BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umfjöllun: Taktískt tap í Vesturbænum

02.07.2019

Blikar fóru ekki frægðarför á KR völlinn í gær í toppslag deildarinnar í PepsíMax deildinni. Niðurstaðan var 2:0 tap og voru það líklegast sanngjörn úrslit. Mörk heimapilta voru reyndar af ódýrari gerðinni en við áttum samt ekkert skilið úr þessum leik í gær. Taktísk uppstilling þjálfarana í gær gekk engan veginn upp og var Blikaliðið ekki svipur hjá sjón. Hraður og kraftmikill sóknarstíll piltanna sem hefur verið okkar styrkleiki undanfarin misseri okkar sást ekki í gær og margir lykilmenn okkar voru gersamlega týndir í þessari taktík.

KSÍ leikskýrsla       Urslit.net

Auðvitað er skiljanlegt að þjálfararnir reyni að koma í veg fyrir leka á fyrstu mínútum leiksins eins og hefur einkennt okkur undanfarna leiki. En það má ekki verða á kostnað styrkleika liðsins. Við erum með öfluga varnarlínu, leikna miðju- og kantmenn og gríðarlega vinnusama og öfluga sóknarmenn. Það er skoðun pistlahöfundar að það sé fullreynt með þessa þriggja manna varnarlínu. Hún hefur gengið upp að hluta en sjaldan eða aldrei heilu leikina.  Kató gamli þingmaður á Rómaþingi um 200 fyrir Krist endaði allar ræður sínar, sama hvert umræðuefnið var, á þessum orðum. ,,Auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði.“ Á margan hátt má snúa þessu upp á Blikaliðið og segja ,,Auk þess legg ég til að Blikaleikir hefjist ekki fyrr en á 10. mínútu“. Ástæðan er sú að við virðumst ekki mæta tilbúnir í byrjun leiks.  Andstæðingar pressa okkur hátt uppi og við stöndumst ekki þá pressu. Í gær fengum við mark á okkur strax á áttundu mínútu. Við gáfum ódýra hornspyrnu, varnarmenn okkar sofnuðu á verðinum og KR skoraði mark.  Við hresstust þó fljótlega og náðum að halda boltanum meira. En við náðum ekki að ógna að neinu ráði í fyrri hálfleiknum. Varnarmenn okkar reyndu trekk í trekk langar sendingar á Thomas en hittu sjaldnast á sóknarmanninn sterka. Miðjumennirnir voru á löngum köflum ekki með í leiknum og lítið gekk að spila upp kantinn.

Greinilegt var að lagt var upp með að vera þéttir aftur og koma í veg fyrir mark gegn vindinum. En þetta mark heimapilta snemma leiks slóg okkur út af laginu. Ekki batnaði staðan þegar Gunnleifur markvörður varð að fara af velli fljótlega eftir að KR komst yfir.  Ekki er vitað hve alvarleg meiðsli Gulla eru en hann lýsti því samt strax yfir að hann myndi spila gegn HK á sunnudaginn. Það var ekki létt hlutskipti fyrir Hlyn Örn varamarkvörð á koma inn á þessi stöðu. En í heildina stóð hann sig vel. Að vísu gerði hann ein mistök en Hlynur Örn má ekki láta það á sig fá. Allir leikmenn gera mistök og það sem ekki brýtur mann, herðir mann!

Okkur tókst ekki að brjóta ísinn í síðari hálfleik þrátt fyrir þokkaleg færi. Það besta fékk Thomas Mikkelsen en markvörður KR varði mjög vel frá Dananum snjalla. Svo kom þetta slysalega mark og eftir það var eins og allur vindur væri úr okkar drengjum. Frostaskjólsliðið sigldi öruggum sigri í höfn og vermir nú toppinn í deildinni. En munum að það er kalt á toppnum og skjótt skipast veður í lofti.

Thomas í harðri baráttu um boltann

Pistahöfundar blikar.is eru ekki vanir að væla út af dómgæslu í leikjum Breiðabliks. Þó verður að gera undantekningu hér á. Ekki þannig að það hefði breytt úrslitunum í leiknum en það óþolandi að dómari leyfi endalaust væl. Heimapiltar hentu sér í grasið við minnstu snertingu og fengu að tefja miskunnarlaust nánast allan leikinn. Svo fær fyrirliði KR-inga einungis tiltal fyrir fólskulega tæklingu á Guðjóni Pétri.  Það hýtur að vera krafa knattspyrnuáhugamanna að dómgæslan sé á sama gæðastigi og leikmennirnir.

Dómarinn í þessum leik var að minnsta kosti langt frá sínu besta.

Þessi úrslit eru hins vegar engin heimsendir. KR er ekki nema fjórum stigum á undan okkur og mun tapa stigum í síðari umferðinni. Við þurfum að leita aftur í styrkleikana okkar og spila á þeim. Það er krafa okkar stuðningsmanna að liðið mæti til leiks strax á fyrstu mínútu og að taktík þjálfarana hámarki gæði leikmanna en komi ekki í veg fyrir að leikmenn nái að blómsta.

Davíð Ingvarsson var mjög góður í leiknum

Næsti leikur er gegn félögum og nágrönnum okkar í HK á sunnudaginn á Kópavogsvelli. Búast má við fjölmenni á þann leik. Það er full trú pistlahöfundar að allt annað og ferskara Blikalið mæti í þann leik. Við sluppum með skrekkinn í síðasta deildaleik gegn þeim rauð/hvítu þannig að vonandi fáum við  að sjá blússandi sóknarbolta á rennisléttum Kópavogsvellinum á sunnudaginn.

-AP

Myndaveisla frá Helga VIðari í boði BlikarTV

Til baka