BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Viktor Örn framlengir

30.09.2023 image

Þau ánægjulegu tíðindi voru að berast að miðvörðurinn öflugi, Viktor Örn Margeirsson, hefur skrifað undir nýjan 4 ára samning við knattspyrnudeild Breiðabliks.

Samningurinn gildir til ársins 2027 þannig að við Blikar fáum að njóta þjónustu hans í græna búningnum næstu árin. 

Viktor sem er 29 ára hefur verið einn af lykilmönnum Breiðabliksliðsins undanfarin ár.

Hann lék sinn fyrsta leik fyrir Blikaliðið árið 2015 en hefur líka spilað sem lánsmaður á 11 ára meistaraflokksferli sínum.

Fyrsti leikur í meistaraflokki

Fyrsti skráði mótsleikur Viktors í meistaraflokki var með liði Augnabliks haustið 2012. Leikurinn var gegn Drangey í aukakeppni 3. deildar og var spilaður á Skallagrímsvelli í Borgarnesi. Leikið var til úrslita og fór leikurinn í framlengingu. Viktor var í byrjunarliði Augnabliks og spilaði allan leikinn (130 mín). Leikurinn vannst að lokum 1:3 með mörkum frá Jóhanni Hilmari Hreiðarssyni (1) og Höskuldi  Gunnlaugssyni (2) sem spilaði allan leikinn. Það gerði einnig Gísli Eyjólfsson – sem sagt, þrír fastamanna Breiðabliksliðsins í dag spiluðu þennan leik 2012.

10 ár frá fyrstu undirskrift

Viktor Örn skrifar undir sinn fyrsta tveggja ára samning við Breiðablik 18. desember 2013 sem leikmaðurinn og Breiðablik hafa síðan endurnýjað á tveggja ára fresti. Í gær var tilkynnt um nýjan samning sem gildir til ársins 2027.

Á láni

Keppnistímabilið 2013 spilar Viktor Örn sem lánsmaður með Augnabliksmönnum í þriðju deildinni. Árið 2014 er hann lánaður til HK þar sem hann spilar 19 leiki í 1. deild og 2 leiki í Borgunarbikarnum með félögum okkar í efri byggðum Kópavogs.  Í júlí glugganum 2017 er Viktor lánaður upp á Skaga þar sem hann spilar 9 af síðustu leikjum ÍA það ár.

Ferill með Breiðabliki

Fyrsti mótsleikur Viktors með meistaraflokksliði Breiðabliks var í Borgunarbikarnum 4. júní árið 2015. Hann var í byrjunarliði og spilaði allan leikinn í 1:3 sigri á KFG á Samsungvellinum í Garðabæ. Fyrsta leik sinn í efstu deild (Pepsi-deildinni) spilar hann í 0:0 jafntefli gegn KR í Frostaskjólinu 27. júlí 2015.

Síðan þá eru mótsleikir Viktors í Breiðablisktreyjunni orðnir 237 og mörkin 13. Einnig náði hann þeim áfanga að spila með íslenska A-landsliðinu síðasta vetur í kjölfarið á frábærri frammistöðu með Íslandsmeistaraliði Breiðabliks 2022.

Við stuðningsmenn fögnum þessari undirskrift enda er Viktor Örn alvöru stríðsmaður en um leið drengur góður. Allir góðir Blikar fagna þessum tíðindum.

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

image

11.maí 2022: Viktor Örn stangar sigurmark okkar manna í netið hjá Stjörnumönnum á Kópavogsvelli fyrir framan 1750 áhorfendur í 3:2 sigri í 5. umf Bestu deildar karla 2022. 

Til baka