BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sveinn Gíslason býður sig fram í stjórn KSÍ

10.02.2024 image

Öflugur fótbolti og traustur rekstur

„Ég þekki íþróttahreyfinguna og innviði hennar mjög vel og þær áskoranir sem stjórnarmenn íþróttafélaga standa frammi fyrir í sínum daglegu störfum. Í starfi mínu sem formaður Breiðabliks tók ég virkan þátt í að bæta aðstöðu og umgjörð fyrir kattspyrnu innan félagsins og þekki vel þær áskoranir sem þar þarf að mæta.
Ég hef brennandi áhuga á fótbolta. Þeim áhuga deila strákarnir mínir fjórir með mér sem ég fylgdi í gegnum yngri flokka starf og núna erum við saman í stúkunni til að hvetja og styðja meðal annars elsta barnabarnið sem ver markið hjá meistaraflokki kvenna hjá Val. Í gegnum það skemmtilega áhorf og starfið í Kópavogi þekki ég vel verkefnin í kvennaboltanum og hef mikinn áhuga á vexti hans og viðgangi.

Ég er þó ekki að bjóða mig fram í stjórn KSÍ vegna þekkingar minnar á fótbolta heldur langar mig að láta gott af mér leiða á því sviði sem ég er sterkastur þ.e. sviði fjármála og stjórnunar. Um leið og við byggjum upp fótboltann í landinu þá þurfum við að tryggja góðan og nútímalegan rekstur. Hjá Breiðabliki beitti ég mér fyrir vönduðum stjórnarháttum og góðu utan um haldi um fjármál og áætlanagerð.

KSÍ er flaggskipið í Íslensku íþróttalífi ásamt því að gegna veigamiklu samfélagslegu hlutverki almennt, það er því afar mikilvægt að sambandið sé góð fyrirmynd í öllu er snýr að góðum stjórnarháttum og fjármálmálum. Mig langar að leggja mitt lóð á vogarskálar og vinna þannig að framgangi fótboltans í landinu.“


Sveinn sat í aðalstjórn Breiðabliks frá árinu 1999 til 2022 eða í 23 ár, fyrst sem gjaldkeri aðalstjórnar en síðustu ár sem formaður. Sveinn er rekstrarhagfræðingur að mennt frá Copenhagen Business School (CBS) og hefur starfað hjá Arion banka og forverum hans síðan 2001. Sveinn hefur gengt ýmsum stjórnunarstörfum hjá bankanum í gegnum tíðina en er í dag forstöðumaður á sviði bankans sem heitir Markaðir og annast m.a. eignastýringu og verðbréfamiðlun. Sveinn býr því yfir víðtækri stjórnunarreynslu sem og reynslu af fjármálamarkaði.

Sveinn Gíslason fyrrum formaður Breiðabliks.

Til baka