BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Valsmönnum skellt

27.05.2019

Blikar mættu Íslandsmeisturum Vals á Hlíðarenda, heimavelli þeirra síðarnefndu í Pepsi Max deildinni kvöld. Hlíðarendi er nafn á nokkrum bæjum hér á landi og er sá í Fljótshlíðinni sennilega þeirra frægastur. Þar bjó Gunnar Hámundarson þar til hann sleit bogastreng sem frægt varð og er frá sagt í Njálu. Mikil og góð bók Njála. Annar Hlíðarendi er í Kræklingahlíð norður þar og um Ólaf nokkurn sem þar bjó var eitt sinn ort skemmtileg vísa, en það er annað mál sem ekki verður reifað hér. Hlíðarendi er líka til á Fljótsdalshéraði, en hann er kominn í eyði. En þessi sem Blikar heimsóttu i kvöld er nú bara hér í túnfætinum og stutt að fara, enda fjölmenntu Blikar þangað í kvöld. Sagt að þar hafi ekki verið fleiri í háa herrans tíð. Veður var með allra besta móti miðað við árstíma. Vestan kaldi framan af og síðan hægur vindur með sólfari og ekki til muna kalt enda skein kvöldsölin af og til inn í stúkuna. Það er furðulegt fyrirkomulag (kaldhæðni). Hiti 9¨C.

Leikskýrsla KSÍ      Úrslit.net

Blikar með breytingar á byrjunarliði frá síðasta leik. Thomas var fjarverandi í kvöld vegna meiðsla, og Höskuldur byrjaði á bekknum. Í þeirra stað komu Þórir og Aron.

Leikurinn fór rólega af stað. Svona eins og hægur vals. Smá þreifingar hér og þar en lítið um minnisverð atvik. En það breyttist fljótlega. Blikar áttu fyrsta færið þegar Andri átti skot sem lak framhjá markinu. Skömmu síðar komust Valsmenn inn fyrir en voru dæmdir rangstæðir. Ekki í fyrsta og ekki í síðasta sinn í þessum leik. En fjörið var rétt að byrja og upp úr þessu tóku Blikar völdin á vellinum og það var gaman að sjá hvernig okkar menn tættu í sundur staða og hæga vörn andstæðinganna. Því miður varð þó ekki barn úr þeirri brók sem spunnin var og verður það að teljast með ólíkindum að Blikar skyldu ekki skora mark í fyrri hálfleik. Og það fleiri en eitt. Fyrsta alvöru færið fékk Þórir eftir flott spil og góða fyrirgjöf frá Jonathan en landsliðmarkvörðurinn varði ágætan skalla með fótunum. Örskömmu síðar skildu Aron og Arnar Sveinn vörn Valsmann efti í rykinu og Arnar komst í færi en skot hans fór í innanverða stöngina og svo beint í fangið á landsliðmarkverðinum. Hér eftir bara kallaður Hannes. Mínútu síðar var enn eitt færið og aftur var það Þórir sem komst einn á móti Hannesi eftir flott spil en aftur varði Hannes. Nú liðu um það bil 5 mínútur og þá kom enn eitt færið eftir flotta sókn en nú var það Aron sem átti skotið. Hannes varði. Og enn kom færi. Dauðafæri. Og enn varði Hannes frá Þóri. Á betri degi hefði Þórir, þegar hér var komið sögu, verið kominn með svo kallaða þrennu. Nú var manni hætt að lítast á Blikana og blikuna. Myndu Valsmenn ekki refsa fyrir þetta? Einsog þeir gerðu svo grimmilega á sama stað fyrir ári síðan. Þá óðum við líka í færum en töpuðum 2-1. Þetta leit ekki vel út frá þeim sjónarhóli. Valsmenn fengu svo sitt best færi skömmu fyrir leikhlé eftir mistök okkar manna, en Gunnleifur var vel á verði.

Heimamenn máttu prísa sig sæla að liggja ekki í það minnsta 2-3 mörkum undir í leikhléi og geta þakkað Hannesi fyrir það. Að sama skapi var alveg gallsúrt fyrir Blika að sigla markalausir inn í hálfleikinn. Alveg hreint gallsúrt. Það olli talsverðum ónotum, með tilheyrandi kviðverkjum og áköfum herpingi til munns og handa hjá stuðningsmönnum að menn skyldu ekki druslast til að henda í eitt eða tvö mörk, í það minnsta. Sýndist sitt hverjum hverjir væru liklegastir til að gera mark fyrir okkur og hafði enginn rétt fyrir sér þegar upp var staðið. Valsmenn leika sem kunnugt er á s.k gerfigrasi og hafa gert í 3 ár held ég. Maður skyldi halda að þeir væru orðnir nokkuð æfðir í viðhaldi vallarins en því fer fjarri. Að minnsta kosti hafa þeir enn ekki lært að vökva völlinn svo vel sé. Það vakti sem sé nokkra furðu þegar þeir brugðu að það vökva bara annan helming vallarins í hálfleik. Sennilega var það algjör tilviljun að það var sá vallarhelmingur þar sem þeir hugðust iðka ákafan sóknarleik. Hinn helming vallarins létu þeir eiga sig. Mér fróðari menn hafa sagt mér að þetta sé reyndar svokallað ,,trix“ og ætlað til að klekkja á gestunum. Hvað svo sem kann að vera satt í því þá er það ekki fallega gert og alls ekki í anda síra Friðriks, er stofnaði Val ,en hann sagði að menn skyldu varast að láta ,,kappið bera fegurðina ofurliði“ ? Jú – ég held að hann hafi nefnilega einmitt sagt það. Þetta er allavega ansi lélegt hjá liði sem fyrir ári síðan hamaðist á ónefndu félagi í sama hreppi fyrir að bjóða upp á ,,óboðlegan völl“. Og var það ágæta félag nú bara að kljást við náttúruöflin. Við svona hroka er bara eitt svar: ,,Étt´ann sjálfur“.

Jæja, þá er aðeins búið að lofta út og rétt að snúa sér að leiknum á ný. Blikar hófu leikinn af krafti og eftir örfáar mínútur átti Jonathan lúmskt skot sem rann sem leið lá yfir ristar og tær og naumlega framhjá markstöng Valsmanna. Þarna munaði mjóu. Næstu mínútur var mikill barningur og leikmenn beggja liða létu dómarann heyra það ítrekað og sérstaklega var fyrirliði Valsmann iðinn við kolann, en hann lagði sem kunnugt er skóna á hilluna s.l haust. En hann er semsagt ekki hættur að röfla í dómaranum. Kolbeinn sýndi flotta takta og tók nett dansspor við vítateig Vals og lúðraði svo boltanum af alefli, en því miður fór hann yfir markið, og skömmu síðar var Kolbeinn aftur á ferðinni en enn varði þessi Hannes….

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

 

abc

Við svo búið ákváðu Blikar að hrista aðeins upp í hlutunum og gerðu tvær breytingar. Inn komu Brynjólfur og Höskuldur í stað Þóris og Arons. Höskuldur var fljótur að koma sér inn í leikinn en Brynjólfur fór hægar af stað en óx ásmegin eftir því sem leið á. Skömmu síðar komust Valsmenn í álitlegt færi en Gulli náði að redda með skrýtnu úthlaupi. Það var eins og hann misreiknaði sig og væri næstum hættur við en svo óð hann í þetta og kastaði sér fyrir boltann og náði að góma hann fyrir rest. Skömmu síðar náðu Blikar forystunni og þar komu báðir varamennirnir við sögu. Blikar létu boltann ganga vel upp völlinn og hann barst til Jonathans á hægri vængnum. Hann send háan bolta yfir á fjærstöng og varnarmaður Vals misreiknaði sig með þeim ánægjulegu afleiðingum að Höskuldur náði til knattarins. Hann tók boltann niður, lék aðeins áfram og renndi svo út á Brynjólf sem var mættur fyrir framan markið. Hann skaut á markið en enn og aftur var þessi Hannes að þvælast fyrir, en nú hélt hann hinsvegar ekki boltanum sem hrökk út í markteiginn og þar kom Andri Rafn á siglignu og lagði boltann snyrtilega framhjá Hannesi og einum eða fleirum Valsmönnum sem kunna að hafa staðið á eða við marklínuna.

Stöð 2 Sport valdi "markahrókinn" Andra Rafn Yeoman mann leiksins á Origo vellinum í kvöld. Sigurmarkið var 11. markið hans í 197 leikjum í efstu deild og annað mark Andra gegn Val á ferlinum. Hitt markið skilaði okkur stigi í 1:1 jafntefli árið 2012. 

Blikar nær og fjær fögnuðu markinu vel og lengi. Okkar menn héldu vel sjó eftir markið og Valsmenn voru satt að segja ekki líklegir til að skora. Blikar héldu boltanum og létu hann ganga og fiskuðu nokkrar aukaspyrnur á pirraða Valsmenn. Af og til gerðu þeir sig svo líklega til að bæta við marki en það vantaði herslumuninn. Blikar sendu Viktor Karl inn fyrir Arnar Svein sem var farinn að haltra og orðinn ansi lúinn. Áfram tifuðu mínúturnar og Blikar létu sér það vel líka. En eitthvað fór það í taugar eins leikmanna Vals sem fékk beint rautt spjald fyrir fólskulegt og stórhættulegt brot á Kolbeini út við hliðarlínu. Hann óð bara á eftir honum og þrumaði hann niður aftanfrá !! Algerlega óskiljanlegt, enda var sá brotlegi skömmustulegur þegar hann bað Kolla afsökunar þar sem hann lá í grasinu. En þetta hjálpaði náttúrulega ekki heimamönnum og Blikar voru ekki í neinum vandræðum síðustu mínúturnar.

Myndaveisla í boði Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð.

Blikar léku nú sinn besta leik í sumar og voru grimmir og beittir. Það hefði ekki gert til þó mörkin hefðu verið fleiri og komið fyrr, en menn gáfust ekki upp þó mörkin létu á sér standa, heldur héldu áfram og pressuðu Valsarana um allan völl, meira og minna allan leikinn. Það var aðeins um miðbik síðari hálfleiks sem dampurinn datt niður en við skiptingarnar jókst svo krafturinn í leik okkar manna á ný. Varnarleikurinn var lengst af mjög traustur í dag og fínn bragur á liðinu. Sóknarleikurinn það beittasta sem við höfum séð í ár og færin næg til að vinna nokkra fótboltaleiki. En þau þarf að nýta betur. Miklu betur. Betra lið hefði refsað okkur fyrir þessa færanýtingu.
Með sigrinum tylltu Blikar sér í annað sætið og eru nú 3 stigum á eftir ÍA og vel með í þessu móti.

Umfjallanir netmiðla.

Næsti leikur er gegn HK í bikarnum n.k. fimmtudag kl. 19:15.
Það er heimaleikur.

Áfram Breiðablik !
OWK

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Til baka