BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Suðurnesjamóri kveðinn í kútinn!

18.07.2022 image

Mynd; Víkurfréttir

Blikar unnu 2:3 karaktersigur á kraftmiklum Keflavíkingum í Bestu deild karla í gærkvöldi. Þeir grænklæddu tryggðu sér sigurinnn með tveimur mörkum frá fyrirliðanum Höskuldi Gunnlaugssyni á síðustu tíu mínútum leiksins. Þar með hefndum við fyrir tvö töp á þessum velli í fyrra og getum horft björtum augum til framtíðarleikja suður með sjó.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er nokkuð um frásagnir af mórum sem fylgdu ákveðnum fjölskyldum eða stöðum. En mórar eru karldraugar, oftast í mórauðri peysu, úlpu eða mussu. Þeir voru ýmist með kollágan barðastóran hatt eða lambúshettu og stungu þá öllum hausnum út um hettuopið en létu kollinn slúta aftur á bakið. Einn slíkur móri er ættaður frá Keflavík og hefur hann í seinni tíð fylgt Keflavíkurliðinu í knattspyrnu. Til að kveða slíkan móra í kútinn er nauðsynlegt að koma honum mjög á óvart eða svekkja hann. Það tókst með þessum sigri í gær og getum við nú horft jákvætt til framtíðar varðandi leiki suður með sjó. En nóg af þjóðlegum fróðleik og snúum okkur að leiknum í gær.

image

Þjálfararnir gerðu nokkrar breytingar á hefðbundnu byrjunarliði og fékk Omar Sowe meðal annars tækifæri í framlínunni. Það virtist gefa góða raun til að byrja með enda tóku Blikar öll völd á vellinum í upphafi leiks. Kristinn Steindórsson fékk fínt skotfæri í upphafi leiks en skaut hárfínt yfir. Og svo á tíundu mínútu skilaði pressan árangri. Okkar piltar sendu háan bolta inn á vallarhelming Keflavíkinga og þar flikkaði Ísak Snær knettinum, einu sinni sem oftar í sumar,inn fyrir vörnina. Omar kom á harðspretti úr djúpinu, lagði knöttinn hárnákvæmt fyrir sig með kollinum og setti svo boltann snyrtilega í hornið fram hjá markverði. Fögnuðu þá allir góðir menn og konur á vellinum.

En fljótlega fór þó að syrta í álinn. Heimapiltar tvíefldust við mótlætið og tóku smátt saman öll völd á vellinum. Uppspilið frá vörninni okkar var hægt og við náðum ekki að finna glufur á varnarvegg Keflvíkinga. Það var helst að sóknarleikurinn gengi upp vinstra megin þar sem Davíð Ingvars og Gísli  náðu aðeins á ógna með fyrirgjöfum. Hægri vængurinn var hins vegar frekar óvirkur. Það kom því ekki á óvart að heimadrengir náðu að jafna með frekar slysalegum marki eftir innkast. Þar hefðu varnarmenn Blika átt að gera betur. Og í raun vorum við stálheppnir að ganga til búningsherbergja í leikhléi í stöðunni 1:1 enda fengu Keflvíkingar dauðafæri skömmu fyrir leikhlé. En sem betur fer ákvað sóknarmaður þeirra að senda knöttinn fram hjá markinu í stað þess að skjóta á rammann.

Ekki tók betra við í byrjun seinni hálfleiks þegar flumbrugangur í vörninni okkar færði heimapiltum forystu í leiknum. Fljótlega sáu þjálfararnir að eitthvað þyrfti að gera og settu þá Jason Daða og Viktor Karl inn á til að fríska upp á sóknarleikinn. Þetta  skilaði strax árangri og smám saman tókum við aftur yfir leikinn. Sóknarbylgjur okkar skullu á marki Keflavíkinga líkt og vetrarbrim á Keflavíkurbjargið. En það fór aðeins um áhorfendur Blika því knötturinn fór hvað eftir rétt fram hjá marki Suðurnesjapilta og var mörgum Blikanum hugsað til leikjanna í fyrra þar sem við sóttum og sóttum en var fyrirmunað að skora. En þá steig Höskuldur Gunnlaugsson upp líkt og fyrirliða sæmir og skoraði jöfnunarmarkið 2:2 með bylmingsskoti rétt fyrir utan vítateig. Og á lokamínútum leiksins var Ísak Snær felldur í vítateignum og vítaspyrna réttilega dæmd. Fyrirliðinn steig fram á vítapunktinn, sendi markvörðinn í öfugt horn með léttri sambasveiflu og setti svo knöttinn auðveldlega í hitt hornið. Þar með var 2:3 sigur í höfn!

Sérstaklega verður að hrósa nokkrum ungum stuðningsmönnum Blikaliðsins sem mættu með trommur og fána á leikinn til Keflavíkur. Þeir sungu og trölluðu allan leikinn og fengu gamla liðið með sér í stemminguna.  Því miður mættu ekki margir af hefðbundnum Kópacabana meðlimum en ungliðadeildinn hélt uppi gunnfána stuðningsmanna að þessu sinni. Vel gert strákar!

Sigurinn í gær var gríðarlega mikilvægur fyrir framhaldið fyrir Blikaliðið í deild, bikar og Evrópukeppni. Liðið hefur vaxið gríðarlega að andlegum styrk á undanförnum misserum og er pistlahöfundur þess fullviss að við hefðum ekki unnið þennan leik fyrir ári síðan. Næsta verkefni er strax á fimmtudaginn þegar Buducnost frá Svartfjallalandi kemur í heimsókn á Kópavogsvöll kl.19.15. Á góðum degi eigum við að geta náð í góð úrslit á heimavelli og er það mikilvægt vegarnesti fyrir seinni leikinn í Svartfjallalandi viku síðar. Sjáumst því öll á Kópavogsvelli á fimmtudag!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Mörk & atvik í boði BlikarTV

Víkurfréttir: Umfjöllun & Myndaveisla:

image

Til baka