BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Súrt eftirbragð í Frostaskjólinu

22.08.2016

Blikar lögðu land undir fót og fóru sem leið lá vestur fyrir Hringbraut í póstnúmer 107 til að berja á langröndóttum KR ingum í 16. umferð PEPSI í kvöld. Blikar fyrir leikinn dólandi í 4. sæti deildarinnar með 26 stig en KR í 6. sæti með 22 stig. Það var því ljóst að það var til mikils að vinna fyrir bæði liðin í kvöld.
Eftir suddarirgningu í allan dag stytti upp þegar leikurinn var að hefjast og aðstæður voru hinar bestu í vesturbænum í kvöld. Því sem næst logn, völlur vel blautur og gras vel gróið að sjá, hiti 13°C. Og veðrið bara batnaði eftir því sem á leikinn leið. Damir kominn úr leikbanni og í byrjunarliðið að nýju og því mátti Viktor Örn setjast á tréverkið í stað þess að fá að berja á ,,stóra“ bróður Finni Orra sem nú var í KR treyjunni. Atli Sigurjónsson ekki í hóp hjá Blikum í dag vegna höfuðmeiðsla sem hann hlaut gegn Þrótti á dögunum en Arnór Sveinn kominn á ról á ný og kom inn í hóp í stað Kára.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)(F)
Alfons Samsted - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg - Árni Vilhjálmsson
Varamenn:
Viktor Örn Margeirsson - Hlynur Örn Hlöðversson(M) - Jonathan R. Glenn - Willum Þór Willumsson - Arnór Sveinn Aðalsteinsson - Ellert Hreinsson - Höskuldur Gunnlaugsson.

Sjúkralisti: Guðmundur Atli Steinþórsson, Atlli Sigurjónsson
Leikbann: Ekki nokkur maður.

Blikar virtust vera með mikilvægi þessa leiks alveg á hreinu því þeir gáfu andstæðingunum engan tíma í byrjun og virkuðu mjög frískir og til í slaginn. Spilið gekk ágætlega og menn voru fljótari að koma boltanum í svæðin en oft áður í sumar og klöppuðu boltanum ekki um of. KR gekk ekkert að byggja upp spil og smátt og smátt tóku okkar menn öll völd á vellinum og hófu fjölbreyttar áætlunarferðir í átt að marki KR. Óðu upp miðjuna eða vængina á víxl og voru mjög líflegir. Þokkaleg sóknarfæri litu dagsins ljós, en það vantaði samt betri marktækifæri. Oliver minnti reyndar á sig þegar hann átti skot í þverslá úr aukaspyrnu af 30 metra færi og skömmu síðar komst Ární í ákjósanlegt færi en hann brenndi framhjá. Áfram var haldið og í tví- eða þrígang var mikill darraðardans í vítateig KR án þess að við næðum að troða tuðrunni í netið. Hinumegin var fátt tíðinda utan að Elfar var næstum búinn að setja boltann alveg óvart í eigið mark eftir óumbeðna stoðsendingu Damirs. Þar var Gulli vel á verði.
Og það má kannski segja að þetta hafi verið forsmekkur að því sem kom í lok síðari hálfleik þegar Damir ógnaði marki Blika í tvígang og Gulli mátti hafa sig allan við að forða sjálfsmörkum. En að öllu gríni slepptu þá héldu Blikar að þjarma að heimamönnum og þegar skammt lifði af hálfleiknum dró loks til tíðinda þegar Blikar fengu dæmda vítaspyrnu eftir að varnarmaður KR hafði handleikið knöttinn. Bamberg skoraði af öryggi úr vítinu. 0-1 og okkar menn komnir með verðskuldaða forystu.
Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var tíðindalaust og Blikar fóru með verðskuldaða en nauma forystu inn í hálfleikinn. Blikar léku vel í fyrri hálfleik og það var góður heildarsvipur á liðinu. Þetta var því i flokki betri hálfleikja í sumar en sem fyrr vantaði að enda sóknirnar betur. Of oft fórum við illa með sóknarfærin eftir að hafa farið vel með boltann upp völlinn.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað og engin teljandi færi lengi vel. Árni fékk gult spjald að sögn fyrir að sparka í KR ing eftir að Indriði hafði veitst að honum með ruddaskap og hrint okkar manni átölulaust. Þarna virtust dómarinn og hans hundtryggi aðstoðarmaður alveg úti á þekju. Næstu mínúturnar þjörmuðu okkar menn svo að KR ingunum en án þess að ná öðru marki, þó litlu munaði. Um miðjan hálfleikinn var svo brotið allharkalega á Gísla þegar hann var að brjótast upp völlinn og sá sem það gerði fékk að launum gult spjald, en hefði með réttu átt að vera búinn að fá spjöld skömmu áður þegar hann stoppaði boltann viljandi með hendi. Þeir sluppu vel með fjölda svona leiðindabrota í kvöld. En sennilega hefur Gísli meiðst við þetta því skömmu síðar var hann kallaður af velli og Ellert kom inná í hans stað. Gísli mjög frískur í kvöld og vex með hverjum leik.
Skömmu eftir þetta komust Blikar upp hægri vænginn og Ellert gaf fasta sendingu út í teiginn en Arnþór hitti boltann illa í góðu færi og boltinn himinhátt yfir. 5 mínútum síðar komst Arnþór svo aftur í gott færi einn gegn markmanni en mokaði boltanum framhjá markinu. Svona færi verður að nýta. Blikar gerðu nú breytingu á liðinu og Glenn kom inn fyrir Árna. En nú dró aftur til tíðinda og að þessi sinni fengum við harkalega áminningu um það að við verðum að nýta færin sem við fáum. Eins og það hafi ekki verið nógu blóðugt að brenna þessu færi sem fyrr var getið, þá fengu menn það nú alveg óþvegið beint i andlitið, með því að KR ingar, sem fram að þessu höfðu varla skapað sér eitt einasta færi, jöfnuðu leikinn nánast upp úr þurru. Blikar voru með boltann á vallarhelmingi KR en misstu hann klaufalega og uggðu ekki að sér þegar KR ingar komu boltanum hratt upp miðjuna og rakleiðis út á hægri kantinn þar sem einn Dani fékk boltann og sendi á annan Dana sem kom á ferðinni inn í vítateiginn og skallaði boltann í hornið án þess Gunnleifur kæmi vörnum við. 1-1. 
Blikar virkuðu slegnir yfir þessu og leikurinn var æði skrautlegur það sem eftir lifiði. Markvörður KR fór í mikla skógarferð sem litlu munaði að Glenn næði að gera sér mat úr en KR slapp með skrekkinn. Önnur færi voru ekki teljandi. En það voru heimamenn sem voru nær því að stela sigrinum þegar upp var staðið. Damir lagðist tvisvar í mikil ævintýr og reddingar hans voru háskalega tæpar og jöðruðu við að verða vesen. Kannski hefði verið meira vesen ef hann ekki snert boltann. Hver veit? En skrautlegt var það.

Að tapa þessum tveim stigum í kvöld er þyngra en tárum taki og það er gallsúrt eftirbragð. Þennan leik áttum við einfaldlega að vinna. Við vorum með mjög góða stjórn á þessum leik lengst af en náðum ekki að klára leikinn þegar við fengum færin. Enn og aftur fórum við illa með sóknarfærin og var refsað. En þetta vita leikmennirnir og þjálfararnir og verkefni morgundagsins er að skerpa á liðinu á síðasta þriðjungnum. Menn verða að sýna meiri yfirvegun og ákveðni þar. Það er eitt að að tapa stigum þegar andstæðingurinn spilar betur en þetta var ekkert svoleiðis. Þetta var hreinn og klár óþarfi.

Umdeilt atvik átti sér stað snemma í leiknum þegar Gísli var spjaldaður fyrir leikaraskap. Menn ekki á eitt sáttir og töldu margir að brotið hafi verið á honum og ekki var að sjá annað en KR ingar væru að fara að stilla upp varnarvegg þegar flautan gall. En Gísli fékk gula spjaldið og er þar með kominn í leikbann. Ef sjónvarpsupptökur styðja málstað Gísla er hér með skorað á Blika að áfrýja spjaldinu þegar. Það er alveg óþarfi að láta delluna ganga alla leið óáreitta ef það er tilfellið.

Næsti leikur okkar manna er gegn Stjörnunni næsta laugardag og hefst kl. 17:00. Það gæti orðið gott partý ef við bætum okkur frá í dag. Á því höfum við fulla trú.

Við þurfum öll stigin.

Áfram Breiðablik!
OWK.

Umfjallanir netmiðla

Myndaveisla 

Til baka