BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sá armi Stjörnuþrjótur á Hlíðarenda

28.05.2018

Völlurinn á Hlíðarenda hafði verið vökvaður duglega fyrir leik Vals og Breiðabliks, bæði af guðum og mönnum, og það rigndi allar 94 mínúturnar. Aðstæður á teppinu voru því hinar ákjósanlegustu.

Blikar tefldu fram kunnuglegu byrjunarliði með Gunnleif í markinu, Damir og Elfar Frey í hjarta varnarinnar, Jonathan Hendrickx og Davíð voru bakverðir, Andri Rafn og Oliver tóku hitann af vörninni á miðjunni, Arnþór Ari, Gísli og Aron Bjarna voru þar fyrir framan og Sveinn Aron fremstur. Nánar um byrjunarliðið á ksí og úrslitnet.

Það var ljóst að Valsmenn þurftu nauðsynlega á sigri að halda og höfðu á orði að það væri lykilatriði að stöðva Gísla Eyjólfsson. Þeir komu enda sterkari til leiks – en bara fyrstu fjórar mínúturnar. Þá var eins og Blikar næðu vopnum sínum og sýndu sitt rétta andlit.  Okkar menn fóru reglulegar áætlunarferðir upp hægri kantinn í fyrri hálfleik, þar sem Arnþór Ari og Hendrickx voru í lykilhlutverki.

Á 13. mínútu dró til tíðinda. Aron Bjarnason hóf sókn á vinstri kanti á vallarhelmingi Blika, sendi yfir á hægri vænginn á Arnþór Ara, Hendrickx kom  í utanáhlaup en Arnþór sendi boltann í staðinn hægra megin inn á teiginn þar sem Aron Bjarnason var mættur eftir góðan sprett. Hann færði boltann yfir á vinstri fótinn og lagði hann snyrtilega í fjærhornið. Var það samdóma álit allra er vit höfðu á að forystan væri algjörlega verðskulduð.

Blikar voru mun öflugri og Valsmenn ógnuðu marki Blika lítið. Um miðjan hálfleikinn sparkaði Haukur Páll fyrirliði heimamanna Gísla illilega niður við eigin vítateig eftir að sá síðarnefndi var búinn að losa sig við boltann. „Hverslags eiginlega skaphundur er þetta!“ hrópaði sessunautur tíðindamanns Blikar.is á vinstri hönd. Hendrickx tók aukaspyrnuna en það var algjör æfingabolti fyrir markmann Vals, sagði ellefu ára sessunautur á hægri hönd.

Blikar féllu til baka um miðjan hálfleikinn, vörnin var þétt og okkar menn voru snöggir í skyndisóknir. Aftur á móti mátti litlu muna á 23. mínútu þegar Birkir Már Sævarsson sýndi hvers vegna hann er á leið til Rússlands. Hann náði vonlausri sendingu uppi við endamörk og náði að gefa hættulega sendingu fyrr. Elfar Freyr bjargaði hins vegar af miklu snarræði.

Á þessum tíma voru Blikar á undan í alla bolta og virtust hafa öll tök á vellinum. Á 33. mínútu kom það sem tíðindamaðurinn hafði óttast – að okkar gamli félagi Guðjón Pétur Lýðsson galdraði fram einhverja snilld sem myndi breyta leiknum. Hann skaut föstu skoti rétt utan teigs sem Gunnleifur varði en missti boltann frá sér. Patrick Pedersen var eins og hrægammur í teignum og kom boltanum í markið – en var sem betur fer rangstæður. Hárréttur dómur að mati vísustu manna.

Þó að Valsmenn færðust í aukana er leið að lokum fyrri hálfleiks voru Blikar mun hættulegri. Gísli átti frábæra sendingu upp kantinn á Svein Aron en skot hans var varið. Skömmu síðar kom önnur glæsilega útfærð skyndisókn hjá léttleikandi Blikum með einnar snertingar spili út úr vörninni sem endaði með hörkuskoti Olivers, rétt framhjá.

Vonleysið skein úr augum Valsmanna sem kristallaðist kannski í því að þeir tóku upp á því að þruma knettinum út af og í áttina að tökumanni Stöðvar 2 í lok hálfleiksins sem var algjörlega ómaklegt.

Í uppbótartíma var mark dæmt af Hauki Páli vegna rangstöðu. Aftur hárréttur dómur, að mati allra sanngjarna manna. Það var eins og heilladísirnar væru gengnar í lið með Blikum.

Gestirnir voru að vonum kátir í hálfleik, enn einu sinni höfðu Blikar haldið hreinu í fyrri hálfleik í sumar, menn höfðu miklar vonir um sigur, þetta liti vel út og hugur í mönnum yfir kaffinu.

Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn með því að skjóta nokkrum sinnum á markið, án þess að skapa neina verulega hættu.  Valsmenn ógnuðu hins vegar marki gestanna þegar Haukur Páll sendi frábæra sendingu á Guðjón Pétur sem gaf fyrir en Elfar Freyr bjargaði.

Hinum megin áttu Blikar glæsilega skyndisókn en sendingin á Arnþór Ara inn fyrir var of föst.

Á 62. mínútu jöfnuðu Valsmenn þvert gegn gangi leiksins. Þeim tókst að lokka Damir út á kantinn úr hjarta varnarinnar, Kristinn Ingi sendi fyrir markið þar sem Patrick Pedersen kom aðvífandi eftir að Elfar virtist gleyma sér í vörninni.

Ágúst Gylfason skipti þá Aroni Bjarnasyni út fyrir Viktor Örn en Aron hafði verið með sprækari mönnum vallarins.

Á næstu mínútum skiptust liðin á að sækja án þess að mikil hætta skapaðist. Á 73. mínútu stal Hendrickx boltanum á hægri kanti við vítateig Valsmanna og brunaði af stað. Heimamenn brutu á honum örfáa millimetra frá vítateigslínunni en ekkert varð úr aukaspyrnunni. Þarna hefði Valsarinn sannarlega mátt sparka hann niður sekúndubroti seinna svo við fengjum víti – eða dómarinn að láta sanngirni ráða för.

Á þessum mínútum var Davíð afar öflugur á vinstri kantinum og átti margar fínar fyrirgjafir sem sóknarmönnunum tókst þó ekki að gera sér mat úr. Á 87 mínútu kom enn ein hröð sókn Blika en slök sending Arnþórs Ara lenti í höndum markvarðar heimamanna í stað þess að rata í lappirnar á Gísla. Blikar voru hættulegri aðilinn, þeir voru líklegri og það var ekkert sem benti til þess að ógæfan biði handan við hornið.

Mínútu eftir þessa snörpu sókn Blika kom reiðarslagið. Ólafur Karl Finsen, sá armi Stjörnuþrjótur, hafði verið inni á vellinum í þrjár mínútur og ekki enn komið við boltann þegar hann var skyndilega á auðum sjó í miðjum teig Blika. Hann lét ekki bjóða sér það tvisvar heldur afgreiddi knöttinn örugglega í markið – í sínum fyrsta leik í sumar og líklega í eina skiptið sem hann snerti boltann í þann skamma tíma sem hann spilaði í leiknum. Þarna sofnaði vörnin illilega á verðinum.

Í uppbótartíma gerðu Blikar harða hríð að marki Valsmanna og náði hún hámarki á lokasekúndu leiksins. Elfar Freyr skaut þrumuskoti af markteig en líklega er enn verið að leita að boltanum í Vatnsmýrinni.

Kannski var það eftir öðru á miklum rigningardegi að fá svona blauta tusku í andlitið í lok leiksins en það var engu að síður heldur ömurleg niðurstaða – og afar ósanngjörn.

Blikar sýndu allar sínar bestu hliðar í þessum leik, þeir geisluðu af sjálfstrausti, spiluðu af öryggi og hefðu klárlega getað farið heim með öll stigin. Tvenn varnarmistök reyndust dýrkeypt en þeir hefðu líka mátt vera beinskeyttari fram á við. Of margar frábærar skyndisóknir runnu út í sandinn af því að lokasendingin var ekki nógu nákvæm.

Valsmenn ætluðu sér að stöðva Gísla en samkvæmt óopinberri talningu tíðindamanns Blikar.is var ekki brotið nema fimm sinnum á honum í leiknum (þrisvar dæmt), þar af sló fyrirliði Vals heldur ókristilega til hans í eitt skipti án þess að dómarinn sæi. Gísli hafði því ágætis pláss á miðjunni og átti ógnandi spretti en það vantaði svo sem eins og eina litla sæta neglu á rammann ...

Vörnin stóð sig frábærlega, fyrir utan þessi mistök sem kostuðu mörkin, miðjan var þétt með Oliver og Andra Rafn sem algjöra kónga og sérstaklega er gaman að sjá að Oliver er að nálgast sitt fyrra form. Sóknarmenn Blika áttu líka prýðilegan leik og í raun er erfitt að setja út á frammistöðu okkar manna, þrátt fyrir rýra eftirtekju.

Það hlaut að koma að fyrsta (og eina?) tapi sumarsins og kannski ekkert verra að það skuli hafa gerst á Hlíðarenda. Næst er það KR á heimavelli í bikarnum á miðvikudaginn og svo Stjarnan á Kópavogsvelli á sunnudaginn  og eigum við ekki að líta svo á að með marki Ólafs Karls Finsen hafi Stjörnumenn skorað nóg hjá okkur í sumar?

PMÓ

Umfjallanir netmiðla

Myndaveisla í boði Fótbolta.net

Til baka