BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Skipbrot á Skipaskaga

12.09.2025 image

Það var á fallegum fimmtudegi sem brunað var upp á Skipaskaga til að horfa á Breiðablik spila við botnlið deildarinnar.

Byrjunarlið Breiðabliks var þannig skipað: Anton Ari Einarsson, Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði, Arnór Gauti Jónsson, Óli Valur Ómarsson, Kristinn Steindórsson, Valgeir Valgeirsson, Davíð Ingvarsson, Kristinn Jónsson, Viktor Örn Margeirsson, Damir Muminovic, Tobias Bendix Thomsen

Veðrið var mjög gott, hlýtt en smá gola úr austri. Hamborgararnir voru góðir þótt þeir jöfnuðust ekki á við hinn eina sanna Blikaborgara. Kaffið rann ljúft niður, það er að segja þar til á tólftu mínútu er mér svelgdist illa á svarta gullinu. Skagamenn komust í sókn og satt að segja frekar slöpp fyrirgjöf kom fyrir frá Jóhannesi Vall. Hins vegar tókst varnarmönnum blika ekki að hreinsa í tvígang og skagamenn skoruðu. slök varnarvinna hjá okkar piltum. Svona mörk á lið í toppbaráttu ekki að fá á sig. En leikurinn var rétt að byrja og nægur tími til að jafna og nóg eftir af kaffinu. Eða það hélt ég. Hins vegar eftir því sem tíminn leið í fyrri hálfleik var nokkuð ljóst að það var alls ekki að fara að gerast að við myndum jafna. Blikar voru andlausir og virkuðu þreyttir og kraftlausir. Nelgdu oftast boltanum fram. Hvað var það? Það þarf ekki að segja neitt meira um þennan hálfleik sem var það versta sem ég hef séð í mörg ár frá liðinu. Jú Kristinn átti reyndar skot í stöng en það var það eina sem var að frétta af Blikum í þessum fyrri hálfleik.  Á þrítugustu og sjöundu mínútu skoraði Gísli Laxdal mark, aftur eftir merkilega kraftlausan varnarleik Blika. Skagamenn tvö núll yfir í hálfleik. Mjög sanngjarnt

Seinni hálfleikur var samt eftir og Blikar skora alltaf svo engin ástæða til að örvænta. Engin vafi er á því að seinni hálfleikur var aðeins skárri hjá Blikum. Aðeins en ekki mikið. Liðið reyndi virkilega að skora en virkaði bara hægt og kraftlaust. Það var eins og þeir bara vissu ekki alveg hvernig þeir ætluðu að tækla þennan leik. Maður sá ekki alveg hvernig þeir ætluðu að fara að því að skora. Í fyrri hálfleik sendi liðið mjög oft langa bolta fram, mögulega vegna roksins, en í þeim seinni var þó reynt að spila. Hins vegar var spilið bara alveg svakalega hægt og ómarkvisst. Það vantaði allan hraða og ákefð. Ágúst Orri, Kristófer og Guðmundur komu svo inn á fyrir Óla Val, Tobias og Kristinn Jónsson á sextugustu mínútu. Þeir reyndu allir sitt besta en ekkert gekk. Þannig að því miður var það bara sanngjarnt er Skagamenn skoruðu. Steinar Þorsteinsson skoraði síðasta markið úr skyndisókn í uppbótartíma. Því miður mjög sanngjarnt þriggja marka tap gegn botnliðinu staðreynd. Ekkert meira að segja um það. Nú þarf liðið bara að rýna leikinn og rífa sig upp og í gang fyrir komandi átök.

ÚHE

Til baka