BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Toppsætið

31.05.2016

Blikar brugðu sér af bæ í kvöld og heimsóttu granna sína í gamla Garðahreppi, nú Garðabæ. Tilefnið var ærið því þar var meiningin að ljúka 6.umferð PEPSI deildarinnar með viðureign Blika við andskota sína í Stjörnunni. Þessarar viðureignar var beðið með eftirvæntingu til sjávar og sveita, enda sjónvarpsleikur, og lá sauðburður að sögn alveg niðri í kvöld og netja lítt eða ekki vitjað.
Fjöldi Blika á vellinum og flestir mættir snemma. Slatti af heimamönnum líka en heildarfjöldi áhorfenda fékkst ekki uppgefinn. Veður með eindæmum gott inni á vellinum og utan stúkunnar sem snýr reyndar undan sól og hita einsog  hjá okkur. Oo hvað maður er feginn að sitja í skugganum þegar sólin skín og hitinn er alveg að kæfa mann (kaldhæðni ef einhver skyldi ekki átta sig á því). Sól og hægviðri framan af og svo logn þegar á leikinn leið. Hiti 8,5 °C og loftraki c.a. 62%.

Blikar tefldu nú fram sama liði og í sigrinum sæta gegn KR á dögunum og því voru miklar breytingar frá leiknum gegn Kríu í bikarnum. Arnór kominn úr leikbanninu en fór á bekkinn því nú er kominn köttur í ból bjarnar. Svona er samkeppnin og svona viljum við hafa það. Barist um stöðurnar. Alvöru.

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)(F)
Alfons Sampsted - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Höskuldur Gunnlaugsson - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg - Jonathan Glenn
Varamenn:
Aron Snær Friðriksson (M) - Arnór Aðalsteinsson - Ellert Hreinsson - Atli Sigurjónsson - Guðmundur Atli Steinþórsson - Viktor Örn Margeirsson - Ágúst E. Hlynsson.

Sjúkralisti: Enginn
Leikbann: Enginn

Leikskýrsla, myndir, myndbönd, vefumfjallanir.

Leikurinn fór fjörlega af stað og ljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt og nokkuð mikill hraði var í leiknum frá upphafi. Harður bardagi á miðsvæðinu og raunar tekist á um allan völl. Hornspyrnur og marktilraunir á báða bóga og varla dauð stund á löngum köflum. Stuðningsmenn beggja vel með á nótunum og kyntu undir fjörinu. Arnþór og Höskuldur fengu báðir álitleg færi sem ekki tókst að nýta og sérstaklega var færi Höskuldar gott eftir góðan undirbúning hjá Glenn. Hinu megin stóð Gunnleifur vaktina og þurfti að koma höndum á 3 eða 4 skot og í tvígang skutu heimamenn framhjá úr álitlegum færum, en nokkuð þröngum. Mikið fjör og sannkallað ,,end to end“ stöff eins og þeir segja á engilsaxnesku. 1500 kall ekki mikið fyrir svona fjör. Markalaust eftir fjörugan fyrri hálfleik.

Ekkert Blikakaffi í hálfleik áútivell en það stoppar ekki spökulasjónirnar. Menn á einu máli um að fyrri hálfleikur væri það besta sem okkar menn hefðu sýnt til þessa. Meiri kraftur og spilið hraðara en áður. Helst til margir sendingafeilar og tapaðir boltar fyrir utan okkar teig en að öðru leyti nokkuð gott. Vantaði mark.  Og svo jafnaði Víkingur Ólafsvík gegn FH og þá lyftist brúnin á þeim sem ekki svelgdist á gosinu, enda orðið stutt í toppinn. En fyrst þurfti að skora a.m.k eitt mark. Tóti Gísla var bjartsýnn.

Stjörnumenn komu sprækir út í seinni hálfleikinn og settu okkur undir nokkra pressu. Fengu slatta af hornum en ekket varð úr þeim. Blikar þurftu að gera skiptingu á fljótleg þegar Oliver fór af velli vegna meiðsla og í hans stað kom Atli Sigurjónsson. Enn pressuðu heimamenn og svo fengu þeir tvö fín færi til að skora en í bæði skiptin tókst ,,4ða besta markmanni Íslands“ að koma í veg fyrir mark með stórbrotnum vörslum.  Meira ,,Faglega valið“. Gef ekki túkall fyrir það. Eftir þessi úrvalsfæri heimamanna komust Blikar betur inn í leikinn og fóru að láta að sér kveða á ný. Atli lagði vel inn fyrir Arnþór Ara en hann var kominn í þrönga stöðu þegar hann náði skoti og það var varið. Blikar fengu nokkrar hornspyrnur en tókst ekki að nýta þær og ein þeirra sigldi í gegnum allan pakkann án þess að menn næðu að setja fót eða koll í knöttinn. Það má ekki gerast. Svo var þetta bara bardagi um allt og nú fóru nokkrir dómar að virka undarlegir. Stjörnumenn komust upp með nokkrar bakhrindingar án þess nokkuð væri dæmt og eftir tvær slíkar fengu þeir hættuleg upphlaup og aukaspyrnur en heimamenn náðu ekki að nýta sér forgjöfina. Og svo kom markið sem breytti leiknum. Damir tók aukaspyrnu (að sögn - sá það ekki sjálfur) og sendi háan bolta inn að vítateig og þar var Glenn að djöflast í heimamönnum og náði að trufla varnarmann sem missti af boltanum sem skoppaði svo yfir annan varnarmann og Bamberg gerði afar vel að snúa af sér annann varnarmann um leið og hann lagði boltann fyrir sig og renndi honum í markhornið fjær. Vel gert hjá Blikum og þeir komir með forystuna eftir rúmar 70 mínútur. Fallegt.
Heimamenn vönkuðust vel við þetta og Blikar áttu allskostar við á næstu mínúturnar. Bamberg fór svo útaf skömmu síðar ásamt Glenn og inn komu Ellert og Guðmundur Atli.  Skömmu síðar dró svo aftur til tíðinda þegar boltinn barst til Atla vel fyrir utan vítateig  Stjörnunnar. Atli var hinn rólegasti, lagði boltann fyrir sig og hikaði andartak, en tók svo á rás framhjá varnarmönnunum sem fóru á hælana og rennsi sér inn í teiginn og setti boltann af yfrvegun framhjá markmanninum. 2-0 fyrir Blika sem fögnuðu vel innan-  og utan vallar. Enda ástæða til, því nú leit þetta ansi vel út. En var hreint ekki búið, eins og kom á daginn þegar heimamenn minnkuðu muninn skömmu eftir mark Atla . Markið kom eftir snarpa sókn heimamanna upp vinstri væng  þar sem þeir komust inn í teig og í færi en en skotið hrökk af Blika og fyrir fætur okkar gamla félaga Arnars Más sem launaði okkur fóstrið forðum með sannkölluð óþokkabragði og hann náði að minnka muninn. Þarna hefðum við átt að gera betur í aðdragandanum.
Staðan skyndilega orðin 2-1, og tíu mínútur eftir. Nú tóku við æsilegar lokamínútur og lengst af pressuðu heimamenn stíft en okkar menn stóðu vaktina og enn og aftur var Gunnleifur með góða vörslu þegar hann varði þrumuskot gestanna frá vítateigslínu, í horn. Þar skall hurð nærri hælum og það var það næsta sem þeir komust marki. Blikar náðu nokkrum skyndisóknum á milli og úr einni slíkri kom 3ja markið. Guðmundur Atli fékk góða sendingu inn fyrir vörnina og hljóp af stað. Leikmaður Stjörnunnar gerði tilraun til að fella hann en tókst ekki og Guðmundur hélt áfram, með manninn í bakinu, inn að vítateishorninu og gaf síðan fastan sendingu fyrir markið og inn fyrir varnarmenn Stjörnunna,  á Arnþór Ara sem kom á ferðinni við fjærstöngina og lagði hann upp í þaknetið. 3-0 og leiknum í raun lokið utan það að reynslumesti leikmaður Stjörnunnar lét skapið hlaupa með sig í gönur og braut gróflega af sér við hornfánann í þann mund að dómarinn flautaði til leiksloka.  Það kom ekki að sök og það var partý í stúkunni og fagnað vel og lengi.

Blikar voru sannfærandi í kvöld og þetta var mjög góður sigur. Liðið var á tánum allan leikinn og þó ekki gengi allt upp voru menn sannarlega að leggja vel inn. Aftasta lína var aggressív. Vann öll skallaeinvígi og gaf engan frið. Annars var þetta liðsheildin sem skilaði þessum flotta sigri og gott til þess að vita að enn eigum við menn inni sem eru ekki farnir að ,,skína“.
En það er ekki eftir neinu fyrir þá að bíða því næsti leikur er við FH á Breiðabliksvelli á sunnudaginn og hefst kl. 20:00.

Við mætum þar en hætt við að sauðburður tefjist enn.

Áfram Breiðablik!

OWK

Til baka