segja fræðimenn aftur á móti skrif Ara fróða „lærðan þvætting" enda valt að treysta á minni manna.

Öðru máli gegnir um efni þessa pistils. Ég var með fulltrúa á leiknum sem er traustins verð. Hún horfði á leikinn – þurfti ekki að styðjast við frásögn löngu látins fólks – og er þar að auki þekkt að réttsýni og hlutleysi þótt hún kunni að einhverju marki að hafa óvart dregið taum Blika í punktum sínum.

Toppslagur framundan
Það má kannski segja að það hafi verið við hæfi að eini Daninn á vellinum skuli hafa ráðið úrslitum í þessum hörkuleik – á Akureyri sem lengi var talin hálfdanskur bær. Blikar eru áfram í efsta sæti deildarinnar, að vísu með Skagamönnum, en þeir mæta einmitt á Kópavogsvöll á sunnudaginn. Það verður því sannkallaður toppslagur á nýja teppinu!

Ekki skal ég fullyrða að byggt verði á pistli þessum í jafn langan tíma og Íslendingabók eða hvort hann fái fljótlega einkunnina „lærður þvættingur“en ég minni á þessa grundvallarreglu Ara fróða sem ég hef haft að leiðarljósi en hún hljóðar svo hjá Þórarni Eldjárn: „Það sem sannara reynist það höfum við heldur / ef hvorugt er satt.“

PMÓ

Myndaveisla>

Umfjallanir netmiðla>

Til baka