BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hlandfor!

07.08.2014

Blikar mættu Keflvíkingum í kvöld í 14.umferð PEPSI deildarinnar. Aðstæður voru frábærar í dalnum í kvöld. Logn til hægviðris og völlurinn í toppstandi eftir hressilega síðdegisskúr. Ágústkvöld eins og þau gerast best. Léttskýjað og hiti tæpar 14°C. Myndarlegir skúraklakkar á austurloftinu og þó mörkunum rigndi þá hélst hann þurr allann leikinn.  

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m)
Gísli Páll Helgason - Finnur Orri Margeirsson (F) - Elfar Freyr Helgason  - Arnór Aðalsteinsson
Höskuldur Gunnlaugsson - Andri Yeoman - Stefán Gíslason - Guðjón Pétur Lýðsson
Ellert Hreinsson - Árni Vilhjálmsson

Varamenn:
Arnór Bjarki Hafsteinsson (m)
Baldvin Sturluson
Elvar Páll Sigurðsson
Elfar Árni Aðalsteinsson
Jordan L. Halsmann
Oliver Sigurjónsson
Olgeir Sigurgeirsson

Sjúkralisti:
Damir Muminovic
Farinn í nám erlendis:
Tómas Óli Garðarsson


Í Dægradvöl, sjálfsævisögu Benedikts Gröndal er sagt frá því að einhverju sinni var Benedikt að dútla við smíðar i Bessastaðaskóla og lá sennilega ekki vel á honum. Rektor skólans kemur þá aðvífandi og spyr guttann hvað hann sé að smíða. Benedikt svarar heldur snúðugt; ,, Ég er að smíða hlandfor“. Rektor gekk snúðugt á braut.
Maður er svo fúll eftir þennan leik að svona svar kæmi sér vel núna. Bara álitamál hver spurningin ætti að vera. En svarið við þeim öllum er eiginlega ,,Hlandfor“. For helv....

Svo öllu sé til haga haldið skal nefna það að vel var að okkar mörkum staðið og það var glætan í leiknum. Guðjón með flotta aukaspyrnu í fyrsta markinu. Góður samleikur Árna og Höskuldar í marki nr. 2 og vel klárað hjá Höskuldi. 3ja markið kom eftir hornspyrnu, sem er sjaldgæft og jöfnunarmarkið kom eftir gott spil og góðan undirbúning Elfars Árna . Vel klárað hjá nýja manninum, Baldvin Sturlusyni sem kom með smá frekju inn á völlinn. Fínn leikmaður og hefði mátt koma inn á fyrr. Eins og hinir. En það er önnur saga.

Förum svo aðeins yfir yfir mörk gestanna í nokkrum kapítulum;

Mark #1.
Kom eftir hornspyrnu í kjölfar aulalegra mistaka okkar. Spyrnt á markteigshornið fjær þar sem stærsti maður andstæðingann var ódekkaður og hann skallaði boltann til baka og þar tók annar Keflvíkingur við honum og skallaði í netið. Einfalt. Alveg eins og það væru engir Blikar til staðar. En þeir voru a.m.k. 9 í teignum.

Mark#2.
Kelfvíkingar fengu allan heimsins tíma til að dóla með boltann við vítateig og svo var honum slengt inn á markteig. Brot eða ekki brot. Burtu með helv... boltann!

Mark#3.
Okkar mönnum tókst ekki að hreinsa og Keflvíkingur fer með boltann út úr teignum og að stúkuendanum sunnanmegin. Varnarmaður okkar pressar á hann ,,vitlausu megin“ – hverskonar varnarleikur er það? - og hinn lét ekki bjóða sér það tvisvar heldur fór beinustu leið upp að endamörkum og sendi botann fyrir. Þar var auðvitað andstæðingur fyrstur í boltann og sneiddi áfram á enn einn og sá klippt´ann í netið. Þetta var náttúrulega algjör hörmungar varnarleikur.

Mark#4.
Þar spólaði leikmaður Keflavíkur sig í gegnum miðju- og varnarmenn okkar eins og ekkert væri. Menn voru eins og algerir statistar þarna og horfðu bara á. Eina sem vantaði var að Blikar myndu klappa fyrir Keflvíkingnum. Slík var gestrisnin.

Að gefa 4 mörk  er ,,aðeins“ 4 mörkum of mikið til að það sé umborið. Hvern fjandann eru menn að spá?

Við erum núna 2 stigum frá fallsæti og leikmenn eru svo einbeitingarlausir að þeir taka ekki einu til varna þegar andstæðingurinn er búinn að fara 4 sinnum inn á bak við vörnina úr innkasti, og skapa stórhættu í öll skiptin. Ef við værum með eintóma byrjendur inná væri þetta kannski skiljanlegt en þessi mannskapur er langt frá því reynslulaus. En einbeitingin er núll og stundum hafði maður á tilfinningunni að mönnum væri slétt sama þó þeir væru teknir í bakaríið aftur og aftur. Engin viðbrögð.
Já, það var þyngra en tárum tók í kvöld að sjá liðið gera hver byrjendamistökin á fætur öðrum á eigin vallarhelmingi. Dekkningarnar – eða á maður að segja ,,ekki dekkningarnar“. Hvernig er þetta hægt?
Það er varla hægt að skrifa um þessi ósköp. Það er sóun á tíma og kílóbitum.
Ljósu punktarnir í okkar leik voru Höskuldur og Árni, eins og svo oft áður, og varamennirnir sem komu með smá líf í þetta og björguð því sem bjargað varð. Annars var þetta hvorki roð né fiður.
Ekki einu sinni hundurinn er nógu meðvirkur til að gleðjast yfir stiginu í kvöld. Því miður. Það þarf meira til að gleðja hann. Og gleðst hann þó yfir flestu.

Næsti leikur er gegn Fjölni í Grafarvoginum á mánudaginn kemur. Vonandi verður ekki boðið upp á svona hörmungarframmistöðu aftur. Það er fallbarátturslagur ef einhverjir skyldu ekki vera með það alveg á hreinu.

Áfram Breiðablik !

OWK

Til baka