UEFA Sambandsdeild 2025/26. Deildarkeppni. Shakhtar Donetsk - Breiðablik
04.11.2025
Þriðji leikur Breiðabliks af sex í deildarkeppni Sambandsdeildar UEFA 2025 er gegn Shakhtar Donetsk frá Úkraínu á Henryk Reyman’s vellinum í Krakow á fimmtudaginn kl.17:45.
SÝN Sport Viaplay sýnir leikinn. Útsending hefst kl.17:35!
Um andstæðinginn
Shakhtar Donetsk er eitt af elstu og sigursælustu knattspyrnufélögum Úkraínu, stofnað árið 1936 í borginni Donetsk. Saga félagsins spannar tímabil Sovétríkjanna, sjálfstæði Úkraínu og átök síðustu ára.
Saga félagsins í stuttu máli: Félagið var stofnað 24. maí 1936 og var upphaflega tengt námuverkamönnum í Donetsk. Nafnið „Shakhtar“ þýðir einmitt „námumaður“. Sovéska tímabilið: Á tímum Sovétríkjanna var Shakhtar eitt af stærri liðum landsins og vann Sovéska bikarinn árið 1980 og deildarbikarinn 1984. Úkraínsk yfirráð: Eftir sjálfstæði Úkraínu hefur Shakhtar verið í fremstu röð. Liðið hefur unnið Úkraínsku úrvalsdeildina 15 sinnum og Úkraínsku bikarkeppnina 15 sinnum. Evrópusigur: Stærsti alþjóðlegi árangurinn kom árið 2009 þegar Shakhtar vann UEFA Cup (nú Europa League) og varð þar með fyrsta úkraínska félagið til að vinna evrópukeppni. Donbass Arena: Heimavöllur liðsins, Donbass Arena, var opnaður árið 2009 og tekur yfir 52.000 áhorfendur. Völlurinn hefur fengið fimm stjörnu einkunn frá UEFA. Átök og flutningur: Vegna stríðsátaka í austurhluta Úkraínu hefur Shakhtar þurft að flytja frá Donetsk og spilað heimaleiki í Lviv, Kharkiv og Kyiv frá 2014.
Brasilísk tenging: Shakhtar er þekkt fyrir að kaupa unga brasilíska leikmenn. Frá 2002 hefur félagið keypt yfir 35 leikmenn frá Brasilíu. Þekkt nöfn sem komu frá Shakhtar: Fernandinho, Willian, Douglas Costa, Fred – allir fóru síðar til stórliða í Evrópu. Stefna félagsins hefur verið að þróa leikmenn og selja þá áfram með hagnaði. Eigandi félagsins er auðkýfingurinn Rinat Akhmetov, sem hefur fjárfest mikið í uppbyggingu liðsins. Fyrrverandi þjálfari Mircea Lucescu mótaði brasilísku stefnu félagsins og gerði það að stórveldi innanlands og í Evrópu.
Evrópusaga Shakhtar Donetsk: Shakhtar Donetsk hefur tekið þátt í evrópukeppnum frá árinu 1976, þegar liðið lék sinn fyrsta leik gegn Berliner FC Dynamo í UEFA Cup. Frá árinu 1997 hefur félagið verið reglulegur þátttakandi í UEFA-keppnum og komst fyrst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar árið 2000–01, þar sem það mætti Arsenal, Lazio og Sparta Prag. Shakhtar er eitt af fáum félögum í Austur-Evrópu sem hefur náð að vinna evrópukeppni og hefur verið stöðugt í Meistaradeild og Evrópudeild síðustu tvo áratugi.
Frétt á .Net 04. nóvember 2025. Blikar að fara að mæta heimilislausu toppliði sem Arda Turan stýrir
Evrópusaga Breiðabliks
Karlalið Breiðabliks hefur spilað 55 Evrópuleiki frá árinu 2010 til dagsins í dag gegn 28 evrópskum félagsliðum frá 23 löndum. Breiðabliksliðið hefur tekið þátt í öllum UEFA keppnum: Meistaradeild, Evrópudeild og Sambandsdeild.
Fyrsti Evrópuleikur liðsins var gegn Motherwell í Skotlandi 15. júlí 2010. Frá því hefur Breiðablik tekið þátt í UEFA Evrópukeppnum í 11 ár af 16 mögulegum - þar af 7 ár í röð.
Leikurinn við Shakhtar Donetsk á fimmtudaginn verður 58. UEFA Evrópuleikur karlaliðs Breiðabliks frá upphafi.
Þátttaka í Evrópumótum:
- Meistaradeild: 2025, 2023, 2011.
- Evrópudeild: 2025, 2023, 2020, 2019, 2016, 2013, 2010.
- Sambandsdeild: 2025, 2024, 2023, 2022, 2021.
Meistaraflokkur Breiðabliks 2025
Fremsta röð f.v.: Valgeir Valgeirsson, Aron Bjarnason, Kristinn Steindórsson, Brynjar Atli Bragason, Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði, Anton Ari Einarsson, Viktor Karl Einarsson, Óli Valur Ómarsson, Kristinn Jónsson. Miðröð f.v.: Birkir Þorsteinsson, Arnór Gauti Jónsson, Tobias Thomsen, Davíð Ingvarsson, Gylfi Berg Snæhólm, Andri Rafn Yeoman, Ágúst Orri Þorsteinsson, Gabríel Snær Hallsson, Gunnleifur Orri Gunnleifsson. Aftasta röð f.v.: Anton Logi Lúðvíksson, Guðmundur Magnússon, Damir Muminovic, Ásgeir Helgi Orrason, Viktor Örn Margeirsson, Kristófer Ingi Kristinsson, Þorleifur Úlfarsson. Ekki á mynd: Dagur Örn Fjeldsted (lán FH), Tumi Fannar Gunnarsson (lán Fylkir), Jón Sölvi Símonarson (lán ÍA), Viktor Elmar Gautason (Keflavík), Daniel Obbekjær (NSÍ). Myndataka & umsjón: Helgi Viðar Hilmarsson, Eyjólfur Héðinsson.
EvrópuBlikar
Þrír leikmenn í núverandi leikmannahópi tóku þátt í fyrsta Evrópuleik karlaliðs Breiðabliks fyrir 15 árum. Þetta eru þeir Andri Rafn Yeoman, Kristinn Steindórsson og Kristinn Jónsson. Höskuldur Gunnlaugsson hefur verið duglegar að skora mörk í Evrópuleikjum, er með 12 mök, en markahrókurinn Kristinn Steindórsson var fyrstur núverandi leikmanna að skora mark fyrir blikaliðið í Evrópukeppni þegar hann skoraði seinna markið í 2:0 sigri á Rosenborg í undankeppni Meistaradeildar UEFA á Kópavogsvelli 20. júlí 2011.
Dagskrá
Flautað verður til leiks gegn Shakhtar Donetsk frá Úkraínu á Henryk Reyman’s vellinum í Krakow á fimmtudaginn kl.17:45.
SÝN Sport Viaplay sýnir leikinn. Útsending hefst kl.17:35!
Dómarar eru frá Rúmeníu. Aðaldómari er Andrei Chivulete. Aðstoðardómarar eru: Radu Ghinguleac og Cristi Daniel Ilinca. Fjórði dómari er:Radu Petrescu. Myndbandsherbergi: Sebastian Colţescu og Adrian Costreie.
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
PÓÁ