BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tilkynning frá Knattspyrnudeild Breiðabliks og Guðmundi Atla Steinþórssyni

21.11.2016

Guðmundur Atli Steinþórsson, leikmaður meistaraflokks Breiðabliks í fótbolta, þarf að hætta knattspyrnuiðkun vegna hjartagalla. Þetta kom í ljós í framhaldi af læknisskoðun sem Guðmundur gekkst undir í tengslum við þátttöku Breiðabliks í Evrópukeppninni í sumar.

Knattspyrnudeild Breiðabliks og Guðmundur Atli hafa af þessum sökum komist að samkomulagi um að binda enda á leikmannasamning þeirra.

Þessi niðurstaða er augljóslega mikil vonbrigði enda höfðu báðir aðilar miklar væntingar á góðu samstarfi á knattspyrnuvellinum.

Guðmundur þakkar Breiðabliki fyrir að standa þétt við bakið á sér í því erfiða ferli sem staðið hefur frá læknisskoðuninni í sumar og jafnframt leikmannasamtökum Íslands fyrir veitta aðstoð.

Knattspyrnudeild Breiðabliks þakkar Guðmundi jafnframt fyrir gott samstarf og góð kynni.

Félagið hefði svo sannarlega vilja geta notið krafta hans inni á vellinum lengur og óskar honum hins besta í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur.

Guðmundur gekk til liðs við Breiðablik fyrir síðasta keppnistímabil. Hann hefur leikið 17 leiki með félaginu og skoraði í þeim þrjú mörk.

Til baka