BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þolinmæðissigur á Leiknismönnum

01.05.2018

Blikar unnu 1:3 sigur á Leiknismönnum í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar. Það var útlendingahersveitin okkar Tokic 2 og Jonathan sem sáu um mörkin að þessu sinni. Sigur Blika var í sjálfu sér ekki í mikilli hættu en samt sem áður hleyptum við Breiðholtsdrengjunum of nærri okkur i lokin.  Við hefðum átt að vera búnir að skora fleiri mörk en aðalatriðið er samt að við erum komnir áfram í 16-liða úrslit.

Sjá liðsskipan og skiptingar á: úrslit.net og ksi.is

Veðurguðirnir settu þó nokkurn svip á leikinn því hagl og sól skiptust á að slást um athyglina. Völlurinn var því vel sleipur og áttu leikmenn í smá erfiðleikum í byrjun að finna rétta snertingu á boltann.  Þó nokkur fjöldi Blika lagði leið sína í Breiðholtið enda menn nokkuð sigurreifir eftir góðan sigur á ÍBV í Pepsí-deildinni á laugardaginn. Ekki var sérstaklega mikið af heimamönnum enda hefur nokkuð fækkað af innfæddum leikmönnum í liðinu. Reyndar voru bara tveir Blikar í Leiknisliðinu, þeir Ernir og Sólon, leikfærir að þessu sinni. 

Þjálfararnir okkar stilltu upp nokkuð breyttu liði frá Vestmannaeyjaleiknum. Tokic, Viktor Örn, Willum og Alexander Helgi komu inn í byrjunarliðið. Blikaliðið spilaði þriggja manna vörn með hafsentana þrjá Damir, Elfar Frey og Viktor Örn aftast. Síðan léku bakverðirnir Davíð og Jonathan framarlega og sköpuðu mikla hættu með hraða sínum og fyrirgjöfum. En okkur var fyrirmunað að klára þessar fyrirgjafir nema einu sinni í hálfleiknum.

​Eins og við mátti búast þá lágu heimapiltarnir aftarlega á vellinum og reyndu að beita skyndisóknum. Okkar piltar voru því meirihluta hálfleiksins með knöttinn. Við fengum fjöldamörg færi en náðum því miður bara að nýta eitt þeirra. Það kom eftir mikinn hasar í vítateig Leiknismanna þar sem Tokic átti síðasta orðið og kom tuðrunni yfir marklínuna.

Svipað var uppi á teningnum í síðari hálfleik. Við spiluðum reitabolta um allan völl en það var ekki fyrr en á sextugustu mínútu sem Jonathan braust upp hægri kantinn og sendi þéttingsfasta sendingu á Tokic sem tróð tuðrunni aftur í netið. Það slaknaði á spennunni hjá Blikum bæði innan vallar og utan og örlítið kæruleysi greip um sig meðal leikmannanna. Menn fóru að reyna of mikið upp á eigin spýtur og nokkur góð tækifæri fóru forgörðum. Ekki lagaðist ástandið hjá heimamönnum þegar einn þeirra var rekinn af velli.

En einum færri minnkuðu þeir samt muninn. Kæruleysislegur varnarleikur og snjöll tilþrif ,,okkar" manns Sólons Breka bjuggu til vítaspyrnu sem Leiknismenn nýttu. Gulli gerði sér reyndar lítið fyrir og varði vítaspyrnuna. En náði ekki að slá boltann út af og knötturinn barst út í teiginn aftur. Þar gerði Leiknismaðurinn engin mistök og þrumaði í markið. En sem betur fer náði besti maður vallarins, Jonathat Hendrickx, að gulltryggja sigurinn með góðu marki skömmu fyrir leikslok.

Þrátt fyrir að sigurinn hafi ekki verið stærri en raun ber vitni þá getum við vel við unað. Tokic skoraði tvö og jók samkeppnina í framlínunni. Hendrickx stimplaði sig enn og aftur inn sem besti hægri bakvörður deildarinnar. Þriggja manna varnarlína gengur alveg upp og samkeppnin um miðjustöðuna heldur áfram að vera mjög mikil. Svo megum við ekki gleyma því þegar við urðum bikarmeistarar árið 2009 þá fórum við ekki létt í gegnum einn einasta andstæðing. Blikaliðið verður því í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit.

Myndaveisla í boði Ragga Óla og Fótbolti.net

Mörkin og klippur í boði BlikarTV

Umfjallanir netmiðla.

-AP

Til baka