Sveinn Aron sá um ÍR
01.04.2018
Blikar unnu öruggan 0:4 sigur á 1. deildarliði ÍR í æfingaleik í hádeginu á föstudaginn langa. Sveinn Aron Guðjohnsen var í miklum ham í leiknum og setti öll fjögur mörk Blikaliðsins. Hann skoraði eitt mark í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik brustu allar flóðgáttir hjá þessum efnilega framherja og hann setti þrennu. Þessi frammistaða lofar góðu fyrir sumarið hjá þessum tæplega tvítuga framherja.
ÍR-ingar börðust vel í fyrri hálfleik og þrátt fyrir að við værum mun meira með boltann þá vorum ekki að skapa okkur mikið af færum. En Sveinn Aron kom þó knettinum einu sinni í mark í hálfleiknum og staðan því 0:1 þegar gengið var til búningsherbergja.
Í síðari hálfleik komu yfirburðir Blikaliðsins berlega í ljós. Breiðholtspiltarnir voru ofurliði bornir og Sveinn Aron nýtti færi sín vel. Lokastaðan þvi 0:4 fyrir Kópavogspiltana. Gísli Eyjólfsson var með 2 stoðsendingar á Svein Aron. Síðari stoðsendingin var sérlega glæsileg - hárnákvæm sending af hægri kannti inn á Svein Aron sem hamraði knöttinn viðstöðulaust í netið.
Margir leikmenn fengu tækifæri að spreyta enda fer hver að verða síðastur að heilla þjálfarana.
Andri Fannar Baldursson kom inn á í leiknum en Andri Fannar, sem er fæddur 2002, skrifaði í vikunni undir 3. ára samning við Breiðablik. Nánar hér.
Strákarnir okkar halda til Spán í æfingaferð á annan í páskum og svo styttist í fyrsta leik sem verður á Kópavogsvelli laugardaginn 28. april kl.14.00 gegn ÍBV.
Þá verður fjör!