BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Vesen í Vestmannaeyjum

23.04.2023 image

Ég vissi eiginlega ekki hvernig ég ætti að byrja þessa samantekt ef ég á að vera hreinskilinn. Víti í Vestmannaeyjum, vonbrigði í Vestmannaeyjum, vindur í Vestmannaeyjum eða bara vesen í Vestmannaeyjum. Það var margt í gangi á Hásteinsvelli í dag sem minnti frekar á bumbubolta en Bestu deild á Íslandi. Þá er ég fyrst og síðast að tala um vallaraðstæður, umgjörð og fleira en svona er bara staðan. Breiðablik fór á þennan völl í fyrra og gerði 0-0 jafntefli og völlurinn var litlu skárri þar sem ekki var búið að slá eða vökva völlinn. Við eigum að vera vön þessu veseni en vallaraðstæður í dag voru með því verra sem maður hefur séð í dágóðan tíma í efstu deild.

Byrjunarlið Blika var sem hér segir:

image

Fyrstu mínútur fóru í að finna stærstu holurnar á vellinum og menn að reyna að átta sig á aðstæðum, vindur var þokkalegur og virtist bæta í þegar leið á leikinn. Eftir um 10 mínútur fengu Eyjamenn gott færi upp úr hornspyrnu en Anton Ari náði að verja boltann og Viktor Karl kláraði svo björgunina á marklínu. Leikurinn þróaðist áfram og það var við að sama, menn að reyna að spila fótbolta en áttu erfitt um vik.

Eftir um 20 mínútur flautuðu allir bílar í eyjum og kallað var eftir víti á Höskuld þegar að Eyjamaður féll í teignum en ekkert var dæmt. Blikar kannski heppnir þarna. Leikurinn hélt áfram og Eyjamenn náðu aðeins betri tökum á leiknum. Það kom undirrituðum því ekki á óvart þegar að þeir hvítu skoruðu eftir að hornspyrna var tekin stutt. Strax á eftir kom fyrirgjöf sem Sverrir Páll Eyjamaður náði að skalla að marki, Anton Ari varði vel en Halldór Jón fylgdi á eftir og boltinn kominn í netið. Damir varð gjörsamlega brjálaður og ég skil hann.

Þegar að fyrri hálfleikur var á lokametrunum fengu Blikar aukaspyrnu sem þeir tóku hratt og náðu að koma boltanum inn í teig. Þar var Höskuldur sem var að spila vinstri bakvörð kominn á nærstöngina og náði að skalla boltann fallega í fjær hornið. Flautað var til hálfleiks um leið og Eyjamenn tóku miðjuna.

Í síðari hálfleik var sama stemmning en vindurinn var orðinn meiri sem var ekki að hjálpa okkar mönnum sem spiluðu á móti vindi í seinni. Þegar um 5 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þá náðu Blikar fínu spili og sendingu fyrir en Eyjamenn náð að bjarga sér fyrir horn. Það var svo um klukkutími liðinn af leiknum þegar þeir grænu fengu hornspyrnu, boltinn kom á fjær og munaði engu að Damir næði að koma boltanum í markið.

Næstu mínútur voru bara eitthvað, Eyjamenn reyndu að nota vindinn með löngum sendingum en fengu ekkert út úr því í 20 mínútur eða svo. Þegar um 10 mínútur voru eftir fékk ÍBV dauðafæri þegar að það kom skot á markið sem virtist vera að stefna í markið en Breki Ómarsson sem var nýkominn inn á náði á einhvern undraverðan hátt að skjóta boltanum yfir markið.

Það var farið að fara um mann á þessum tímapunkti, að taka stig úr eyjum í þessum aðstæðum væri kannski bara allt í lag en að tapa þessu á síðustu mínútum en ekki eitthvað sem ég var tilbúinn að sætta mig við.

Það var því eins að fá blauta lundapysju í andlitið þegar að ÍBV fékk víti á síðustu mínútum leiksins, það var nánast eins og Gunnar Helgason væri að skrifa handritið fyrir Eyjamenn. Viktor Örn renndi sér fyrir sendingu sem var á leið inn í teiginn en það fór ekki betur en svo dómarinn dæmdi víti því hann var 100% á því að Viktor hefði tekið boltann með hendinni.

Herra Vestmannaeyjar, Eiður Aron fór á punktinn og var fullur af sjálfstrausti. Rölti rólega að punktinum og setti boltann örugglega fram hjá Antoni Ara í markinu. 2-1 sigur Eyjamanna staðreynd og bæði lið með 3 stig eftir 3 umferðir sem mér finnst hálf ótrúlegt að skrifa.

Ég get alveg sætt mig við slysið á móti HK, það var margt þar sem var mjög óvenjulegt. Svo sáum við Blikana sem við þekkjum á móti Val, sáum þá reyndar líka á móti Víking í leiknum um Meistara meistaranna. Það er eiginlega ekki hægt að taka neitt út úr þessum leik við ÍBV vegna þess hvernig aðstæður voru, ég er aðallega bara feginn að vera búinn að fara þangað. Þessir 2 leikir á móti HK og ÍBV fara í reynslubankann og mótið er rétt að byrja ef við reynum að vera jákvæð.

En hvað svo? Breiðablik mætir Fram á Wurth vellinum uppi í Árbæ á föstudagskvöldið næsta og þar kemur ekkert til greina annað en sigur, svo einfalt er það. Langtímaspáin er björt, bæði fyrir Breiðablik og föstudaginn næsta. Við skulum því fjölmenna á föstudagskvöldið og öskra strákana okkar til sigurs, við þurfum að fara að safna stigum í pottinn.

-KIG

image

Til baka