BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sterk liðsheild lagði Þórsara

21.07.2013

Blikar fengu ekki langa hvíld eftir leikinn gegn Sturm Graz og í dag var haldið norður yfir heiðar á stefnumót við íslenska sumarið, og Þórsara. Þar með hófst seinni umferð PEPSI hjá okkar mönnum áður en þeirri fyrri lauk, því leikur okkar gegn Stjörnunni úr 10. umferð hefur eins og kunnugt er ekki farið fram og er ekki enn kominn á áætlun sökum þéttrar dagskrár hjá okkar mönnum.
Enn á ný eru þjálfararnir að fikta í liðsuppstillingunni og nú var talsvert stokkað upp frá síðasta leik. Nú þarf að „rótera“ liðinu og nota breiddina, sem er í hópnum, til hins ítrasta og ljóst að Ólafur Helgi treystir leikmannahópnum öllum í verkefnin sem eru í gangi. Það hefur hann staðfest í orði og á borði.
Viggó, Árni Vill og Olli komu ferskir inn í byrjunarliðið í stað Kristins Jóns, Elfars Árna og Nichlas(ar) sem  fengu sér sæti á hliðarlínunni en voru allir í hóp.

Byrjunarliðið okkar var þannig skipað;

Gunnleifur
Tómas Óli -Sverrir Ingi – Renée-  Þórður Steinar
Viggó- Andri Yeoman  – Finnur Orri (F) – Olgeir - Ellert
Árni Vill

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Atli Fannar Jónsson
Elfar Árni Aðalsteinsson
Kristinn Jónsson
Nichlas Rohde
Páll Olgeir Þorsteinsson
Guðjón Pétur Lýðsson

Sjúkralisti; Gísli Páll Helgason – Rafn Andri Haraldsson

Leikbann; Rien (franska í tilefni dagsins)

Leikskýrsla í boði KSÍ        Myndaveisla í boði Fótbolta.net

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar í dag voru alveg gerólíkar því sem við höfum átt að venjast í ,,sumar” á suðvesturhorninu. Það var nefnilega glampandi sól, hiti 21,4°C, raki 48%, og vindur hægur af suðaustri. Og til að toppa þetta var völlurinn alveg grjótharður. Sennilega vegna langvinnra þurrka, því frost mun alveg farið úr jörðu norðanlands, víðast hvar. Blikar léku nú að nýju í sínum fagurgræna aðalbúningi í fyrsta sinn í heilan mánuð, eða síðan í leiknum gegn Val í PEPSI.


Leikurinn byrjaði mjög fjörlega og Blikar léku við hvurn sinn fingur í byrjun og litlu munaði að Árni kæmi Ellert í flott færi en hann náði ekki til boltans.  En svo fóru hlutirnir að gerast og þegar klukkan sló 18:15 fengu Blikar vítaspyrnu. Viggó slapp einn í gegn og var kominn inn í teig heimamanna þegar einn þeirra keyrði aftan í hann og felldi. Sverrir leyfði Renée að taka vítið í fjarveru Guðjóns og Hollendingurinn skoraði af öryggi neðarlega í bláhornið. 0-1 fyrir Blika. Heimamenn tóku miðju og boltinn var á þvælingi manna og liða á milli næstu 2 mínúturnar eða svo, eða þar til Tómas Óli náði honum og sendi laglega á Árna sem skoraði af yfirvegun eftir að hafa hrist af sér varnarmann. 0-2 fyrir Blika.
Aðeins 3 mínútum seinna fengu svo heimamenn víti þegar einn þeirra virtist henda sér niður á leið út úr vítateignum. Sennilega leikaraskapur en úr efri skúffunni eins og þeir segja. Enda varð þeim ekki kápan úr klæðinu því Gunnleifur gerði sér lítið fyrir og varði vítið. Þéttingsfast og út við stöng, en það dugði bara ekki.  Sannaðist þar enn á ný hið fornkveðna að;  ,,illur fengur illa forgengur. En fjörinu var ekki lokið og það sem eftir lifiði hálfleiksins skiptust liðin á að sækja. Blikar gáfu fá færi á sér og vörðust vel flestum tilraunum heimamanna en fengu sjálfir ágæt færi. Og það munaði aðeins hársbreidd þegar Ellert komst einn á móti markmanni en sneiddi boltann utanfótar, framhjá markverinum og markinu. Þarna hefði verið tilvalið að setja 3ja markið og ,,drepa” leikinn alveg. En það fór ekki svo og Blikar fóru til búningserbergja með 0-2 forystu.

Það var sitthvað rætt í hálfleiknum. Fólk að baka sig í blíðunni og fá sér kalt að drekka og svoleiðis en Blikar þokkalega sáttir með gang mála. Hefðu reyndar viljað fá 2 mörk í viðbót en á móti kom að hinir klúðruð víti, þannig að kannski var 0-2 ekki ósanngjarnt, þó í minna lagi væri. Svakalega gott veður!

Blikar gerðu 2 breytingar í hálfleik. Tómas Óli og Andri fóru af velli og í þeirra stað komu Atli Fannar og Guðjón Pétur. Seinni hálfleikur hófst svo eiginlega á því að tveir heimamenn fengu gult fyrir mótmæli og háskalegan leik. Töldu dómarann vera hlutdrægan og fóru í fórnarlambsgírinn.Við þetta kviknaði í nánast stúkunni og gerðust Mjölnismenn og aðrir dyggir Þórsarar nú svo orðljótir að maður varð eiginlega kjaftstopp og er þó ýmsu vanur. Óneitanlega kjarnyrt hjá þeim norðanmönnum en mest vitleysa og væl. Blikar létu þett ekki trufla sig og fóru sér að engu óðslega, enda með góða forystu, og hægðu á leiknum.  Voru svo fastir fyrir og tóku vel á heimamönnum.  Engu að síður munaði í tvígang mjóu að heimamenn minnkuðu muninn, þegar þeir áttu, annarsvegar skalla, og hinsvegar misheppnaða fyrirgjöf sem hvorutveggja hafnaði í tréverkinu hjá Gunnleifi. Þar má segja að við höfum haft heppnina með okkur og kannski kominn tími til, myndi einhver segja. Næsta færi áttu svo Blikar þegar Ellert þrumaði í hliðarnetið eftir mikinn sprett, en örskömmu síðar minnkuðu heimamenn muninn og því ljóst að lokamínúturnar yrðu hressilegar og jafnvel spennandi, því eins og allir vita er eins marks forysta  fljót að hverfa ef men gá ekki að sér. En til að gera langa sögu stutta þá börðust Blikar hinsvegar eins og grenjandi ljón það sem eftir lifði leiks og vörðu stigin þrjú og markið með kjafti klóm, þannig að heimamenn, sem reyndu hvað þeir gátu að jafna metin, fengu varla færi eftir þetta. Blikar gerðu breytingu þegar tíu mínútur voru eftir og þá kom Elfar Árni inn í stað Árna Vill. Rétt fyrir lok venjulegs leiktíma munaði svo minnstu að Blikar bættu 3ja markinu við þegar flott sókn endaði með þrumuskoti (sýndist það vera Guðjón) sem markvörður Þórsara varði. Það kom hinsvegar ekki að sök og liðið náði að landa 3 gríðarleg mikilvægum stigum á erfiðum útvelli (já, grjóthörðum).
Þetta var fyrst og fremst flott frammistaða liðsheildarinnar og gríðarlega sterkt að geta skipt út mönnum og hvílt nú þegar leikjaálagið er í hámarki. Þeir sem komu inn í liðið voru frískir og stóðu sig vel eins og liði allt.

Blikar eru nú í 4. sæti með 23 stig eftir 11 leiki og eru farnir að anda oní hálsmálið á liðunum fyrir ofan sem flest hafa verið að tapa stigum. KR er nú (þegar þetta er skrifað) að tapa 2 leiknum í röð og FH hefur sömuleiðis verið að tapa stigum þannig að skyndilega er allt komið í hnapp  á toppi deildarinnar.
Þar ætlum við að vera í mótslok og því var þessi sigur algjör nauðsyn.

Næsti leikur okkar manna er seinni leikurinn í 2. umferð undankeppni Evrópudeildar UEFA. Sá leikur er í Austurríki n.k. fimmtudag, gegn Sturm Graz , eins og allir vita. Það verður gríðarlega spennandi að sjá hvort við náum að leggja heimamenn að velli. Eitt mark á útivelli er gulls ígildi, og ef það skyldi nú verða markalaust aftur hefur  Gunnleifur ekki miklar áhyggjur; ,,Við tökum þetta þá bara í vító”.

 Við sjáum til með það en miklu skiptir að allir eru heilir – fyrir utan þá sem hafa verið lengi á sjúkralistanum – og vonandi ná menn góðri hvíld fram til fimmtudags. Schnitzel skal snæða í hófi en hafa svínsleður á fótum og langa takka að sýna andstæðingunum. Ég veit að Doddi verður a.m.k með lengri gerðina.

Við óskum okkar mönnum góðrar ferðar til Graz og auk frábærrar frammistöðu væntum við þess að þeir verði sjálfum sér og félaginu til sóma með almennri kurteisi, utan vallar, snyrtilegum klæðaburði og fágaðri framkomu.

Áfram Breiðablik !

OWK

Til baka