BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sveinn Skúlason - Kveðja

04.01.2021

Í dag kveðjum við Blikar Svein Skúlason fyrrverandi leikmann okkar sem lést sunnudaginn 20.desember s.l. á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Sveinn, eða Svenni Skúla eins og hann var jafnan kallaður meðal Blika, var uppalinn í Kópavogi, nánar tiltekið í Snælandi þar sem móðurfjölskylda hans réði ríkjum á samnefndri jörð. Sveinn lék allan sinn knattspyrnuferil í marki og hóf að leika með meistaraflokki 19 ára gamall, árið 1973, og lék með hléum allt til ársins 1987 er hann lagði hanskana endanlega á hilluna. Alls lék hann 82 mótsleiki með meistaraflokki.
Markmenn Blika hafa í gegnum tíðina oft staðið í ströngu og Svenni var þar engin undantekning. Hann fór bæði um dali og fjöll þar. En sama hvort gekk betur eða verr, tók hann hlutunum með jafnaðargeði og af æðruleysi. Svenni var hinsvegar afar hreinskiptinn maður, eins og hann á kyn til, með sterka réttlætiskennd og lét jafna vita ef honum mislíkaði. En velti sér ekki upp úr tittlingaskít og dvaldi ekki lengi við það sem var búið og gert. Glaðlyndur og traustur félagi. Mörgum er enn í fersku minni stórleikur hans á Húsavík 1985, í gömlu 2, deildinni. (VHS upptöku af þessum leik er að finna hér) Svenni varði eins og berserkur allt sem á markið kom, sem var slatti, og var eins og köttur á milli stanganna og tryggði eftirminnilegan sigur. Eftir þennan leik kom stríðsfyrirsögn í Þjóðviljanum (að sjálfsögðu með rauðu letri); 
,,Súper Sveinn! - Lokaði markinu og Blikar komust í 1. deildina á ný”.

Svenni var ekki bara góður liðsmaður innan vallar. Hann lét líka til sín taka utan vallar og sat m.a. um tíma í stjórn deildarinnar sem varaformaður. En það sem án efa stendur upp úr af hans verkum utan vallar tengt knattspyrnunni, er þegar hann, í félagi við Sigurð Steinþórsson í versluninni Gull & silfur, efndi til knattspyrnumóts fyrir ungar stúlkur árið 1985. ,,Gull- & silfurmótið”, sem heitir nú Símamótið, er eins og allir vita eitt stærsta og glæsilegasta mót sem haldið er hér á landi ár hvert. Óhætt er að segja að þetta framtak hafi markað tímamót, og verið lyftistöng, fyrir kvennaknattspyrnu á Íslandi. Svenni var afar stoltur af þessu framtaki þó hann hefði ekki mörg orð um sinn hlut.

Eftir að fótboltaferlinum lauk lagði Svenni aukna stund á hestamennsku með fjölskyldu og vinum. Svenni var mikill hestamaður og naut sín vel í hverskyns hestastússi og útiveru. Sat ekki auðum höndum þar frekar en annarsstaðar. Hann var jafnframt mikill veiðimaður. Var jafnvígur á byssu og stöng og hafði mikla ánægju af veiðiskapnum.

Við Blikar minnumst góðs félaga, með þakklæti fyrir samfylgdina og vottum fjölskyldu hans og vinum samúð.

Blessuð sé minning Sveins Skúlasonar.

Ólafur Björnsson

Til baka