BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

STÖNGIN ÚT

14.07.2020 image

Það var blíðskaparveður í Vesturbæ Reykjavíkur þegar Blikar sóttu KR heim mánudagskvöldið 13. júlí. Aðstæður voru eins og best verður á kosið og á þriðja þúsund manns í stúkunni – þar á meðal fjöldi Kópavogsbúa. Gestirnir voru vel peppaðir, það var hugur í mönnum, HK-ingar höfðu komið á þennan sama völl fyrir skömmu og rúllað upp meisturum síðasta tímabils, jafnteflið á móti FH var slysalegt, líka á móti KA og því engin ástæða til annars en að mæta vonglöð til leiks. Að vísu var þrettándi dagur mánaðarins og langt ferðalag úr Smáranum að baki sem kunni að sitja í liðinu ...

Viktor Örn byrjaði í staðinn fyrir Kristin Steindórsson – annars sama lið og gerði jafntefli í markaleiknum mikla á móti FH á dögunum:

image

Sígild gabbhreyfing

Ég var að velta þessari breytingu á liðinu fyrir mér þegar flautað var til leiks og punkta í leiðinni eitthvað hjá mér um Atla Sigurjóns sem átti skot framhjá á fyrstu mínútu leiksins, hvað hann hefði nú oft glatt okkur á meðan hann var í grænu treyjunni og eitthvað fram eftir þeim götum, og velti reyndar líka fyrir mér hvernig léttleikandi Blikar myndu takast á við liðið sem kennt var við Grund í fyrra. Ég var semsagt að hugsa á þessum heimspekilegu nótum – og 60 sekúndur eða svo á klukkunni – þegar unglingspiltur sem ég kunni nú engin sérstök deili á sneri á Viktor Örn úti á miðjum velli, tók strikið í átt að teig okkar manna, skildi Damir eftir flatan í grasinu með sígildri gabbhreyfingu og skaut síðan í vinstra markhornið. 1-0 og menn varla sestir.

Glímuskjálfti

Mér fannst þetta ekki bera vott um neina sérstaka gestrisni hjá heimamönnum. Hér hafði fólk lagt á sig erfiða reisu úr fjarlægum póstnúmerum til að horfa á spennandi leik á móti eldri leikmönnum og tromma þá upp með einhvern „youngster“, svo vitnað sé í gamlan kunningja. Og eins og þetta væri ekki nóg þá pressuðu heimamenn gestina nánast uppi í fjöruborðinu svo spilið komst engan veginn í gang. En þó vonaði maður að þetta væri bara glímuskjálfti, smá hrollur, landið hlyti að fara rísa.

Það var áhyggjuefni hvað KR-ingar áttu greiða leið upp kantana, sérstaklega voru okkar gömlu félagar hættulegir og óþarflega líflegir, þeir Kristinn Jónsson, Atli Sigurjóns og Finnur Orri. Þetta eru kaldar kveðjur í Kópavoginn, punktaði ég hjá mér, og svo var Arnór Sveinn í ofanálag traustur í vörninni. Hér væri klárlega hægt að vísa í kálf og ofeldi og jafnvel enn frekar eftir að Finnur Orri sendi einn boltann til inn í teig frá hægri og Pablo Punyed skaut í jörðina og yfir Anton Ara. 2-0 og leikurinn varla hafinn.

Þremur mínútum síðar var Andri Rafn ljónheppinn að fá ekki á sig víti þegar enn ein fyrirgjöfin barst frá hægri og unglingspilturinn fyrrnefndi, Stefán Árni Geirsson (ég fletti nafninu upp), féll við í dauðafæri á markteig eftir viðskipti þeirra.

Lífsmark

Og áfram héldu KR-ingar að fara illa með okkar menn. Af hverju setur hann ekki Kwame Quee inn á? spurði sessunautur minn ítrekað, hann væri fljótur og ógnandi.

Það var ekki fyrr en eftir um hálftíma leik að Blikar áttu sitt fyrsta skot á mark sem Beitir varði auðveldlega. En skot á mark engu að síður. Mætti hér jafnvel tala um lífsmark. Þremur mínútum síðar átti Brynjólfur þrumuskot með vinstri utan af velli sem Beitir varði í horn. Það var eitthvað að gerast hjá okkar mönnum. Og viti menn – skömmu síðar minnkaði Höskuldur muninn með einum af sínum fallegu sköllum eftir aukaspyrnu Olivers.

image

Mynd: HVH

Þarna hef ég punktað hjá mér að KR-ingar hafi engu að síður geislað af sjálfstrausti á þessum mínútum á meðan okkar menn virkuðu óstyrkir, sendingar lentu í röngum fótum en þó hélt maður í vonina og á lokasekúndu fyrri hálfleiks náði Höskuldur að reka tána í boltann eftir aukaspyrnu Davíðs en Beitir varði.

Vonin glæðist

Menn fóru því þokkalega brattir inn í hálfleikinn – og þó. Það var þrettándi dagur mánaðarins, óvíst um áhrif tungls og stjarna á Kópavogspilta, og án þess að maður sé að gera sig sekan um hjátrú og hindurvitni var beygur í skrifaranum.

Óskar Hrafn skipti Kwame Quee inn á fyrir Viktor Örn í hálfleik, eins og hann hefði náð skilaboðunum frá sessunauti mínum og hleypti kantmaðurinn knái nýju lífi í leik okkar manna.

image

Mynd: HVH

Það var jafnvel eins og jöfnunarmarkið lægi í loftinu. Thomas átti skot í stöng eftir frábæra sókn, Kwame missti naumlega af fyrirgjöf á fjærstöng og sá danski skallaði í slánna eftir hornspyrnu og aftur var hann nærri því að koma fæti í boltann við markið eftir fína fyrirgjöf Höskuldar. Okkar menn hefðu hugsanlega átt að fá víti þegar Pálmi Rafn sparkaði fólskulega í Thomas innan teigs en ekkert var dæmt. Þar sem þessi miðill hefur hlutleysi að leiðarljósi er rétt að nefna að kannski galt hann þarna fyrir að hafa fallið heldur auðveldlega við litla snertingu sekúndu áður. Oliver átti þrumuskot úr aukaspyrnu af löngu færi, Beitir varði og Kristinn Steindórsson var nærri því að ná frákastinu en hann var nýkominn inn á fyrir Andra Rafn.

Náðarhögg

En það var ekki bara Thomas sem lá í grasinu á þessum mínútum. Okkar mönnum gekk almennt illa að standa í lappirnar á vellinum – bókstaflega. Menn runnu til og misstu af boltanum á hættulegum stöðum og sendingar fóru forgörðum sem stundum kallaði á hækkað viðbúnaðarstig í öftustu línu. Þó höfðu Blikar nýlega spilað á Greifavellinum á Akureyri og hefðu átt að vera undir þetta búnir. (Þarf ekki eitthvað að skoða fótabúnaðinn hjá okkar mönnum?)

Það var semsagt ýmislegt að gerast þegar leið á seinni hálfleikinn sem gaf okkur von um stig en þá kom náðarhöggið. Pablo Punyed fékk frítt skot af alllöngu færi, boltinn söng í netinu og niðurstaðan 3-1 sigur heimamanna.

Myndaveisla í boði BlikarTV

image

Myndir: HVH

Annað þungt próf fram undan

Eftir sex umferðir er Breiðablik með 11 stig, tveimur minna en eftir jafn margar umferðir í fyrra. Liðið hefur fram að þessu virst fullt af sjálfstrausti, spilið hefur gengið frábærlega á löngum köflum svo unun hefur verið á að horfa en nú hafa okkar menn aðeins fengið tvö stig af níu í síðustu þremur leikjum og það var eins og mesti vindurinn væri úr liðinu á móti KR. Áhyggjuefni? Það kemur í ljós. Framundan er annað þungt próf – Hlíðarendapiltar koma á Kópavogsvöll á sunnudagskvöldið og er full ástæða til að fjölmenna. En þá mæta okkar menn vonandi ekki til leiks eftir hálftíma heldur taka stjörnum prýtt lið Valsmanna föstum tökum frá fyrstu sekúndu.

PMÓ

Til baka