BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stjarnan – Breiðablik í PEPSI karla á laugardag kl.18:00!

23.08.2018

Stjarnan og Breiðablik mætast á Samsung vellinum í Garðabæ á laugardag kl.18:00 í stórleik 18. umferðar PEPSI deildar karla.

Aðrir leikir í umferðinni á laugardag eru Víkingur R og KA, Valur og Fjölnir. Á sunnudag mætast KR og ÍBV, Keflavík og FH. Umferðinni lýkur svo á mánudaginn með leik Fylkis og Grindavíkur.

Nágrannaslagur Stjörnunnar og Breiðabliks klukkan 18:00 á laugardegi er klárlega uppskrift að frábærri skemmtun, enda stórleikur tveggja góðra liða þar sem toppsætið í PEPSI karla er í boði.

Bæði liðin hikstuðu í síðustu umferð. Blikar hleyptu Valsmönnum á toppinn sem nemur 1 stigi. Stjörnumenn gerðu jafntefli gegn Grindvíkingum suður með sjó og eru nú í þriðja sæti; 2 stigum á eftir Blikum og 3 stigum á eftir Valsmönnum.

Blikar vilja öruggleg sækja til sigurs í leiknum á laugardag og þannig endurheimta toppsætið - a.m.k. þar til úrslit í frestuðum leik Stjörnunar og Vals liggja fyrir á miðvikudagskvöld, en úrslit í þeim leik augljóslega þýðingarmikil í toppbaráttu liðanna þriggja.

Sagan

Liðin hafa mæst í 54 sinnum í öllum keppnum frá fyrsta leik árið 1970. Leikirnir 54 dreifast á 6 mót: A-deild(27), B-deild(12), Bikarkeppni KSÍ(2), Litla Bikarkeppnin(6), Lengjubikarinn(3) og Fótbolta net mótið(4). Blikar hafa unnið 23 leiki, Stjarnan 21 leik. Jafnteflin eru 10.

Fyrsti opinberi leikur Breiðabliks og Stjörnunnar fór fram á Melavellinum í Reykjavík 22. ágúst 1970. Leikið var í 1. umferð Bikarkeppni KSÍ. Blikar unnu þessa fyrstu rimmu liðanna nokkuð stórt eða með 11 mörkum gegn engu!

Efsta deild frá 2009

Í 19 efstu deildar leikjum liðanna frá endurkomu Stjörnunnar upp í efstu deild árið 2009 hafa Blikar sigrað 10 sinnum, Stjarnan 5 sinnum og 4 sinnum hefur orðið jafntefli. Blikar hafa skorað 35 mörk gegn 24 mörkum  Stjörnumanna í þessum 19 leikjum. Samtals 59 mörk eða liðlega 3 mörk per leik. Leikir liðanna eru miklir markaleikur – þannig er það bara.

Efsta deild frá upphafi

Nokkuð jafnræði hefur verið með liðunum í efstu deild í gegnum tíðina á heimavelli Stjörnunnar í Garðabæ. Heilt yfir eru þetta 13 leikir:

Blikasigrar eru 5, jafnteflin 4 og Stjarnan vinnur 4 sinnum. Deildarleikir liðanna í Garðabæ 1991-2017.

Leikurinn í Garðabæ á laugardaginn verður 14. efstu deildarleikur liðanna í Garðabæ frá því að liðin léku þar fyrsta A-deildar leikinn 14. september 1991. Blikar unnu leikinn 0:1 með marki Arnars Grétarssonar á 64. mín.

Síðustu 5 í Garðabæ

2017 - 2:0 tap í leik þar sem Blikar voru aldrei líklegir eftir að hafa misnotað vítaspyrnu í upphafi leiksins

2016 - 1:3 sigur Blika í mögnuðum og bráðfjörugum leik

2015 - 0:1 sigur Blika í leik þar sem við vorum þéttir til baka.

2014 - 2:2 nokkuð sanngjörn úrslit í fjörugum leik

2013 - 3:2 tap þegar Stjörnumenn gull tryggðu sér sæti í Evrópudeildinni

Við hvetjum alla stuðningsmenn til að mæta á Stjörnuvöllinn á laugardaginn og hvetja okkar menn til sigurs.

Leikurinn hefst kl.18:00!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka