BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sólon og Guðmundur sáu um ÍR

13.03.2016

Blikar unnu 2. deildarlið ÍR 4:1 í æfingaleik í Fífunni í gær. Sólon Breki Leifsson fór mikinn í upphafi leiks og setti tvö mörk á fyrstu fimm mínútunum. ÍR-ingar minnkuðu muninn fljótlega en Guðmundur Atli Steinþórsson bætti við þriðja marki Blika fyrir leikhlé eftir fallega sendingu frá Brassanum okkar Bamberg. Guðmundur Atli setti svo eitt mark til viðbótar í síðari hálfleik og þar við sat. 

Þrátt fyrir að Blikar tefldu fram varaliði sínu voru yfirburðir okkar miklir. Brasilíumaðurinn Daníel Bamberg sýndi lipra takta og greinilegt að hann er hörkuspyrnumaður. Sergio Carrallo barðist vel allan tímann og greinilegt að hann ætlar sér sæti í liðinu i sumar. En hann klappar boltanum enn aðeins of mikið! Guðmundur Atli sýndi að hann nýtir færin sín vel og verður áhugavert að sjá hvernig hann og Bamberg ná saman.

Jón Veigar Kristjánsson úr 2. flokki spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik og stóð vel fyrir sínu.

Svo vakti mikla athygli og kátínu áhorfenda þegar Kristófer Sigurgeirsson, 44 ára gamalla aðstoðarþjálfari meistaraflokksins kom inn á í sínum 188 leik fyrir meistaraflokk Breiðabliks. Höfðu menn á orði að Kristófer hefði verið eins og klettur í sókninni þann tíma sem hann var inn á!

-AP

Til baka