BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tap fyrir FH í Fótbolta.net mótinu.

27.01.2014

Blikar þurftu að lúta í (gervi) gras 0:3 gegn sterku liði FH í fotbolti.net mótinu í Fífunni í morgun. Gestirnir voru sterkari nánast allan leikinn en náðu ekki að skora mark fyrr en í síðari hálfleik.  Þeir hvít- og svartklæddu hófu leikinn með miklum látum og pressuðu vel á okkar pilta fyrstu 15-20 mínúturnar. Ekki tókst þeim þó að koma boltanum í netið hjá okkur og smám saman komust við betur inn í leikinn.  Við áttum nokkur hálf-færi undir lok hálfleiksins en inn vildi tuðran ekki.

Eftir hressilega hálfleiksræðu Ólafs þjálfara komu okkar piltar nokkuð vel stemmdir inn í síðari hálfleik. En samt sem áður voru það gestirnir sem skoruðu þrjú mörk í síðari hluta hálfleiksins og þar með var það ljóst að við myndum ekki verja fótbolti.net titilinn frá því í fyrra.

Leikur Blikaliðsins var betri í þessum leik en í leiknum gegn Grindavík um síðustu helgi. En betur má ef duga skal. Menn verða að tala betur saman og hvetja hvorn annan til dáða. Á margan hátt má segja að þetta hafi verið leikur drengja gegn fullorðnum karlmönnum. FH liðið lét finna vel fyrir sér og það getum við lært af þeim.

Við mætum ÍBV á föstudaginn í leik um 5. sætið í mótinu. Vonandi ná okkar piltar að láta finna fyrir sér í þeim leik.

-AP

Til baka