BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sveinn Aron Guðjohnsen til Breiðabliks

29.07.2017

Sveinn Aron Guðjohnsen er genginn í raðir Breiðabliks frá Val. Hann skrifaði undir 3 ára samning í dag.

Sveinn Aron er 19 ára gamall og hlaut lengst af knattspyrnuuppeldi sitt hjá FC Barcelona þar sem faðir hans Eiður Smári Guðjohnsen var atvinnumaður hjá stórliðinu á Camp Nou.  Hann lék um tíma með HK en hefur verið á mála hjá Val í rúmt ár.  Sveinn Aron hefur leikið 17 landsleiki með yngri landsliðum Íslands og skorað þar 3 mörk.  

Það þarf tæplega að nefna hér að hann kemur úr einni alþekktustu knattspyrnufjölskyldu landsins. Bæði faðir hans Eiður Smári og Arnór afi hans eru með bestu knattspyrnumönnum sem þjóðin hefur átt og eiga glæsta ferla með stórliðum Evrópu og íslenska landsliðinu að baki. 

Þá má geta þess að fjölskylda Sveins Arons á líka sterkar rætur í Breiðabliki.  Móðir hans Ragnhildur Sveinsdóttir var öflugur markvörður á sínum tíma með Breiðablik sem og einnig afi hans í móðurætt Sveinn Skúlason.  Hann lék í marki meistaraflokks jafnframt því að gegna stjórnarmennsku í félaginu.  

Sveinn Aron er öflugur framherji sem örugglega mun styrkja meistarflokkshópinn mikið. Blikar.is bjóða hann hjartanlega velkominn í þá baráttu sem framundan er og það verður gaman að fylgjast með framgangi hans í grænu treyjunni.

Til baka