BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sigur í kaflaskiptum leik

15.03.2014

Blikar unnu mikilvægan sigur 1:2 á Keflavík í Reykjaneshöllinni í dag í Lengjubikarnum. Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur en í heildina má segja að sigur okkar manna  hafi verið nokkuð sanngjarn. Það voru þeir Guðjón Pétur Lýðsson og Stefán Gíslason sem settu mörk okkar pilta í dag.

Fyrri hálfleikur var nokkuð sérkennilegur. Við byrjuðum mun betur og yfirspiluðum heimamenn á löngum köflum. Við fengum dæmda vítaspyrnu og úr henni skoraði Guðjón Pétur örugglega. Áfram héldum við að pressa þá dökklæddu og áttum að fá aðra vítaspyrnu á 22. mínútur þegar Tómas Óli var greinilega felldur í teignum. En dómarann brast kjart til að dæma aðra spyrnu. Síðan gerðist eitthvað óskiljanlegt á síðustu 10 mínútum fyrri hálfleiks. Okkar drengir virtust hætta að spila boltanum og gerðu sig seka um hver mistökin á fætur öðrum. Miðju-, varnar- og sóknarmenn okkar gáfu boltann í fætur Keflavíkinga sem þökkuðu pent fyrir sig og pressuðu stíft á okkur. Það kom þvi ekki á óvart að dæmd var vítaspyrna á okkur sem heimadrengirnir skoruðu örugglega úr. Einnig áttu Keflvíkingar tvo skot í stöng á þessum lokakafla hálfleiksins. Við gátum því vel við unað að vera ekki undir í leikhléi.

Ólafur tók Blikaliðið inn í búningsklefa í leikhléi og las hressilega yfir mannskapnum. Það var því mun hressara yfir þeim grænklæddu og fljótlega kom Stefán Gíslason okkur yfir aftur með flottum skalla eftir mjög góða hornspyrnu Guðjóns Péturs. Það sem eftir lifði leiks skiptust liðin á að sækja en mörkin urðu ekki fleiri og við lönduðum því þremur mikiklvægum stigum í toppbaráttu A-riðils.

Finnur Orri og Guðjón Pétur átti heilt yfir góðan leik á miðjunni. Finnur Orri virðist vera að styrkjast gríðarlega og má búast við að hann geti tekið skrefið að verða einn besti miðjumaður deildarinnar í sumar.  Stefán Gíslason spilaði sinn fyrsta leik með Blikaliðinu hér á landi og kom með ró og yfirvegun inn í vörnina og síðar miðjuna. Það er hins vegar áhyggjuefni hversu auðveldlega Keflvíkingar komust upp kantana í leiknum og þarf að koma í veg fyrir þann leka. Gunnleifur markvörður var fjarverandi vegna veikinda en Arnór Bjarki Hafsteinsson tók stöðu hans í markinu og gerði það með sóma. 

Með þessum sigri fórum við á topp A-riðils með 10 stig. En næsta laugardag kl.11.00 koma röndóttir KR-ingar í heimsókn og etja kappi við okkur í Fífunni. Ekki er ólíklegt að það verði úrslitaleikur um sigur í riðlinum þannig að þá er um að gera að koma og hvetja okkar drengi til sigurs.

-AP

Til baka