BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stig er stig.

20.09.2016

Blikar mættu ÍBV í 20. umferð PEPSI deildarinnar. Leikmenn ÍBV létu stopular áætlunarferðir upp á fastalandið ekki hindra sig, heldur tóku Lóðsbátinn í sína þjónustu og mættu hressir í Kópavoginn til að klára þennan leik sem fresta varð vegna meintrar sjóriðu Stjörnumanna í síðustu umferð og er löng saga að segja frá því veseni öllu og hvernig ólíklegustu menn hafa hent gaman að grönnum okkar og kallað tepruskap. Það verður ekki gert hér en Eyjamenn gerðu hinsvegar alls ekki minna úr sínu ferðalaginu en efni stóðu til. Stjörnumenn hugsa sig kannski tvisvar um áður en þeir guggna á sjóferð til Eyja næst.
Meint sjóriða silfurskeiðunganna sem áður er nefnd kostaði okkur sennilega einhverjar krónur í kassann því leiktíminn vægast sagt afleitur og borgandi áhorfendur með allra fæsta móti. Aðstæður hinsvegar alveg ágætar, völlurinn góður og veðrið alveg skaplegt miðað við árstíma. Hægviðri úr ýmsum áttum. Lofthiti c.a. 9°C.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)
Arnór Sveinn Aðalsteinsson (F) - Viktor Örn Margeirsson - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Ellert Hreinsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg - Árni Vilhjálmsson
Varamenn:
Hlynur Örn Hlöðversson(M) - Damir Muminovic - Jonathan R. Glenn - Gísli Eyjólfsson - Alfons Sampsted - Atli Sigurjónsson - Höskuldur Gunnlaugsson.

Sjúkralisti: Guðmundur Atli Steinþórsson
Leikbann: Enginn

Það er ekki frá mörgu að segja í fyrri hálfleik af hálfu Blika. Þeir voru með allra daufasta móti og létu gestina hirða af sér boltann aftur og aftur. Oft teknar 2-3 snertingar áður en menn fóru að huga að því að gefa á samherja og gestirnir gengu á lagið ítrekað og hirtu bara boltann af okkar mönnum. Gestirnir ógnuðu meira eftir því sem leið á leikinn og áttu nokkrar álitlegar skyndisóknir. Eftir eina slíka fengu Eyjamenn dauðafæri en brenndu af. Skömmu áður, eða á u.þ.b. 28. mínutu skutu Blikar framhjá og það var reyndar fyrsta markskotið í leiknum. Þetta var semsagt í rólegri kantinum og lítið að frétta þar til gestirnir fengu horn nokkrum mínútum fyrir leikhlé. Hornspyrnan var föst og í þann mund að Gunnleifur ætlaði að grípa boltann kom leikmaður ÍBV á ferðinni og skallaði boltann nánast úr höndum hans. Margir vildu meina að brotið hefði verið á Gunnleifi en það var ekki gott að sjá í rauntíma. Kannski sést þetta betur í PEPSI mörkunum. En dómarinn dæmdi semsagt markið gilt og þar með voru gestirnir komnir með forystuna. Ekki óverðskuldað og margir áhorfendur voru reyndar farnir að bóka markið þegar leið á hálfleikinn og vandræðagangur okkar manna óx. Ekki vöknuðu okkar menn við þetta. Fengu þó bæði horn og aukaspyrnu en hvorugt náði flugi og dreif varla í átt að markinu. Arfaslakar spyrnur.
Staðan í hálfleik 0-1 fyrir gestina.

Í Blikakaffinu voru menn mjög óhressir eða kannski meira hissa yfir frammistöðu okkar manna. Og skildu bara ekki hvaða slen var yfir liðinu. Allsekki. En sætabrauðið og kaffið var hvorttveggja stórfínt og vel þegið.

Arnar og Kristófer voru greinilega ekki par ánægðir með leik sinna manna og gerðu tvær breytingar í hálfleik. Höskuldur og Gísli komu inn fyrir Ellert og Arnþór Ara.
Blikar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og herjuðu af meiri krafti en áður á gestina og fyrr en varði voru þeir búnir að jafna metin. Þar var Höskuldur að verki eftir mikinn darraðardans í kjölfar aukaspyrnu Olivers inn á miðjan vítateig. Höskuldur sallarólegur þegar hann fékk boltann og skoraði af öryggi. 1-1 og nú vonaði maður að Blikar létu kné fylgja kviði en í stað þess brunuðu Eyjamenn í sókn og voru að komast í álitlegt færi þegar Elfar náði að bjarga á síðustu stundu með rennitæklingu af dýrustu gerð. Það var vel gert hjá Elfari. Eyjamenn heimtuðu víti en á það var ekki hlustað.  Næstu mínútur var mikill hamagangur og Blikar gerðu harða atlögu og sýndu flottan samleik á köflum og eftir flottan einnar snertingar samleik nokkurra Blika komst Bamberg í færi en skaut í markstöngina. Það var semsagt talsvert betri bragur á Blikum um tíma en það entist ekki mjög lengi og smám saman dró af þeim eins og loftið væri að leka. Atli kom inn fyrir Bamberg og komst fljótt í álitlegt færi eftir skyndisókn en fór illa með færið og skaut framhjá. Eyjamenn áttu líka sín færi og m.a. stangarskot úr upplögðu færi. Þar munaði eiginlega engu þegar boltinn rúllaði þvert eftir marklínunni áður en hann skautaði framhjá hinni stönginni. Skömmu síðar skoraði Árni mark með skalla eftir aukaspyrnu Olivers en markið var dæmt af vegna ragnstöðu. Það virtist mjög tæpt og verður fróðlegt að sjá sjónvarpsupptökuna.
Lokamínútur leiksins liðu tíðindalitlar utan hvað gestirnir áttu nokkur álitleg upphlaup, en náðu ekki að gera sér mat úr þeim. Kvörtuðu hinsvegar mikið undan dómaranum, sem þeir höfðu þó enga ástæðu til og reyndar með nokkrum ólíkindum að þeir skyldu bara fá 3 gul spjöld í leiknum . Sífellt sparkandi aftan í okkar leikmenn og sluppu oftast með það óátalið. En ekki alltaf. Fólskulegt brotið á Gísla hefði reyndar verðskuldað rautt spjald en ekki gult. Og það er með ólíkindum hvað má sparka oft í Andra Yeoman án þess að það sé dæmt. Og svo var allur varamannabekkur gestanna æpandi, hrínandi  og bókstaflega hoppandi í tíma og ótíma, heimtandi víti og aukaspyrnur á allt og ekkert. Fengu að lokum tiltal, en það var nú allt og sumt. Það er ekki sama Jón og séra Jón þegar kemur að hegðun á varamannabekkjum. ,,Hvað einum líðst, annar ekki má“, segir í einum stað og það voru orð að sönnu í gær.

Eyjamenn róa nú lífróður í harðri fallbaráttu og þurftu því nauðsynlega á stigum að halda í dag. Og það verður að viðurkennast að þeir hefðu hæglega getað hirt öll stigin. Við megum þakka fyrir þetta eina sem við fengum.
Byrjunarlið okkar vakti nokkra athygli enda voru 3 breytingar frá síðasta leik og ýmsir klóruðu sér í skallanum af undrun og spurðu hverju þetta sætti. Það vissi enginn fyrir víst en skýringar eru nú komnar á því öllu frá fyrstu hendi. Vonandi hafa þeir sem þarna varð á í messunni lært sína lexíu, en þetta getur orðið liðinu dýrkeypt þegar upp verður staðið.
Burtséð frá því leiðindamáli hefði maður hinsvegar haldið að aðrir leikmenn væru með fókusinn í lagi fyrir þennan leik. Því fór hinsvegar fjarri og því fór sem fór. Og það þýðir ekkert að væla undan grófum andstæðingum. Þeir voru bar að berjast fyrir lífi sínu og ekki við öðru að búast frá þeim.

Næsti leikur okkar manna er gegn Skagamönnum n.k. sunnudag. kl.14:00. Þar þurfum við að sækja sigur og ekkert minna. Það er nægur tími fyrir leikmenn að girða upp um sig fyrir þann leik, og það þarf að gera það. Þeir geta miklu betur en í dag.
 
Fjölmennum á Skagann og löndum Evrópusæti.

Áfram Breiðablik!
OWK.

Umfjallanir annarra netmiðla

Til baka