BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Veisla á Kópavogsvelli

13.05.2021 image

Það var heldur kuldalegt um að litast í Smáranum þegar lið Breiðabliks og Keflavíkur gengu inn á völlinn sunnudagskvöldið 13. maí. Þó ekki „rigning og myrkur og meinlegir skuggar,“ eins og Keflvíkingurinn mikli Rúnar Júlíusson söng forðum. Maðurinn sem gat ekki mætt í landsleik á móti Wales haustið 1964 af því að hann var upptekinn við að spila með Hljómum.

Sá sem hér heldur á penna var fenginn til að spá fyrir um úrslit leiksins fyrir Blikar.is og taldi líklegt að nú myndu Blikar gyrða sig í brók og vinna 2-0. Sessunauturinn var bjartsýnni og spáði 3-0.  Það var með öðrum orðum bjart yfir okkur feðgum þegar flautað var til leiks – en við vissum líka að það var ekki á vísan á róa. Suðurnesjamenn eru sægarpar enn, fast þeir sækja sjóinn, það er ekki að spauga með þá osfrv. Og þar að auki voru þeir nýbúnir að leggja Stjörnuna að velli. Það er því ekki laust við að maður hafi verið með „taugarnar þandar“ í upphafi leiks.

Festa og öryggi

Blikaliðið var nokkuð breytt frá síðasta leik. Damir, Davíð og Gísli voru á bekknum og Oliver ekki í hóp. Árni Vil byrjaði sinn fyrsta leik í grænu treyjunni í háa herrrans tíð. Liðið var að öðru leyti þannig skipað þegar leikur hófst:

image

Fyrstu mínúturnar einkenndust af ónákvæmum sendingum okkar manna. Það var eins og það kæmi á óvart að völlurinn væri sléttur og vel vökvaður. Blikar voru þó sterkari aðilinn. Og eftir 10 mínútur og 24 sekúndur braust Viktor Karl í gegnum vörn gestanna þar sem brotið var á honum og víti réttilega dæmt. Meira að segja Keflvíkingar reyndu ekki að andmæla, segja dómaranum að „slappa af“ og vera ekki svona stífur og stirður og þver, svo vísað sé í Keflavíkurskáldið Þorstein Eggertsson. Thomas Mikkelsen fór á punktinn og setti boltann af festu og öryggi í hægra hornið niðri. 1-0 og mönnum létt í stúkunni, trumbur lamdar og söngvar sungnir.

image

Brotið var á Viktori Karli og víti réttilega dæmt.

Lognið á undan storminum

Framhald hálfleiksins var nokkuð rólegt, þótt okkar menn væru hættulegri. Viktor Karl, Jason Daði og Kristinn áttu allir ágæt skot sem geiguðu eða fóru í horn. Keflvíkingar ógnuðu okkar marki ekki mikið, þó þurfti Anton Ari að sýna úr hverju hann er gerður þegar hann kýldi frá ógnvænlega fyrirgjöf og varði einnig vel.

Það var með öðrum orðum ekkert sem benti sérstaklega til þess að Blikar myndu bæta við mörgum mörkum þegar gengið var til hálfleiks og heldur ekki líklegt að Keflavík myndi jafna.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað. Þó kvað meira að okkar mönnum, þeir sungu um lífið og lofuðu það líka: Kristinn og Árni Vil ógnuðu með skotum, Jason Daði skoraði rangstöðumark. Það lá eitthvað í loftinu. Á 60. mínútu fóru Jason Daði og Árni Vil út af og Davíð og Gísli komu inn á. Skömmu síðar var talið í sannkallað stuðlag.

Magnaðar mínútur

Á 61. mínútu tók Viktor Karl aukaspyrnu, Thomas átti fínan skalla en markvörður gestanna bjargaði í horn. Mínútu síðar átti nefndur Viktor skot sem var varið. Það var kominn meiri þungi í aðgerðir okkar manna. Kannski voru þeim farin að „leiðast svo eldhúsverkin“ og vildu hætta þessu gaufi.

Litlu síðar hófst stórkostlegur kafli þar sem Blikum tókst á aðeins þremur mínútum að skora þrjú mörk og skipta út leikmanni. Geri aðrir betur! Fyrst sendi Viktor Karl frábæran bolta á Thomas sem var allt í einu einn og óvaldaður á vítateig gestanna, vörnin var eins og „yfirgefinn bíll úti í vegarkanti og hvergi hræðu neins staðar að sjá“. Staðan orðin 2-0 og spá mín hafði ræst.

image

Mynd: HVH

Varamennirnir, Gísli og Davíð, vildu greinilega sýna Óskari Hrafni að þeir hefðu átt að byrja leikinn og var röðin núna komin að þeim að sýna snilli sína. Þeir léku glæsilega saman upp vinstri kantinn sem lauk með því að Thomas fékk sendingu inn á teig. Staðan orðin 3-0 og spá sonarins hafði ræst. Nú var drifið í skiptingu, afmælisbarn dagsins, Damir, kom inn á fyrir Alexander. Á sömu mínútu fór Thomas upp hægri kantinn eftir útspark (já, langt útspark!), þrumaði boltanum fyrir þar sem Kristinn tók hann viðstöðulaust á lofti. 4-0 og allar spár í upplausn! Þarna kórónaði Kristinn frábæra frammistöðu sína en hann var verðskuldað valinn maður leiksins. Litlu síðar munaði minnstu að Thomas bætti sínu fjórða marki við eftir fyrirgjöf Davíðs.

image

Mynd: HVH

Á 80. mínútu fóru Viktor Karl og Kristinn út af fyrir Benedikt Warén og Sölva Snæ Guðbjargarson sem er nýjasti leikmaður Blika. Hann lét sannarlega að sér kveða þær mínútur sem hann fékk og verður gaman að fylgjast með honum í græna búningnum í sumar.

Eins og brjáluð hundstík

Þannig lönduðu okkar menn sínum fyrsta sigri á Íslandsmótinu í ár. Hann var í raun aldrei í hættu – nema kannski þegar spil úr markspyrnu virtist ætla að koma mönnum í vandræði. Allir áttu skínandi fínan leik og var gaman að sjá samspil Blika á löngum köflum. Thomas Mikkelsen sýndi af hverju hann er talinn einn besti framherjinn í deildinni, í vítateignum var hann „eins og brjáluð hundstík í stórri kindahjörð“ (Þorsteinn Eggertsson) og hrein unun var að sjá sumar sendingar Kristins Steindórssonar.

Á sunnudaginn mæta léttleikandi Blikar sprækum piltum Arnars Gunnlaugssonar í Fossvoginum en þeir eru jafnir FH, Val og KA að stigum á toppnum. Fjögurra marka veisla á móti líflegum Keflvíkingum hlýtur að vera gott vegarnesti fyrir þá viðureign.

PMÓ

image

Mynd: HVH

Til baka