BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Vantar meira malt!

14.04.2016

Blikar lutu í gras  2:1 fyrir drengjunum hans Séra  Friðriks á rennisléttum Valsvellinum i dag. Guðmundur Atli kom okkur yfir í fyrri hálfleik en Valsmenn tryggðu sér sigurinn með mörkum í sitt hvorum hálfleiknum.  Leikur okkar drengja var allt of kaflaskiptur og sigur þeirra rauðklæddu var sanngjarn. 

Sól skein í heiði og aðstæður til boltasparks voru frábærar á Hliðarenda. En okkar lið náði sér ekki nægjanlega vel á strik í dag. Of margar feilsendingar og baráttan var ekki nægjanlega mikil til að komast áfram að þessu sinni. Þó voru ljósir punktar í leik Blikaliðsins. Guðmundur Atli var duglegur í framlínunni og nýtti vel marktækifærið þegar varnarmaður Vals skallaði knöttinn til hans. Atli Sigurjóns var allt í öllu í miðjuspilinu en vantaði meiri stuðning frá kantmönnunum.  Svo kom Oliver Sigurjónsson inn á þegar rúmar 20 mínútur og sýndi gamalkunna takta. Leikurinn var fyrsti opinberi meistarflokksleikur Ólafs Hrafns Kjartanssonar. Daniel Bamberg er ekki enn kominn með atvinnuleyfi hér á landi og gat því ekki spilað.  Nánari umfjöllun um leikinn.

Það þýðir hins vegar ekkert að gráta Björn bónda eins og Ólöf ríka sagði á sínum tíma. Nú verðum við að safna liði og undirbúa okkur vel fyrir Ólafsvíkur-Víkingaleikinn sunnudaginn 1. maí.

-AP

Til baka