BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Svekkjandi hársbreidd

22.06.2015

Svekkjandi hársbreidd

9.umferð PEPSI deildarinnar hófst í dag og eftir bikarskitu Blika á fimmtudag beið verðugt verkefni. Heimsókn til yfirlýstra atvinnumanna í FH, hvorki meira né minna. Okkar menn ósigraðir í deildinni hingað til og nú var að sjá hvort KA leikurinn, framlengingin og svekkelsið sæti í mönnum, eða hvort þeir næðu vopnum sínum á ný. Aðeins eitt stig skildi liðin að í 1. og 2. sæti fyrir leikinn þannig að þetta var réttnefndur toppslagur. Aðstæður voru mjög góðar í kvöld. Hæg vestanátt, sólskin, og hiti í kringum 11°. Ekki algengt veðurlag í Hafnarfirði, en nánast staðalbúnaður þegar við erum þar í heimsókn. Fjöldi Blika mættir snemma á völlinn og Kópacabana á sínum stað í góðum gír. Völlurinn fallega grænn.
Byrjunarlið Blika breytt frá undanförnum leikjum í deildinn þar sem Höskuldur var utan hóps, að sögn vegna veikinda, og Atli Sigurjónsson kom inn í hans stað.

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)
Arnór Aðalsteinsson (F) - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Kristinn Jónsson - Atli Sigurjónsson - Guðjón Pétur Lýðsson - Andri R. Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Arnþór Ari Atlason - Ellert Hreinsson

Varamenn:
Aron Snær Friðriksson(M)
Sólon Breki Leifsson
Olgeir Sigurgeirsson
Kári Ársælsson
Guðmundur Friðriksson
Viktor Örn Margeirsson
Daví ð Kristján Ólafsson

Sjúkralisti: Höskuldur Gunnlaugsson – veikur.
Leikbann: Enginn

Leikskýrsla.

Leikurinn fór rólega af stað og greinilegt að menn ætluðu ekki að opna sig upp á gátt á fyrstu mínútunum. Eftir þessa rólegu byrjun náðu okkar menn ágætum tökum á leiknum. Lokaði vel á flestar sóknaraðgerðir heimamanna og voru yfirleitt ekki í neinum teljandi vandræðum. Hinsvegar var ekki mikið um marktækifæri hjá okkar mönnum en eftir um hálftíma leik vildu Blikar fá víti þegar Guðjón Pétur var rifinn niður á markteignum. Slakur dómari leiksins dæmdi hinsvegar ekkert. Skil ekki hvað fjölllmiðlar eru að hæla honum fyrir þennan leik. Hann sleppti a.m.k. einni vítaspyrnu, heimamenn stöðvuðu sóknir viljandi með hendi, héngu á mönnum og voru með groddalegar tæklingar í fyrri hálfleik sem hefðu hjá almennilegum dómara verðskuldað gul spjöld. Lélegt. En það sem eftir lifði hálfleiks var mikil barátta og okkar menn gáfu ekkert eftir inni á vellinum, pressuðu FHingana stíft og voru heldur sterkari og líklegri þegar leið á hálfleikinn. Staðan markalaus í leikhléi.
Það var almennt nokkuð létt yfir stuðningsmönnum Blika í hálfleik en þeir sem voru með OZ appið á símanum voru algjörlega brjálaðir yfir þessu víti sem var sleppt og vönduðu Jarlinum ekki kveðjurnar. Usss.... Annars voru menn á því að það lið sem skoraði á undan myndi sennilega vinna leikinn. Það væru ekki mörg mörk að fara að detta.
Hvað um það síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum og sá fyrri endaði. Barátta um allan völl en minna um færi og marktilraunir. Þó munaði litlu að heimamenn næðu að nýta sér færi upp úr hornspyrnu en það klikkaði sem betur fer. Svo áttu Blikar álitlega sókn og Kristinn og Guðjón voru að prjóna sig í gegn þegar FH ingur hljóp í veg fyrir Guðjón og hindraði ólöglega við vítateigslínuna, en sem fyrr klikkaði Jarlinn á reglunum. Ætli þær séu ekki örugglega kenndar? En Blikar létu þetta ekki pirra sig lengi og náðu frumkvæðinu í leiknum og voru meira og minna með leikinn í höndunum næstu mínúturnar. Áttu nokkrar góðar sóknir og litlu munaði þegar Arnþór náði skoti innan teigs en FHingar komust fyrir. Skömmu síðar átti hann svo hörkuskot utan teigs en boltinn fór naumlega framhjá. Svo hélt bardaginn áfram og var nokkuð harður inni á miðsvæðinu á köflum. Blikar áfram með ágæt tök og FH ekki að skapa sér nein færi að ráði. Og svo brast stíflan loksins á 70 mínútu þegar Blikar sóttu upp miðjuna og unnu skallaeinvígi, boltinn hrökk til Ellerts, og hann náði hælspyrnu inn fyrir vörn FH þar sem Arnþór Ari kom á ferðinni og vippaði boltanum yfir úthlaupandi markvörð FH og í netinu lá boltinn. Það var unaðsfagurt á að líta. Blikar komnir með forystu. Litlu munaði hinsvegar að heimamenn jöfnuðu jafnharðan þegar þeir náðu snarpri sókn sem endaði með skoti en Damir bjargaði nánast á marklínu. Snaggaralega gert. Næstu 20 mínútur voru svo barningur og barátta en litið um færi. Sólon Breki kom inn fyrir Ellert og litlu munaði að hann kæmi Atla í gott færi en Atli missti boltann aðeins of langt frá sér. Skömmu síðar kom Olgeir inn fyrir Atla. Mínúturnar mjökuðust áfram og þegar leikmanni FH var svo réttilega sýnt rauða spjaldið fyrir vægast sagt vafasama tæklingu leit þetta bara allvel út með að Blikar myndu standa af sér aukna pressu heimamanna. En því miður þá fórum við nokkuð illa að ráði okkar í blálokin. Fyrst þegar við brutum rétt utan teigs að ástæðulausu. Upp úr því kom hornspyrna og úr henni náðu FHingar að jafna leikinn með hörkuskalla. Vel gert hjá þeim en það verður að spyrja að því hvernig í ósköpunum stóð á því að þessi maður náði að komast í þessa stöðu. Þarna klikkaði dekkningin illilega. Það kostaði tvö stig og toppsætið í deildinni.  Ekkert minna.
Við erum því enn stigi á eftir FH og nú geta Fjölnismenn tyllt sér á toppinn með FH vinni þeir Víking á morgun. En við getum ekkert gert í því.
Blikar mættu í Krikann með flott upplegg. Pressuðu á heimamenn og gáfu þeim lítinn frið. Það er lykillinn gegn FH að stoppa spilið hjá þeim.  Og allir sem einn börðust eins og ljón, eða hundar. Voru grimmir og gáfu andstæðingunum ekkert eftir. Okkar strákar mættu því vel stemmdir og sýndu að þeir eru hörkulið á góðum degi. Áttu allskostar og rúmlega það við liðið sem nánast  var krýnt meistarar áður en mótið hófst. En því miður var það ekki alveg nóg í kvöld þegar upp var staðið. Gegn liði eins og FH má ekki gera nein mistök.
En við erum enn taplausir í deildinni og það telur örugglegga síðar, þó nú séu allir hundfúlir með að missa þetta niður í jafntefli.

Næsti leikur er útileikur gegn ÍBV n.k sunnudag. Þangað þurfa Blikar að fjölmenna og styðja við liðið. Nú eru allir leikir úrslitaleikir og upp á líf og dauða. Blikaklúbburinn verður áreiðanlega með langferðabifreið  og ferju á viðráðanlegu verði.

Áfram Breiðablik.

OWK

Til baka