BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Súrt!

15.06.2017

Það var allt til alls í Kópavoginum í kvöld, 2 frábær knattspyrnulið að mætast við ákjósanlegar aðstæður og umgjörðin til fyrirmyndar hjá Blikum. Það ber að þakka þeim risa her af sjálfboðaliðum sem að lífguðu upp á Kópavogsdalinn með því að stjórna röðum í hoppukstala, grilla yfir 1000 pylsur í boði Varðar trygginga og sjá bara til þess að allt gengi jafn vel og það gerði fyrir leik. Vel gert!

Stemmningin var undirbúin með þessari flottu hátiíð, stúkan smekkfull. Gamla stúkan vel þétt og í brekkunni voru fjölskyldur og spekingar í bland tilbúin í flottan leik. Menn voru meira að segja það peppaðir að Guðni prestur úr Lindakirkju gekk í Kópacabana og tónaði vel í takt við trommurnar.

Þetta byrjaði með látum og Blikar virkuðu ákveðnir strax frá fyrstu mínútu, eftir litlar 5 mínútur lagði Gísli Eyjólfs boltann á Tokic sem afgreiddi boltann laglega í netið. Staðan 1-0 og Blikar kættust. Eftir um 7 mínútur skoraði Tokic aftur en var dæmdur rangur. Vissulega var útsýnið úr brekkunni takmarkað og menn ekki hlutlausir þar en það voru ekki allir vissir um að Tokic hefði verið rangur þarna.

Fljótlega fóru Valsmenn að taka yfir, héldu boltanum vel en sköpuðu lítið. Eftir rúmar 20 mín komst Kristinn Ingi í gegn en Gulli varði með tilþrifum. Rétt áður hafði Dion skotið boltanum hátt yfir úr flottu færi. Blikar voru lítið með boltann en virkuðu samt alltaf hættulegir framávið þegar að þeir loksins náðu boltanum á sitt vald.

Hálfleikur og staðan ennþá 1-0, í seinni hálfleik hélt Valur uppteknum hætti og boltinn var nær eingöngu hjá þeim. Þegar að Blikar komust inn í sendingar þá misstu þeir knöttinn fljótt frá sér.

Þegar að tæpur klukkutími var liðinn af leiknum gaf Bjarni Ólafur sendingu fyrir sem að Einar Karl tók listavel á móti. Afgreiðslan var heldur ekki slæm, klippti boltann upp í vinstra markhornið. Óverjandi fyrir Gulla og staðan orðin 1-1, því miður nokkuð sanngjarnt.

Fljótlega eftir þetta gerðu Blikar breytingu, Willum kom inn fyrir Guðmund Friðriks og stuttu síðar kom Brynjar Óli inn í sínum fyrsta leik fyrir Breiðablik í efstu deild.

Þegar að um 20 mín voru eftir fannst manni Blikar vera að komast betur inn í leikinn. Arnþór Ari átti glæsilegt skot sem hafnaði í utanverðri stönginnni en hefði alveg mátt fara stönginn inn. Byrnjar Óli fékk svo ágætis færi eftir hornspyrnu en náði ekki að nýta færið.

Þegar um 3 mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma þá kom blauta tuskan í andlit Blikana. Aukaspyrna var dæmd úti á velli eftir að Tokic hafði fengið boltann í höndina. Einar Karl og Bjarni Ólafur víxluðu nú hlutverkum og Bjarni náði að skalla knöttinn í stöngina og inn. Gríðarlega svekkjandi tap á móti Val staðreynd.

Það var undarleg tilfinning sem læddist að Blikum í lokin á þessum leik, Valsmenn voru meira með boltann og oft hættulegri í leiknum. En þegar að Blikar sóttu þá gat einhvernveginn allt gerst. Blikar voru farnir að sætta sig við jafnteflið í lokin en samt vildi maður sjá sigurmarkið hjá Blikum. Þegar að leikurinn er gerður upp þá voru Valsmenn meira með boltann og betri stórann hluta leiksins, þetta er samt virkilega súrt í broti enda gafst Blikum varla tími til að taka miðju áður dómari leiksins flautaði leikinn af.

Jákvætt var að sjá Milos senda inn þessa ungu stráka í svona stórleik, það er Blikaleiðin og vonandi þeir vaxi með hverjum leiknum. Það mun taka smá tíma að ná þessu tapi úr sér en það má ekki dvelja of lengi við þetta.  Næst er það KR á Alvogenvellinum, upp með sokkana!

KIG

Myndaveisla í boði BlikarTV.

Til baka