BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Andri Rafn Yeoman ætlaði að hlaupa maraþon í mars!

01.04.2020 image

Andri Rafn mættur á klakann á nýjan leik og á ekki von á því að fara út aftur fyrr en næsta vetur þó staðan sé óljós eins og er.

Miðjumaðurinn snjalli Andri Rafn hefur dvalið við mastersnám í samgönguverkfræði við Sapienza háskóla í Róm á Ítalíu í vetur.  Ekki var von á honum til Íslands fyrr en i lok júní. En vegna Covid-19 veirunnar er Andri Rafn mættur á klakann á nýjan leik og á ekki von á því að fara út aftur fyrr en næsta vetur þó staðan sé óljós eins og er. Blikar.is náði tali af honum skömmu eftir að hann var búinn að fylgjast með 4 tíma fyrirlestri hjá prófessornum hans í skipulagsfræði stórborga.

,,Þetta er ekki staða sem ég ætlaði mér að vera í,“ sagði þessi geðþekki Bliki í samtali við tíðindamann blikar.is ,,En miðað við meirihluta fólks á Ítaliu þá get ég ekki kvartað,“ bætti hann við. ,,Ég bý hér í góðu yfirlæti á Íslandi og það er dekrað við mig,“ sagði hann hlæjandi.

Þrátt fyrir að vera aðeins 27 ára gamall er þessi knái Bliki leikjahæsti leikmaðurinn okkar frá upphafi með 331 leik með meistaraflokki Breiðabliks og hefur skorað 20 mörk. Þar að auki lék hann 23 leiki með yngri landsliðum Íslands.

image

Ástæðan fyrir Ítalíudvöl sinni segir hann hafa verið ævintýraþrá. ,,Ég ætlaði mér alltaf að fara erlendis i framhaldsnám. Ég skoðaði möguleika á Norðurlöndunum, Englandi og svo Ítalíu. Róm varð síðan fyrir valinu en þar er mjög gott alþjóðlegt nám á því sviði sem ég hef áhuga þ.e. samgönguverkfræði.

Andra Rafni líkar mjög vel á Ítalíu. ,,Róm er frábær borg og Ítalía er ótrúlega skemmtilegt land. Það er því mjög erfitt að fylgjast með þeim hörmungum sem þessi veira er búin að valda ítölsku þjóðinni. Ég hef reyndar ekki náð að kynnast nógu mörgum Ítölum því samnemendur mínir eru alls staðar að úr heiminum. Námið fer líka fram á ensku og því er ítalskan ekki enn upp á marga fiska. En það kemur vonandi,“ sagði hann kankvís. ,,Kennararnir halda okkur vel við efnið. Allir fyrirlestrar koma strax inn á Netið og það er fylgst með að við skilum okkar verkefnum. Maður er því ekki iðjulaus þótt ekki sé mætt í venjulegar kennslustundir.“

Ekki víst að hann nái fyrsta leik

Andri Rafn segir það ekki alveg rétt að það sé öruggt að hann nái fyrsta leiknum með Blikaliðinu. ,,Ég veit eiginlega ekkert hvað gerist næstu vikurnar. Ef svo ólíklega vildi til að veiran verði lögð að velli á stuttum tíma þá fer ég hugsanlega aftur út. Það er hins vegar ekki mjög líklegt. En ég hef ekki spilað neinn fótbolta í vetur. Ég hef haldið mér í formi með því að hlaupa. Ætlaði meira segja að hlaupa maraþon í mars en það datt að sjálfsögðu upp fyrir. Ég á nú ekki von á því að komast í liðið fyrir fyrsta leik en ég er strax kominn inn í æfingaprógrammið hjá Óskari Hrafni og Halldóri. Þetta verður því allt að koma í ljós.“

Námið hjá Andra Rafni er 2 ára prógramm. Hann fer því örugglega út aftur í haust eftir að tímabilinu lýkur. ,,Ég leit á dvölina á Ítalíu sem prufu hvernig það gengur að spila alvöru fótbolta með svona námi.  Ég get hins vegar ekki leynt því að ég er orðinn spenntur fyrir tímabilinu á Íslandi, hvenær svo sem það byrjar. Blikaliðið virkar firnasterkt um þessar mundir. Ég heyri á hlaupafélögunum í Blikaliðinu að þeir eru mjög ánægðir með nýja þjálfarateymið og menn eru bjartsýnir á góðan árangur næsta sumar. Vonandi get ég lagt mitt af mörkum til að gera þetta að skemmtilegu sumri fyrir okkur Blika.“

Andri Rafn segist taka einn dag í einu í þessu ástandi. ,,Það þýðir ekkert annað en að gera það besta úr þessari stöðu sem upp er komin,“ segir hann ákveðið. ,,Ég er í forréttindahópi. Bý við öruggar aðstæður, er að byggja upp mína framtíð og er svo heppinn að geta spilað knattspyrnu. Framtíðin er hins vegar óráðin en um leið mjög spennandi!“ segir Andri Rafn Yeoman.

-AP

Til baka