Súrt jafntefli á sunnudegi!
04.08.2025


Það voru súrir og svekktir Blikar sem héldu af Kópavogsvelli í gær eftir 1:1 jafntefli gegn baráttuglöðum KA mönnum í gær. Við áttum hins vegar ekki mikið meira skilið en eitt stig í þessum leik því Blikaliðið náði sér ekki á strik í gær. Einkum er það áhyggjuefni hve dregið hefur úr markaskorun í undanförnum leikjum. En nú liggur leiðin bara upp á við. Erfiður útileikur í undankeppni Evrópudeildarinnar gegn HŠK Zrinjski Mostar á fimmtudaginn í Bosníu bíður okkar en þar mun Blikaliðið rísa á nýjan leik. Þið lásuð það fyrst hér!
Mikil dramatík var í leiknum í viðbótartíma þegar dómari leiksins dæmdi mark af sem Viktor Örn hefði gert. Menn geta hrópað sig hása til enda alheimsins um óréttmæti þess dóms en það mun ekki breyta neinu um útkomu leiksins. ,,Skítur skeður“ segir gamalt máltæki og svona atvik jafnast út yfir tímabilið. Auðvitað er svekkjandi að hafa ekki fengið öll stigin þrjú en menn búa sér til sína eigin heppni. Við vorum bara ekki að gera það í þessum leik.
Einkum var svekkjandi að sjá hve máttlitlir okkar drengir komu út í seinni hálfleikinn. Hinir svokölluðu sérfræðingar höfðu spáð því að norðanliðið yrði þreytt eftir erfiðan Evrópuleik á fimmtudag. En raunin var frekar sú að okkar piltar virkuðu þreyttir. Þriggja hafsenta uppstillingin var alls ekki að tikka í hálfleiknum og sem betur fer áttuðu þjálfararnir sig á því, hentu Arnóri Gauta og Kidda Steindórs inn á, og breyttu í hefðubundna fjögurra manna varnarlínu. Það skilaði sér í meira jafnvægi og smám saman náðum við að þrýsta þeim gulklæddu í varnarstöðu. En tíminn dugði ekki til að skora sigurmarkið og því fór sem fór.
Það var hins vegar mjög jákvætt að sjá Davíð Ingvarsson spila síðustu mínútur leiksins. Hann hefur verið lengi frá vegna erfiðra meiðsla og um tíma leit út fyrir að hann myndi ekkert spila á þessu keppnistímabili. En Davíð er seigur og hefur lagt mikið á sig til að ná bata. Hann sýndi strax lipra takta og mun hann styrkja Blikaliðið mikið nú þegar seinni hluti keppnistímabilsins fer í hönd.
Það eru hörkuleikir framundan hjá Blikaliðið. Þegar hefur verið minnst á Evrópuleikinn í Bosníu á fimmtudaginn. Svo tekur við toppbaráttuslagur gegn Val á sunnudaginn á Hlíðarenda og fimmtudaginn kemur HSK Zlinski Mostar (getum við kallað þá Héraðssambandið Skarphéðinn ?) á Kópavogsvöll.
Þetta verður eitthvað og nú verða allir Blikar að þappa sig saman og styðja Blikaliðið til sigurs í öllum þessum leikjum!
Áfram Blikar- alla leið!
AP