BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Það jafnast fátt á við það..

24.05.2016

Blikar mættu í kvöld KR ingum í 5tu umferð PEPSI deildarinnar. Blikar með 6 stig eftir 4 leiki og enn að gnísta tönnum eftir tapið grátlega gegn Þrótti og margir spenntir að sjá hvernig liðið myndi vinna sig út úr því svekkelsi. KR ingar einnig með 6 stig og taplausir að loknum fjórum umferðum eftir dramatískt jafntefli gegn Stjörnunni í síðustu umferð þar sem þeir skoruðu vægast sagt umdeilt marki. En svoleiðis er nú boltinn.

Rjómablíða í dalnum græna í kvöld. Hæg norðvestan átt og glampandi sól.Hiti 8°C og raki 65%. Skyggni prýðilegt og fjölmenni á vellinum eða tæplega 1900 áhorfendur.

Byrjunarlið Blika:

Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)(F)
Alfons Sampsted - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Höskuldur Gunnlaugsson - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg - Jonathan Glenn

Varamenn:
Aron Snær Friðriksson (M) - Ellert Hreinsson - Atli Sigurjónsson - Guðmundur Atli Steinþórsson - Viktor Örn Margeirsson - Guðmundur Friðriksson - Alexander Helgi Sigurðarson

Sjúkralisti: Enginn
Leikbann: Arnór Aðalsteinsson

BlikarTV/útvarp, leikskýrsla, myndir, myndbönd og vefumfjallanir.

Blikar, sem í kvöld léku án fyrirliðans sem afplánaði leikbann, byrjuðu leikinn af nokkrum krafti og voru heldur meira með boltann fyrstu 10-15 mínúturnar. Gáfu gestunum lítinn tíma og voru fljótir í alla ,,lausa“ bolta. Smátt og smátt jafnaðist svo leikurinn og gestirnir náðu undirtökunum og sóknarleikur þeirra var í tvígang nærri því að skila árangri. Í fyrra skiptið bjargaði Elfar snaggaralega en í síðara skiptið vorum við stálheppnir þegar skalli sóknarmanns KR inga sigldi framhjá stönginn eftir aukaspyrnu.  Það var sannkallað dauðafæri.
Við þetta var eins og Blikar tækju við sér og undirtökin á miðjunni skiptu um handhafa nánast eins og hendi væri veifað og okkar menn náðu að halda boltanum betur og færðu sig smám saman framar á völlinn. Og svo, á 35. mínútu, kom markið sem reyndist  sigurmark þessa leiks. Og það var af dýrari gerðinni. Blikar voru með boltann á vallarhelmingi gestanna og Oliver sendi flotta sendingu þvert yfir völlinn  þar sem Davíð tók fagmannlega  á móti boltanum á lofti og skeiðaði með hann nokkra metra áður en hann sendi þéttingsfast  fyrir markið þar sem 3 Blikar komu á fleygiferð á móti sendingunni og það var Höskuldur sem reyndist réttur maður á réttum stað og hann kastaði sér á boltann og skallaði af krafti framhjá Stefáni Loga í marki gestanna. Blikar komnir í 1-0. Vel gert. Þetta virtist slá gestina algerlega út af laginu og okkar menn réðu lögum og lofum þær tíu mínútur sem enn lifðu af hálfleiknum og hefðu með smá heppni getað bætt við marki, en urðu að láta sér þetta eina duga. 

Hálfleikskaffið rann ljúflega niður með snúðum og vínarbrauði og fólk var enn að kjamsa á marki okkar manna. Fallegt mark og vel að því staðið.  Einróma álit. En viðbúið að gestirnir mættu grimmir í seinni hálfleikinn.  Okkar menn yrðu að vera tilbúnir í það.  Annars voru menn áægðir með varnarleikinn að mestu leyti en fannst enn vera rými fyrir bætingu fram á við. Reyndar gekk báðum liðum illa að spila með jörðinni og vildu menn meina að völlurinn væri heiftarlega ósléttur enn. Hver svo sem ástæðan var var oft erfitt að ráða í ferðir boltans á rúllinu og menn áttu ansi erfitt með stuttan samleik. Svo var náttlega aðeins talað um markið hjá Jesse Lingard í gær. Skyldi Van Gaal verða rekinn?

Siðari hálfleikur var varla hafinn þegar Blikar náðu snarpri sókn og svo kom boltinn fyrir mark gestanna og ekki varð betur séð en Höskuldur væri keyrður niður með bakhrindingu en ekkert var dæmt. Skömmu síðar var svo hætta hinu megin þegar gestirnir áttu skot í stöngina utanverða. Blikar urðu svo að gera breytingu á liði sínu á 57. mínútu, þegar Elfar Freyr yfirgaf völlinn vegna meiðsla og í hans stað kom Viktor Örn Margeirsson og var það áhugaverð skipting. Viktor Örn er eins og flestir vita bróðir Finns Orra, okkar gamla félaga sem nú var mættur í Kópavoginn í svarthvítu og langröndóttu. Viktor Örn hefur nú ekki kviðið þessu verkefni því síðast þegar hann lék gegn KR átti hann frábæran leik og var kosinn maður leiksins. Ekkert minna. Viktor virtist samt eilítið ryðgaður til að byrja með, smá sendingafeilar,  en svo var það búið. Leikurinn enn í járnum en Blikar síst verri aðilinn og áttu fleiri marktilraunir en gestirnir. Hvorugu liðinu tókst hinsvegar að skapa sé dauðafæri og fyrir utan rangstöðumark gestanna sem var réttilega dæmt af, þó nánast öllum fjölmiðlamönnum á vellinum , og þó víðar væri leitað, yfirsæist ástæðan, enda ekki vel sýnileg, var ekki mikið að frétta. Blikar áttu samt hörkufæri skömmu síðar þegar Arnþór átti skot sem Stefán varði en hélt ekki, Bamberg náði frákastinu en enn varði Stefán. Einhverjir vildu meina að dæmd  hefði verið rangstaða á Bamberg og mark hefði ekki staðið.
Blikar gerðu enn breytingu og nú kom Guðmundur Atli inn fyrir Glenn sem hafði engan veginn náð sér á strik og virkaði bæði þreyttur og þungur. Vonum að Eyjólfur hressist. Næstum því færi á báða bóga næstu mínútur en bara næstum því. Og þvi nær sem dró leikslokum þá þyngdist sókn gestanna og þeir pressuðu nokkuð á okkar menn en varnarleikur okkar til mikillar fyrirmyndar og ennfremur vorum við nokkuð klókir að hægja á leiknum þannig að maður hafði ekki á tilfinningunni að gestirnir myndu ná að jafna metin. Og svo hefðum við hæglega getað fengið víti þegar okkar gamli félagi Finnur setti hælkrók á Atla inni í vítateik KR en Atli stóð af sér krókinn og Finnur slapp með brotið. Blikar sigldu þessum 3 stigum svo örugglega í hús og það verður að segjast að þau voru hvorttveggja, vel þegin og vel fyrir þeim unnið.

Blikar mættu einbeittir til leiks í dag og það var góð barátta um allan völl. Það var slatti af feilsendingum á erfiðum velli en af því menn voru á tánum náðist að sópa upp eftir flesta feilana áður en hætta skapaðist. Aftasta lína var traust og líktist loks þeim múr sem við sáum oft í fyrra. Davíð Kristján svaraði gagnrýnisröddum á þann eina hátt sem hægt er og stóð sig mjög vel og gaf vonandi fyrirheit um það sem koma skal. En sigurinn var fyrst og fremst liðsheildarinnar sem var greinilega tilbúin að berjast fyrir stigunum í kvöld. Það gerði gæfumuninn.
Blikar eru nú í 5. sæti deildarinnar með 9 stig, jafnmörg og liðin í 3ja og 4ða sæti en lakari markatölu. Stutt í toppinn ef menn herða sig. Þetta var í rétta átt.
Og lokaorð síðasta pistils skulu endurtekin og ítrekuð;  ,,Það jafnast fátt á við að vinna KR“. Það væri kannski góð fyrirsögn ef maður væri að skrifa um þennan leik.

Næsti leikur okkar manna er gegn liði Kríu í Borgunarbikarnum og fer fram á Valhúsavelli (Gróttuvellinum) á fimmtudaginn og hefst kl. 19:15.

Við mætum þar.

Áfram Breiðablik!

OWK

                                                                                

Til baka