BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sanngjarn sigur á býflugunum frá Brentford

04.03.2023 image

Mynd: Byrjunarlið Blika í leiknum

Blikaliðið vann góðan og sanngjarnan 2:0 sigur á varaliði úrvalsdeildarliðsins Brentford frá Englandi. Leikurinn fór fram í Portúgal þar sem drengirnir okkar eru um þessar mundir við æfingar og keppni. Blikar voru mun betri aðlinn í leiknum og mörk frá Viktori Karli og varamanninum Eyþóri Aroni Wöhler tryggðu okkar piltum þennan fína sigur.

Það eru 24 leikmenn í æfingaferðinni og allir eru þeir heilir! Það var því töluverður höfuðverkur fyrir þjálfarateymið að stilla upp byrjunarliðinu.En líklegast setti Blikaliðið Íslandsmet, jafnvel heimsmet í fjölda varamanna á bekknum því það voru hvorki fleiri né færri en þrettán leikmenn tilbúnir að koma inn á. Pétur Þórir Pétursson fréttaritari blikar.is í Portúgal var mjög hrifinn af leik Blikaliðsins. Sagði hann að þetta hefði verið mun betri leikur en leikur Breiðabliks og Brentford B á sama tíma í fyrra en Blikar unnu þann leik samt 2:1. Blikaliðið átti 6-7 góð færi og hefði því getað  unnið leikinn stærra. Enska liðið átt í raun bara eitt færi en þar varði Anton Ari snilldarlega í markinu. ,,Önnur liðá Íslandi  þurfa að vera helv...góð ef þau eiga að geta veitt Blikaliðinu samkeppni í sumar,“ voru lokaorð fréttaritara okkar. Þessi orð hlutlauss álitsgjafa gleðja auðvitað Blikahjörtu um allan heim!

Næsti leikur Blikaliðsins í þessari æfingaferð er gegn sænska úrvalsdeildarliðinu Elfsborg og verður sá leikur á fimmtudaginn. Blikar.is verður að sjálfsögðu á staðnum og flytur ykkur fréttir af leiknum!

-AP

Myndaveisla.

Til baka