BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Agúst tekur formlega við Blikum

25.10.2017

Gengið var frá ráðningu Ágústar Gylfasonar sem þjálfara meistaraflokks karla hjá Blikum í dag með formlegri undirskrift í stúkunni á Kópavogsvelli. Samningurinn er til þriggja ára.

Á sama tíma var gengið frá ráðningu Guðmundur Steinarssonar sem aðstoðarþjálfara meistaraflokksins. Ágúst og Guðmundur störfuðu saman hjá Fjölni undanfarið ár en Ágúst hefur undanfarin sjö ár starfað í Grafarvoginum við góðan orðstýr.

Ágúst sem er 46 ára gamall á glæsilegan feril að baki sem leikmaður. Hann lék yfir 200 leiki með Val, Fram, KR og Fjölni á Íslandi og lék sem atvinnumaður með Brann í Noregi í þrjú ár. Undanfarin ár hefur hann þjálfað Fjölni og náð góðum árangri með unga og efnilega leikmenn í Grafarvoginum. Ágúst lék fimm A landsleiki á ferli sínum og þrettán U-21 árs landsleiki.

Guðmundur Steinarsson er einn mesti markaskorari sem Íslendingar hafa átt. Hann er 38 ára gamall, borinn og barnfæddur Keflavíkingur. Hann lék mest af sínum ferli með Keflavík en lék einnig um tíma sem atvinnumaður í Danmörku og Sviss. Hann skoraði 89 mörk í efstu deild og lék þrjá A-landsleiki og nítján leiki með yngri landsliðum Íslands. Þar að auki á hann þrjá landsleiki að baki með íslenska landsliðinu í Futsal!

Blikar bjóða þetta þjálfarateymi velkomið til félagsins og óskar þeim velfarnaðar í baráttunni framundan.

Til baka