BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Valur - Breiðablik í PEPSI sunnudaginn 27. maí kl. 20:00!

25.05.2018

Sjötta umferð PEPSI-deildar karla verður leikin um helgina. Blikaliðið skellir sér til Reykjavíkur og mætir þar Íslandsmeisturum Vals á fagurgrænum og rennisléttum heimavelli Valsmanna – Origo-vellinum.

Blikar, eina taplausa liðið í deildinni, eru nú efstir á stigatöflunni með 11 stig eftir 3 sigurleiki og 2 jafntefli eftir fyrstu 5 umferðirnar. Valsmenn eru með 6 stig eftir 1 sigur, 3 jafntefli og 1 tap eftir jafn marga leki.

Það er alveg ljóst að okkar mönnum bíður mjög verðugt og erfitt verkefni á sunnudagskvöld gegn Íslandsmeisturum Vals. Vonandi sjá flestir Blikar sér fært að mæta á Origo-völlinn og hvetja okkar menn áfram. Leikurinn hefst klukkan 20:00.

Aðrir leikir í 5. umferð PEPSI karla á sunnudaginn eru: Keflavík – ÍBV kl. 16:00. KR – KA kl. 17:00. Víkingur R. – Fjölnir kl. 17:00. Stjarnan – Greindavík kl. 19:15. Umferðinni lýkur á mánudagskvöld með leik FH og Fylkis í Krikanum kl. 19:15.

Sagan

Opinberir leikir Breiðabliks og Vals í meistarflokki karla frá upphafi eru 87. Fyrsti mótsleikur liðanna var leikur í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ á Melavellinum föstudaginn 13. ágúst  1965. Leikið var gegn B-liði Vals. Leikurinn tapaðist 3 - 1. Næsta viðureign liðanna var árið 1968. Og aftur var leikið gegn B-lið Vals í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ. Leikurinn fór fram á Melavellinum 26. júlí 1968. Blikar unnu leikinn 3-0. Mikið skorað í fyrstu mótsleikjum liðanna og tónninn fyrir framhaldið gefinn.

Sagan frá upphafi er með Val. Í 87 mótsleikjum frá upphafi hafa Valsmenn sigrað 37 viðureignir, Blikar hafa sigrað 31 viðureign og jafnteflin eru 19.

Efsta deild

Fyrstu viðureignir liðanna í efstu deild voru árið 1971. Fyrri leikurinn 1971 var heimaleikur Blika og lauk með 2-0 sigri okkar manna. Það voru  þeir Guðmundur Þórðarson og Magnús Steinþórsson sem skorðu fyrstu 2 mörk Blika gegn Val í efstu deild. Hinsvegar tapaðist seinni leikurinn 4-2. Um haustið áttust liðin við í 8-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ. Blikar unnu bikarleikinn 2-1. Samtals 11 mörk skoruð í þremur innbyrðisleikjum liðanna árið 1971.

Tölfræðin er nokkuð jöfn þegar kemur að efstu deildar leikjum liðanna. Í 62 leikjum liðanna í efstu deild hefur Valur sigrað 25 leiki, Blikar 23 leiki og jafnteflin eru 14.

Frá 2005

Hinsvegar hafa Blikar haft gott tak á Valsmönnum í efstu deild frá því að liðin komu síðast upp úr næst efstu deild - Valur árið 2005 og Blikar árið 2006. Í 24 viðureignum liðanna heima og úti hafa Blikar unnið helming leikjanna, Valsmenn hafa unnið 6 sinnum og jafnteflin eru 6.

Í 12 efstu deildar leikjum liðanna á heimavelli Valsmann frá 2005 hafa Blikar unnið sex sinnum, tapað þrisvar og þrisvar gera liðin jafntefli. Liðin skora 53 mörk í þessum 12 leikjum; Blikar skora 34 mörk gegn 19 mörkum Valsmanna. 

Síðustu 5 úti gegn Val

2017: 1:0 - Kristinn Ingi með sigurmark Vals á 80. mín

2016: 0:3 - Árni Vill(x2) og Gísli Eyjólfs skorðuðu mörk Blika

2015: 0:1 - Jonathan Glenn með sigurmark Blika á 38. mín

2014: 1:2 - Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði bæði mörk Blika

2013: 1-1 - Magnús Már og Árni Vill skoruðu mörkin

Leikmannahópur Blika

Leikmannahópur Blika er ekki mikið breyttur frá í fyrra. Jonathan Hendrickx er nýr leikmaður hjá okkur eins og allir vita. Arnór Gauti snýr aftur heim eftir dvöl í Eyjum í fyrra. Guðmundur Böðvar Guðjónsson kemur til Blika frá ÍA. Og svo er Oliver Sigurjónsson kominn aftur til okkar í bili. Leikmannahópur Blika 2018.

Einn leikmaður Valsliðsins á feril að baki með Blikum. Guðjón Pétur Lýðsson lék 104 mótsleiki með Blikum frá 2013 til 2015 og skoraði í þeim 25 mörk.

Vonandi sjá flestir Blikar sér fært að mæta á Origo-völlinn og hvetja okkar menn áfram. Leikurinn hefst klukkan 20:00.

Valsmenn vekja athygli á bílastæðum við Valssvæðið og að fólk tryggi sér miða fyrirfram til að forðast biðraðir í miðasölu.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka