BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þórður Steinar flytur til Danmerkur og spilar ekki með Blikum næsta sumar!

16.10.2013

Þau tíðindi voru að berast að Þórður Steinar Hreiðarsson hefur ákveðið að söðla um og flytja til Danmerkur. Hann mun því ekki spila fyrir Blikaliðið næsta sumar. Þetta er mikil blóðtaka fyrir okkur græna því Þórður Steinar spilaði eins og herforingi í sumar. Hann spilaði í heild 17 leiki í sumar og var mikilvægur hlekkur í sterkri vörn Blikaliðsins. Hér er yfirlýsingin frá knattspyrnudeildinni og Þórði Steinari.

Yfirlýsing frá Breiðablik og Þórði Steinari Hreiðarssyni.

Knattspyrnudeild Breiðabliks og Þórður Steinar Hreiðarsson hafa komist að samkomulagi um að rifta leikmannasamningi sem í gildi er á milli félags og leikmanns vegna búferlaflutninga Þórðar Steinars erlendis.

Knattspyrnudeild Breiðabliks þakkar Þórði Steinari fyrir framlag hans og þjónustu við félagið undanfarin 2 og ½ ár og óskar honum alls hins besta í framtíðinni. Félagið er stolt af þeim framförum sem Þórður Steinar hefur tekið á meðan hann hefur verið leikmaður í Breiðablik.

Þórður Steinar þakkar Knattspyrnudeild Breiðabliks fyrir þann tíma sem hann var í röðum félagsins og þau tækifæri sem félagið hefur gefið honum. Öll umgjörð, aðstaða og allt í kringum þjálfunina og félagið hefur verið til fyrirmyndar og yfirgefur Þórður Steinar félagið með góðar minningar.

Samkomulag þetta er gert í bróðerni og óska báðir aðilar hvor öðrum alls hins besta í framtíðinni.

Knattspyrnudeild Breiðabliks og Þórður Steinar

Til baka