BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Veit á gott

12.06.2021 image

Við sessunautur minn gripum um úlnlið hvors annars þegar flautað var til hálfleiks bara til að tékka á hvort við værum með púls eða hefðum ef til vill drepist úr leiðindum án þess að taka eftir því. Markalausa staðan í hálfleik var óvænt því Breiðablik og Fylkir eru þau lið sem hafa boðið áhorfendum upp á flest mörk í sínum leikjum það sem af er tímabili. Fjögur mörk að meðaltali í leik hjá okkur grænum sem er tvöfalt meira en hjá Stjörnunni en í Garðabænum er víst meira áríðandi að bólusetja fyrir fótboltaleiðindum en kórónuveirunni.

Ekki var hægt að kvarta yfir leikmannahópnum og maður hugsaði sér sérlega gott til glóðarinnar þegar maður sá nafn Andra Rafns á skýrslu og svo Davíðanna beggja, Davíð Ingvarsson að koma úr meiðslum en Davíð Örn Atlason (Hilmarssonar handboltakappa) kom síðar inn á í sínum fyrsta leik fyrir Breiðablik. Sjaldan ef nokkurn tíma hefur breiddin í leikmannahópi Breiðabliks verið meiri en um þessar mundir. Varamannabekkurinn var rosalegur en byrjunarliðið var annars svona.

image

Fyrri hálfleikurinn var semsagt alveg hrútleiðinlegur, okkar menn miklu meira með boltann en það var ekki fyrr en á markamínútunni, þeirri fertugustuogþriðju, að við sáum fyrsta skot Breiðabliks á mark. Það var laust og það var varið. Markalaust í hálfleik.

43 mínútur – 43 sekúndur

Eftir að hafa notað lífsmarkið sem fannst hjá okkur sessunautum til að óska Bjössa Bergsteini til hamingju með Grímuna sem hann fékk á dögunum, rölta í gegnum græna herbergið til að ákveða að maður myndi geyma bjórinn þangað til síðar og fussa svolítið og sveia yfir leiðindunum, var eins gott að drífa sig til sætis.

Það tók tæpar 43 mínútur í fyrri hálfleik að koma skoti á mark en í þeim síðari tók það 43 sekúndur að skjóta á markið – og skora. Árni Vill afgreiddi netta stungusendingu Kidda smekklega og ykkur að segja þá var maður þá þegar viss um að þessi leikur myndi vinnast. Fylkismenn voru ekki að gera neitt sem traust vörnin sá ekki við. Mesta hættan var þegar varnarmenn eða markmaður ákváðu, út úr einhverjum leiðindum held ég, að skapa spennu með vafasömum sendingum sín á milli.

image

Mynd: HVH

Í framhaldi af markinu hans Árna sundurspiluðu okkar fagurgrænu piltar Fylkismennina en núna var eins og þeir vissu til hvers þeir voru að því. Það var eins og leikmenn hefðu náð að tileinka sér um hríð trommutaktinn úr stúkunni í stað þess að vera í einhverjum vangadanslögum eins og í fyrri hálfleiknum.

Margar bráðskemmtilegar sóknir fylgdu, tvöföldun á köntunum virkaði rosalega vel, margar flottar fyrirgjafir, góðar stöður skapaðar og tæpar tíu mínútur inn í hálfleikinn kom mark númer tvö. Gísli með skot sem rataði af varnarmanni í stöngina, Viktor Karl veður á frákastið og þrykkir tuðrunni upp í þaknetið. 2-0.

image

Mynd: HVH

Æft hver í sínu lagi?

Eftir þetta var svolítið eins og óminnishegrinn hefði heimsótt og liðið gleymt því aftur af hverju verið er að yfirspila andstæðinginn. Manni datt jafnvel í hug að menn hefðu æft hver í sínu lagi í landsleikjahléinu og margar innáskiptingar virtust frekar rugla okkar menn í ríminu en að skerpa á.

Það var aldrei spurning hvort fótboltaliðið væri hæfileikaríkara, þannig voru yfirburðir Breiðabliks í leiknum. Snerpuna vantaði hins vegar löngum stundum og þegar markmaðurinn okkar hékk stundum á boltanum, við tókum óhemjulangan tíma í að taka hornspyrnur, buðum okkur illa í innköstum og þvíumlíkt, fannst mér ég vera í prófi. Hvað geturðu þolað þetta dund lengi, Eiríkur, án þess að garga á piltana? Mitt svar var 83 mínútur en þá var ég alveg að fara yfir um af leiðindum aftur.

Ekki upp á sitt albesta – vinna samt

Það má hins vegar rifja upp að þau lið sem ná bestum árangri gera það ekki bara með því að vera mjög oft upp á sitt besta. Það skiptir ekki minna máli að vinna leikina þegar það vantar svolítið upp á. Þannig dagur var þetta í dag.

Það veit á gott, að spila ekki sinn besta leik en vinna samt 2-0.

Vel gert, takk fyrir mig og mikið svakalega verður þetta skemmtilegur leikur á móti Val á miðvikudagskvöldið.

Eiríkur Hjálmarsson

Umfjallanir netmiðla

Myndaveisla í boði Blikar TV: 

Mörkin:

Til baka