BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ágætis byrjun.

01.08.2017

Fjölnismenn sóttu Blika heim í 13. umferð PEPSI deildarinnar í kvöld og er óhætt að segja að það hafi svifið nokkurskonar frumsýningarandi yfir vötnum fyrir leik. Leikmannahópur Blika gjörbreyttur frá síðasta leik og búið að vera gjörsamlega snælduvitlaust að gera í markaðshorni knattspyrnudeildar frá því síðasta tungl rann sitt skeið og nýtt kviknaði á dögunum. Oliver og Höskuldur farnir að berja á tröllum í Noregi og Svíþjóð og er þeim óskað velfarnaðar. Sömuleiðis Viktori Erni sem var lánaður á Skipaskaga. Elfar Freyr og Kristinn Jónsson báðir komnir heim úr mennskunni , í bili a.m.k. Þórður Steinar og Páll Olgeir sömuleiðis komnir heim og veri þeir allir velkomnir í grænu sparifötin. Sömuleiðis er genginn til liðs við Blika Dino Dolmagic, frá Serbíu og er hann knálegur við fyrstu sýn. Er þá enn ótalinn Sveinn Aron Guðjohnsen, af miklu knattspyrnukyni í föðurætt, sem alkunna er, en hitt er ekki síður frásagnarvert að hann er afabarn og nafni Sveins Skúlasonar frá Snælandi við Nýbýlaveg, markvarðar Blika hér á árunum. Þess hins sama og kallaður var Súper–Sveinn eftir frækilega frammistöðu á Húsavík 1985 er Blikar tryggðu sér sæti í efstu deild með sigri á heimönnum. Sá leikur var óhemju langur og strangur í dimmviðri og kalsarigningu og var síðasti stundarfjórðungurinn, sá áttundi, leikinn við bílljós heimamanna sem reyndu allt hvað af tók að jafna metin, en Sveinn flaug í hornin sitt á hvað og varði allt sem á markið kom og var fyrir vikið, í Þjóðviljanum sáluga, kallaður Súper – Sveinn.

Það var rjómablíða í kvöld.  Hægviðri af norðvestri með sólarglennum og hiti 14°C. Lopapeysan var bara heima. Loksins. Völlurinn í toppstandi.

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)(F)
Dino Dolmagic - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Martin Lund Pedersen - Kristinn Jónsson - Aron Bjarnason
Varamenn:
Ólafur Íshólm Ólafsson(M) - Kolbeinn Þórðarson - Þórður Steinar Hreiðarsson - Sólon Breki Leifsson - Guðmundur Friðriksson - Willum Þór Willumsson - Sveinn Aron Guðjohnsen

Sjúkralisti: Hrvoje Tokic (meiddur)
Leikbann: Enginn

Blikar byrjuðu vel og voru mjög frískir fyrstu mínúturnar. Sér í lagi var Kristinn Jónsson eins og kálfur að vori. Mikið líf í kringum hann og Aron á upphafsmínútunum. Boltinn gekk hratt manna á milli og það var sjálfstraust í liðinu og menn þorðu að spila inn í miðsvæðið, nokkuð sem hefur oft vantað í sumar. Færin létu þó bíða eftir sér og okkar menn voru ekki nógu grimmir við vítateiginn. Blikar fengu 6 hornspyrnur í fyrri hálfleik en náðu ekki að skapa hættu. A.m.k. 2 fóru yfir á fjærstönginga en þar var ekki nokkur Bliki til að ráðast á boltann. Við erum ótrúlega oft með góða bolta á fjærstöngina sem fara gjörsamlega í vaskinn vegna manneklu. Er ekki hægt að kippa þessu í liðinn?  Arnþór Ari fékk mjög gott færi eftir snarpa sókn Blika en lét verja frá sér og skömmu síðar fengu gestirnir besta færi hálfleiksins en misnotuðu það sem betur fer og skölluðu framhjá.

Hálfleikskaffið rann ljúflega niður. Blikar mun betri í fyrri hálfleik. Ekki spurning. En samt markalaust. Fá færi og enginn á fjærstönginni þegar boltinn lak þangað. Sem var nokkuð oft. 1 dauðafæri á hvort lið. Hvar er Kopacabana? Það myndi hjálpa að hafa öfluga stuðningssveit í stuði.

Gestirnir voru mun sprækari í upphafi síðari hálfleiks og ógnuðu okkar marki í tvígang á upphafsmínútunum og manni leist nú ekki meira en rétt svo á blikuna. En svo hresstist Eyjólfur svo um munaði og Blikar náðu flottri sókn og með góðu samspili náðu Martin og Arnþór Ari að prjóna sig í gegnum vörn gestanna og Martin sendi boltann í markhornið með hnitmiðuðu skoti úr vítateignum. Mjög vel gert. 1-0. Nú kviknaði heldur betur i okkar mönnum og þeir þjörmuðu vel að gestunum næstu mínúturnar. Sveinn Aron kom inn fyrir Kristin Jónsson sem var farinn að lýjast.  Gísli átti skot naumlega framhjá eftir flotta sókn og skömmu síðar náðu gestirnir að komast fyrir skot Arnþórs Ara sem var á leðinni í markið. En um það leyti sem hæst stóð i stönginni og stuðningsmenn Blika bjuggu sig undir að fagna marki nr.2. þá lá boltinn í markinu, öfugu megin og nánast upp úr þurru. Augnabliks gáleysi okkar manna og boltinn lá í netinu. Snaggaralega gert hjá gestunum en afar ódýrt. Í eina eða tvær mínútur sigu axlirnar á okkar mönnum aðeins en svo settu þeir í fluggírinn og sóttu á gestina án afláts. Blikar heimtuðu víti þegar Fjölnismaður varði greinilega með hendi innan teigs en dómarinn taldi þetta greinilega í lagi !!!  Skömmu síðar björguðu gestirnir svo á línu þegar Aron var búinn að leika á markmanninn og skaut úr þröngri stöðu. Arnþór Ari þrumaði  í stöngina og skömmu síðar kom Sólon inn fyrir Gísla. Áfram héldu Blikar og uppskáru svo laun erfiðis síns þegar korter var til leiksloka þegar Martin skoraði aftur eftir snaggaralegan samleik. Enn var það Arnþór Ari sem lagði upp. Markið keimlíkt fyrra markinu, en ekki verra fyrir það. 2-1.  Skömmu síðar skaut Arnþór aftur í stöngina, nú eftir undirbúning Arons. Kolbeinn kom inn í stað Martins og var snimmendis negldur niður. Kolbeinn stóð samstundis upp á ný og er sagt um hann að eigi muni haltur ganga á meðan báðir fætur eru jafnlangir. Hörkutól. Það sem eftir lifði leiks vörðu Blikar fenginn hlut með ágætum en gestirnir fengu óþægilega mörg horn á lokamínútunum. Þá var betra að Elli Helga var kominn aftur til að eiga við þetta.

Þetta var sterkur sigur hjá okkar mönnum eftir góðan útisigur á KA um síðustu helgi og allt rótið sem hefur verið í kringum leikmannamálin. Það má hrósa þeim fyrir það. Komnir með 18 stig og ekki langt í liðin í 2. – 5. sæti. Síðari umferðin fer vel af stað hjá okkar mönnum og það gæti verið skemmtileg barátta framundan ef menn halda sig við efnið.

Næsti leikur er gegn Stjörnunni á útvelli  n.k. miðvikudag, kl. 20.
Fátt þykir okkur skemmtilegra en snýta nágrönnum okkar. Enda er það unaðslegt.

Myndaveisla í boði BlikarTV.

Áfram Breiðablik !

OWK

p.s.
munið Blika golfmótið 25. ágúst.

Til baka